Frumvarp til laga um bann við umskurði kvenna
Skoða frumvarp til til laga um bann við umskurði kvenna, þskj. 201 - 198. mál
Skoða feril málsins.
Umsögn umboðsmanns barna
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 6. september 2004
Tilvísun: UB 0409/4.1.1
Efni: Frumvarp til laga um bann við umskurði kvenna, 198. mál.
Vísað er til bréfs heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis, dagsett 14. maí 2004, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp.
Umskurður er alvarleg líkamsmeiðing og misþyrming á ungum stúlkum og því refsiverður hér á landi samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Einnig hlýtur verknaðurinn að teljast brot á barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Með framkomnu frumvarpi er lagt til að til viðbótar framangreindum ákvæðum verði sett sérstök lög um bann við umskurði kvenna. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að eftir því sem sérlög, er banni umskurð, verði algengari verði erfiðara að viðhalda þessari fornu hefð sem veldur tjóni á lífi, líkama, andlegri heilsu og líðan barna. Þá segir að umskurður byggist einungis á fornum sið án þess að fyrir honum séu einhver rök.
Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, er öðlaðist gildi á Íslandi árið 1992, segir í 3. mgr. 24. gr að aðildarríki skuli gera allar þær ráðstafanir sem vænlegar eru til árangurs og við eigi í því skyni að ryðja úr vegi hefðum sem séu skaðlegar heilbrigði barna. Þá segir jafnframt í 19. gr. að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun …
Ég tel framkomið frumvarp eiga fyllilega rétt á sér og að fyrirbyggjandi áhrif þess geti orðið mikil. Sú staðreynd að enn sé ekki þekkt dæmi þess að umskurður hafi farið fram á stúlkubarni hér á landi, þýðir ekki að íslenski löggjafinn þurfi ekki að huga að þessum málum. Það gefur, þvert á móti, gott tækifæri til að grípa inn í áður en brot hefur verið framið og um leið senda skýr skilaboð út í alþjóðasamfélagið að ofbeldi gegn börnum verði ekki liðið hér á landi.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fyrningarfrestur vegna brota samkvæmt því hefjist daginn sem brotaþoli nær 14 ára aldri. Af þessu tilefni vil ég benda á tillögu mína frá árinu 1997 um breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, þess efnis að kynferðisbrot gegn börnum myndu ekki fyrnast eða til vara, að tekinn yrði upp sérstakur fyrningarfrestur að því er varðaði þessi brot, t.d. 25 ára fyrningarfrestur. Þessa tillögu bar ég fyrst upp við dómsmálaráðherra í kjölfar útgáfu skýrslunnar “Heggur sá er hlífa skyldi”, sem fjallar um kynferðisbrot gegn börnum og unglingum. Síðan hef ég af og til hvatt til breytinga á reglum um fyrningarfresti hvað þessi alvarlegu brot gegn börnum varðar, en ekki orðið ágengt. Með vísan til raka er fram koma í meðfylgjandi skýrslu (sjá bls. 28-29), vil ég hvetja til þess að ákvæði frumvarpsins um fyrningarfrest verði endurskoðað og þar mælt fyrir um að brot gegn því fyrnist ekki.
Ég tek heilshugar undir það sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu um mikilvægi þess að Íslendingar leggi sitt af mörkum til að þessi forna hefð verði aflögð og þannig komið í veg fyrir limlestingu stúlkubarna, og styð því samþykkt frumvarpsins á hinu háa Alþingi.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal
Meðfylgjandi:
Skýrslan “Heggur sá er hlífa skyldi”