Frumvarp til laga um ættleiðingar
Allsherjarnefnd Alþingis óskaði umsagnar umboðsmanns barna um frumvarp til laga um ættleiðingar, 68. mál, heildarlög. Umsögn sína veitti umboðsmaður með bréfi, dagsettu 11. nóvember 1999.
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 11. nóvember1999
Tilvísun: UB 9911/4.1.1
Efni: Frumvarp til laga um ættleiðingar
[...] Á síðasta ári óskaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið þess að ég léti í té umsögn mína um drög að frumvarpi til ættleiðingarlaga, dagsett 30. september 1998. Ég kynnti mér þá efnisatriði frumvarpsdraganna, einkum með tilliti til þeirra breytinga sem þar voru lagðar til. Einnig kynnti ég mér helstu breytingar, er átt hafa sér stað í norrænni löggjöf á þessu sviði að undanförnu, og ætlað er að tryggja betur réttarstöðu barna, sem óskað er eftir að ættleitt verði
Niðurstaða mín er sú að ekki verði betur séð en að fyrirliggjandi frumvarp fylgi að meginstefnu til þeim áherslubreytingum, sem átt hafa sér stað í löggjöf um ættleiðingar á hinum Norðurlöndunum, og er það fagnaðarefni.
Í 6. gr. frumvarpsins eru fólgin ein mikilvægustu mannréttindi barna, þ.e. réttindi þeirra til að tjá skoðanir sínar. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er því slegið föstu að barn eigi rétt til að tjá skoðanir sínar í öllum málum er það varðar, að á skoðanir þess skuli hlustað og jafnframt að skoðanir þess skulu virtar, með hliðsjón af aldri barns og þroska. Þetta ákvæði er að finna í 12. gr. samningsins, en þar er sérstaklega vikið að þessum mikilvæga rétti barns við meðferð máls fyrir dómstólum og stjórnvöldum. Það sem skiptir hér sköpum, verði frumvarp þetta að lögum, er hvernig framkvæmd þessa ákvæðis verður háttað af hálfu stjórnvalda. Þegar stjórnvöld taka ákvarðanir, sem varða börn, ber þeim ætíð að hafa að leiðarljósi það sem barni er fyrir bestu, sbr. 3. gr. fyrrnefnds samnings. Til að unnt sé að taka slíka ákvörðun verða sjónarmið barnsins sjálfs að liggja til grundvallar, því er nauðsynlegt að ræða við barnið sjálft, hlusta á skoðanir þess og virða, að teknu tilliti til aldurs barnsins og þroska.
Í 26. gr. frumvarpsins er að finna nýmæli um skyldu kjörforeldra til að skýra kjörbarni sínu frá því jafnskjótt og það hefur þroska til, að það sé ættleitt. Þessi breyting á íslenskum ættleiðingarlögum er löngu tímabær og í samræmi við ákvæði 7. og 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Vil ég sérstaklega fagna þessu nýmæli. [...]
Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal