Frumvarp til barnalaga - ráðgjöf í umgengnis- og forsjármálum
Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til barnalaga, 314. mál, ráðgjöf í umgengnis- og forsjármálum. Umsögn sína veitti umboðsmaður með bréfi, dagsettu 18. janúar 2001.
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 18. janúar 2001
Tilvísun: UB 0101/4.1.1
Efni: Frumvarp til barnalaga - ráðgjöf í umgengnis- og forsjármálum
Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 12. desember 2000, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp.
Á hverju ári berast embætti mínu stöðugt fleiri erindi og fyrirspurnir frá fullorðnum sem börnum varðandi mannréttindamál barna á öllum sviðum samfélagsins, sbr. nánar skýrslur mínar til forsætisráðherra um störf mín á árunum 1995-1999, sem sendar hafa verið á ári hverju til allra alþingismanna. Auk þess er unnt að nálgast þær á heimasíðu embættisins, slóðin er www.barn.is og útgáfa.
Erindi sem tengjast erfiðleikum við skilnað eða sambúðarslit foreldra hafa öll þau ár, sem ég hef gegnt embætti umboðsmanns barna, verið ákaflega fyrirferðarmikil. Börn hafa augljósa þörf fyrir að geta rætt við einhvern sem þau geta treyst þegar miklir erfiðleikar steðja að fjölskyldulífinu. Þau þurfa oft og tíðum að spyrja ýmissa spurninga. sem koma upp í huga þeirra þegar skilnaður foreldra er í augsýn, en því miður þá fá mörg þeirra ekki næga athygli foreldra sinna, sérstaklega ekki þegar deilur þeirra í milli eru harðskeyttar. Hagsmunir barnanna eru oft og tíðum fyrir borð bornir, þar sem skoðanir þeirra og sjónarmið virðast ekki ná eyrum hinna fullorðnu, sem að þessum málum koma. Þetta er áhyggjuefni og þörf á raunverulegum úrbótum. Því er framkomið frumvarp vissulega fagnaðarefni hvað þetta varðar. Ég tel þó nauðsynlegt að vekja athygli allsherjarnefndar á tveimur atriðum sem ég tel rétt að taka til nánari skoðunar.
Allt frá árinu 1996, hef ég bent á brýna nauðsyn þess að komið verði á fót opinberri fjölskylduráðgjöf fyrir hjón og sambúðarfólk, sem hyggjast skilja. Mín skoðun er sú að þessi ráðgjöf ætti að vera í höndum sérfræðinga á ýmsum sviðum. Þá hef ég ætíð lagt ríka áherslu á að börn ættu að eiga greiðan aðgang að ráðgjöf þessari eftir því sem vilji þeirra og þroski stendur til. Á minnisblaði, sem dagsett er í janúar 2001 og fylgir hér með, er að finna samantekt yfir afskipti mín af þessum málum gegnum síðustu árin.
Í 1. gr. frumvarpsins segir m.a. „Sýslumaður skal bjóða aðilum umgengnis- og forsjármála sérfræðiráðgjöf til lausnar máli... Sýslumaður skal einnig bjóða barni, sem náð hefur 12 ára aldri, ráðgjöf og getur einnig boðið yngra barni ráðgjöf, ef hann telur það þjóna hagsmunum þess.“ Í athugasemdum með þessari grein frumvarpsins segir síðan orðrétt: „Við ákvörðun um það hvort börnum skuli boðin ráðgjöf skv. 1. mgr. er við það miðað að hún skuli ávallt boðin þegar börn eiga rétt á að tjá sig um mál skv. 1. málsl. 4. mgr. 34. gr. og lokamálslið 6. mgr. 37. gr. barnalaga og enn fremur ef sýslumaður eða ráðgjafi telur rétt að bjóða börnum yngri en 12 ára ráðgjöf, miðað við aldur þeirra og þroska.“
Skilnaður eða sambúðarslit foreldra er óneitanlega erfið lífsreynsla fyrir langflest börn. Við skilnaðinn er heimilið leyst upp og barnið þarf að aðlagast nýjum aðstæðum. Oft vill það brenna við að þau fara á ómeðvitaðan hátt að "taka að sér" margvísleg hlutverk í skilnaðarferlinu, þau bera boð, þau verða tengiliðir, staðgenglar og sálusorgarar fyrir foreldrana. Önnur taka á sig sorgir og vanlíðan foreldra sinna og glíma við margvísleg einkenni, Enn önnur, og þá oftast unglingar "forða sér" með því að sökkva sér í eigin verkefni, leita inná önnur heimili eða það sem verra er, leita í eyðileggjandi félagsskap og athafnir. Allt þetta mynstur ber merki um rót og átök í átt til nýrrar aðlögunar líkt og kemur fram við önnur áföll og kreppur. Til þess að úr verði uppbyggileg úrvinnsla þurfa börnin oftar en ekki aðstoð til að beina málum í réttan farveg.
Með vísan til þessa alls tel ég ekki rétt að inn í barnalögin verði sett tiltekið aldursmark barns til að eiga rétt á sérfræðiráðgjöf við þessar erfiðu aðstæður í lífi þess, heldur eigi það að ráðast af þroska hvers og eins, sem og vilja, hvort ráðgjöf er þegin.
Það myndi endurspegla betur þau sjónarmið sem birtast í 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, þar sem segir m.a., að aðildarríki skuli tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Með ákvæðinu er tryggður réttur allra barna til að koma skoðunum sínum á framfæri m.a. við stjórnvöld, að á þau sé hlustað og mark tekið á skoðunum þeirra með tilliti til aldurs og þroska.
Þá er það skoðun mín að nauðsynlegt sé að skylda hjón eða sambúðarfólk, með börn yngri en 18 ára á framfæri sínu, til að leita sérfræðiráðgjafar áður en til skilnaðar eða sambúðarslita getur komið, a.m.k. í eitt skipti. Þetta er að mínu mati algjör forsenda þess, ef fram fer sem horfir, að sameiginleg forsjá verði hið eðlilega og venjulega forsjárfyrirkomulag við skilnað eins og reyndin er á hinum Norðurlöndunum. Markmið ráðgjafar hlýtur að vera að fræða foreldra um réttaráhrif skilnaðar, sem og að greiða úr brýnum vandamálum er upp koma í tengslum við skilnað eða sambúðarslit, svo sem varðandi umgengni. Fyrirbyggjandi starf sem þetta ætti að koma í veg fyrir þann skaða sem illskeyttar deilur vegna skilnaðar foreldra valda börnum. Til mikils er því að vinna.
Með framangreindum athugasemdum, fagna ég umræddu frumvarpi, sem framfaraspori í átt til bættrar opinberrar þjónustu við borgarana, jafnt börn sem foreldra.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal