9. mars 2004

Frumvarp til almennra hegningarlaga og tillaga til þingsályktunar um ábyrgð þeirra sem reka netþjóna

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til almennra hegningarlaga, 138. mál, barnaklám á neti og í tölvupósti og tillögu til þingsályktunar um ábyrgð þeirra sem reka netþjóna, 139. mál.  Umsögnin er dagsett 9. mars 2004.

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 9. mars 2004
Tilvísun: UB 0403/4.1.1

Efni: Frumvarp til almennra hegningarlaga og tillaga til þingsályktunar um ábyrgð þeirra sem reka netþjóna

Vísað er til bréfa allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 18. febrúar 2004, þar sem annars vegar er óskað er eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp og hins vegar ofangreinda þingsályktunartillögu.

I

Ég lýsi yfir ánægju minni með framkomið frumvarp, sem miðar að ríkari refsivernd barna gegn efni af kynferðislegum eða klámfengnum toga sem þau fá sent með atbeina tölvu- eða fjarskiptatækni. Mikilvægi þeirrar verndar er óumdeilt og tel ég frumvarpið skref í þá átt að íslenska ríkið uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Í 17. gr. sáttmálans kemur m.a. fram, að aðildarríki viðurkenni mikilvægi fjölmiðla, og skuli þau sjá um að barn eigi aðgang að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna frá eigin landi og erlendis frá, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri, andlegri og siðferðislegri velferð þess, og líkamlegu og geðrænu heilbrigði. Aðildarríki skuli í þessu skyni: …e) Stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi leiðbeiningareglur um vernd barns fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þess, með ákvæði 13. og 18. gr. í huga.

Þetta ákvæði 17. gr. hefur verið skýrt á þann veg að það taki til Netsins, sem og annarra fjölmiðla, og því skuli í aðildarríkjum Barnasáttmálans mótaðar reglur um vernd barns fyrir upplýsingum og efni sem birtist á Netinu og getur skaðað velferð þess. Netið er þess eðlis, að erfitt getur verið að ná til ábyrgðarmanna þess efnis, sem þar birtist. Hægt er að skýla sér á bakvið dulnefni og fela slóð sína þannig að nánast ómögulegt er að rekja hana.

Með vísan til þessa vil ég vekja sérstaka athygli á mikilvægi þess að samhliða lagasetningu þeirri, sem stefnt er að, verður jafnframt að skapa þau úrræði, sem nauðsynleg eru til að framfylgja lögunum. Þegar tekin er ákvörðun um breytingu á löggjöf, verður að gæta þess að þær breytingar séu í samræmi við raunveruleikann  þannig að lögin verði ekki dauður bókstafur sem almennt er ekki farið eftir. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að ekki sé verið að veita börnum og foreldrum þeirra „falskt“ öryggi með lagasetningu, sem ekki er hægt að fylgja eftir með aðgerðum.

Til að tryggja öryggi barnanna og virkni laganna verður að skapa lögreglunni þær aðstæður að henni sé gert mögulegt að sinna rannsókn slíkra mála á skilvirkan hátt. Slíkri skilvirkni verður aðeins náð með því að lögreglan hafi yfir sérþekkingu, sem og nauðsynlegum tækjum að ráða.

II

Samhliða framangreindu frumvarpi um breytingu á 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er lögð fram tillaga til þingsályktunar um ábyrgð þeirra, sem reka netþjóna.

Ég vil taka undir það sem fram kemur í athugasemdum með þingsályktunartillögunni, sem og í skýrslu nefndar, er falið var að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis (dómsmálaráðuneytið 2002), að lög sem gerðu rekstraraðila netþjóna ábyrga fyrir því efni sem þar er að finna, væru til bóta.

Ef ráðist verður í framangreindar breytingar á 210. gr. almennra hegningarlaga er mikilvægt að standa vel að málum allt frá upphafi og tel ég það því rétt að samþykkja umrædda tillögu og hefja könnun á því hvort ákvæði, sambærilegt við það sem er að finna í sænskum lögum, brjóti í bága við tilskipun Evrópusambandsins, nr. 31/2000.

III

Með vísan til framangreinds og með þeim fyrirvörum, er þar koma fram, mæli ég með samþykkt frumvarpsins, sem og þingsályktunartillögunnar.


 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica