30. mars 2004

Frumvarp til almennra hegningarlaga

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til almennra hegningarlaga, 520. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður með bréfi, dagsettu 30. mars 2004.

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 30. mars 2004
Tilvísun: UB 0403/4.1.1

Efni: Frumvarp til almennra hegningarlaga, 520.

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 10. mars 2004, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp.

Á árinu 1997 lagði ég til við þáverandi dómsmálaráðherra að tekið yrði upp ákvæði í almenn hegningarlög þar sem mælt væri fyrir um, að kynferðisbrot gegn börnum fyrnist ekki eða til vara að tekinn yrði upp sérstakur fyrningarfrestur að því er varðar þessi brot, t.d. 25 ára fyrningarfrestur. Rök mín voru aðallega þessi:

Sum alvarleg brot, svo sem manndráp, fyrnast ekki samkvæmt ákvæðum alm. hgl. Fyrningarfrestur getur annars orðið lengstur 15 ár samkvæmt ákvæðum 81. gr. alm. hgl. Börn hafa eðlilega ekki sömu hæfileika til að gera sér grein fyrir aðstæðum eða til að átta sig á því að um refsivert athæfi hafi verið að ræða þegar þau eru beitt kynferðislegri misnotkun. Af þeim sökum hafa þau því oft og tíðum enga möguleika á því að kæra kynferðisbrot innan þess fyrningarfrests sem í gildi er samkvæmt lögum. Kynferðisofbeldi gagnvart börnum er hins vegar einhver allra alvarlegasti glæpur sem framinn er… Sjá nánar skýrsluna Heggur sá er hlífa skyldi, útgefin af umboðsmanni barna árið 1997, bls. 2. Þessu til viðbótar leyfi ég mér að vísa til efni bréfs míns, dags. 8. janúar 2004, til allsherjarnefndar Alþingis.

Í ljósi þessa lýsi ég yfir stuðningi við framkomið frumvarp til laga um breytingu á 81. og 82. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica