Fréttatilkynning: Réttindagæsla barna
Embætti umboðsmaður barna hefur nú hafið tilraunaverkefni til tveggja ára, um réttindagæslu barna, en um er að ræða aðgerð sem kveðið er á um í aðgerðaáætlun stjórnvalda um innleiðingu Barnasáttmálans.
Í aðgerðaáætluninni kemur fram að markmið verkefnisins sé að börn og/eða foreldrar þeirra geti leitað stuðnings og ráðgjafar hjá aðila sem aðstoði þau við að leita réttar barns hjá stjórnvöldum telji þau brotið gegn réttindum þess.
Tilgangurinn er enn fremur að efla hlutverk embættisins í að taka á móti erindum frá börnum, veita þeim stuðning, ráðgjöf og aðstoð við að leita réttar síns gagnvart stjórnvöldum.
Í starfi réttindagæslunnar er lögð rík áhersla á að aðkoma hennar að málum einstakra barna sé í þágu þeirra og eigi sér stað með þeirra vitund, samþykki og þátttöku. Foreldrar eða aðrir talsmenn barns geta þó leitað til réttindagæslunnar fyrir hönd barnsins, en réttindagæslan áskilur sér réttinn til að leita með virkum hætti eftir samþykki þess barns sem um ræðir hverju sinni.
Skoðun réttindagæslunnar á ákveðnu máli getur gefið tilefni til ábendinga um tiltekin atriði er varða réttindi barna, svo sem um rétt þeirra til nauðsynlegrar og viðeigandi þjónustu, rétt þeirra til þátttöku í öllum málum sem þau varðar og rétt barna til upplýsinga við hæfi. Einnig getur verið tilefni til að árétta sérstaklega skyldu þeirra sem taka ákvarðanir sem varða börn, um að taka beri slíkar ákvarðanir út frá því sem börnum er fyrir bestu, að teknu tilliti til sjónarmiða þeirra og óska.
Nánari upplýsingar um hlutverk og starfsemi réttindagæslunnar