Frásagnir barna af sóttvarnaráðstöfunum
Í vetur safnaði umboðsmaður frásögnum barna af kórónuveirunni þar sem sjónum var beint að sóttvarnaraðgerðum. Þessar frásagnir eru þær fjórðu í röðinni og eru þær nú aðgengilegar hér á vefsíðunni.
Heimsfaraldur og sóttvarnaráðstafanir undanfarinna ára hafa haft stórtæk áhrif á líf barna og ungmenna. Grípa hefur þurft til umfangsmikilla takmarkana til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Þær takmarkanir hafa haft mikil áhrif á skólahald í grunn- og framhaldsskólum sem og tómstundastarf barna. Börn og ungmenni hafa sýnt mikla þrautseigju og ítrekað þurft að laga sig að breyttum aðstæðum. Markmið þess að safna frásögnum barna og ungmenna, er að afla sjónarmiða þeirra, og koma þeim á framfæri og í opinbera umræðu. Þá veita þessar frásagnir mikilvæga innsýn í daglegt líf og líðan barna og ungmenna á tímum heimsfaraldurs og gefa skýra mynd af því hvernig þau hafa upplifað sóttvarnaráðstafanir.
Þetta er í fjórða sinn sem umboðsmaður barna safnar frásögnum barna og ungmenna af reynslu þeirra á tímum heimsfaraldurs.