15. febrúar 2021

Frásagnir barna af heimsfaraldri

Þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins hafði stórtæk áhrif og grípa þurfti til umfangsmikilla takmarkana til þess að hefta útbreiðslu veirunnar. Umboðsmaður barna ákvað því að óska aftur eftir frásögnum barna í nóvember 2020. 

Umboðsmaður barna sendi öllum grunnskólum bréf í byrjun mars 2020 þar sem óskað var eftir frásögnum barna og ungmenna af því, hvernig það væri að vera barn á tímum kórónuveirunnar og hvaða áhrif faraldurinn hefði haft á daglegt líf þeirra. Einnig var auglýst eftir frásögnum frá börnum á samfélagsmiðlum. Ekki voru gerðar sérstakar kröfur um form frásagna og voru börn m. a. hvött til þess að senda myndir, skriflegar færslur eða myndskeið. Skilafrestur til að senda inn efni var til loka skólaársins vorið 2020.

Alls bárust 116 svör frá börnum og skólum víðs vegar að af landinu. Skriflegar frásagnir voru í meiri hluta en einnig voru sendar inn myndir, dagbókarfærslur og ljóð. Þá barst nokkuð af myndskeiðum með frásögnum, viðtölum og leiknu efni. Í október 2020 var gerð samantekt og birtar tilvitnanir í frásagnir barnanna á vefsíðu umboðsmanns barna, barn.is. Einnig var fjallað um frásagnirnar í fréttum á KrakkaRÚV auk þess sem þar var birt myndband með nokkrum frásögnum.

Þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins hafði stórtæk áhrif og grípa þurfti til umfangsmikilla takmarkana til þess að hefta útbreiðslu veirunnar. Þær takmarkanir höfðu töluverð áhrif á skólahald í grunn- og framhaldsskólum sem og tómstundastarf barna auk þess sem börnum var gert að bera grímur en slík krafa var ekki gerð þegar fyrri bylgjur faraldursins gengu yfir. Umboðsmaður barna ákvað að óska aftur eftir frásögnum barna í nóvember 2020 og var tekið við frásögnum til 8. janúar 2021. Bréf var sem fyrr sent til allra grunnskóla en ekki var auglýst eftir frásögnum á samfélagsmiðlum.

Alls bárust svör frá 287 börnum og ungmennum víðsvegar að á landinu. Þar af voru 180 frásagnir sem bárust á Survey Monkey og 107 í gegnum tölvupóst, bæði skriflegar frásagnir sem og myndir eða myndbrot. Tilgangurinn var sem fyrr að safna frásögnum sem endurspegluðu daglegt líf og líðan barna á tímum kórónuveirunnar.

Þau svör sem bárust er skipt upp í fimm flokka. Fyrst er fjallað almennt um líf barna á þessum tíma en hinir fjórir flokkarnir endurspegla þau málefni sem helst brunnu á börnunum. Þeir flokkar eru líðan, skólinn og tómstundir, fjölskylda og vinir og sóttvarnaraðgerðir. Eru þetta sömu málefni og voru í brennidepli þegar frásögnum var safnað frá börnum vorið 2020, að því undanskildu að við hefur bæst einn flokkur þar sem fjallað er um líðan barna. Það kemur til vegna þess að fleiri börn greindu nú frá vanlíðan en í þeim frásögnum sem safnað var í fyrstu bylgju faraldursins. 

Frásagnir barna af heimsfaraldri - þriðja bylgja

Frásagnir barna í fyrstu bylgju


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica