16. ágúst 2024

Framhaldsskólar hefjast á ný

Nú styttist í skólabyrjun í framhaldsskólum landsins og vill umboðsmaður barna af því tilefni minna á réttindi barna í framhaldsskólum og óska öllum framhaldsskólanemum góðs gengis á komandi skólaári.

Upphaf framhaldsskólagöngu er mikilvægur áfangi og markar ákveðin skil í lífi barna. Framhaldsskólar undirbúa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Hlutverk þeirra er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda upp á nám við hæfi. Réttur til náms við hæfi er m.a. tryggður í 28. gr. Barnasáttmálans.

Réttur nemenda

Allir nemendur í framhaldsskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi. Framhaldsskólar eiga að sjá til þess að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Framhaldsskóli er vinnustaður nemenda og á umhverfið að taka mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Veita skal þeim nemendum sem þess þurfa sérstakan stuðning og eiga þeir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku rétt á sérstakri íslenskukennslu.

Ef þörf krefur, skulu allir nemendur framhaldsskóla, 18 ára og yngri, hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns. Upplýsingar um tengiliði ættu að vera aðgengilegar á heimasíðu hvers skóla.

Ábyrgð nemenda

Nemendur bera sjálfir ábyrgð á eigin námi, framkomu og samskiptum. Þeim ber að fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum sínum við starfsfólk og samnemendur.

Öllum aðilum skólasamfélagsins ber að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda jákvæðum skólabrag. Mikilvægt er að foreldrar og starfsfólk skóla myndi traust stuðningsnet sem styður við skólagöngu og velferð barna og ungmenna á þessum tíma. 

Þátttaka

Nemendur eiga rétt á því að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Tekið skal tillit til þeirra sjónarmiða í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Í hverjum skóla skal starfa nemendafélag sem vinnur m.a. að félag-, hagsmuna- og velferðarmálum nemanda. Umboðsmaður barna hvetur öll börn sem hafa áhuga á að gefa kost á sér til slíkra félaga og hafa þannig áhrif á sitt skólasamfélag. Hvetur umboðsmaður ekki síður starfsfólk skóla og stjórnendur til að hafa virkt samráð við nemendur um skólastarfið.

Umboðsmaður barna óskar að lokum öllum framhaldsskólanemum góðrar skólabyrjunar og góðs gengis á komandi skólaári.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica