Fjölbreyttar niðurstöður frá barnaþingi
Á barnaþingi, sem haldið var af umboðsmanni barna í Hörpu dagana 3. og 4. mars sl. komu fram fjölbreyttar tillögur um hvað betur mætti fara í samfélaginu en börnin höfðu fyrir þingið valið að fjalla sérstaklega um mannréttindi, umhverfis- og loftslagsmál ásamt menntun barna.
Meðal helstu tillagna barnaþingmanna eru þær að auka þurfi áherslu á umhverfis- og loftslagsmál í menntun þeirra, en barnaþingmenn lögðu til að einn skóladagur á ári verði helgaður umhverfinu. Bentu barnaþingmenn á nauðsyn þess að koma í veg fyrir notkun hvers kyns einnota umbúða og að frekari takmarkanir verði settar á notkun plasts. Barnaþingmenn lögðu jafnframt til að almenningssamgöngur verði gerðar gjaldfrjálsar, en auk umhverfissjónarmiða telja þau það nauðsynlega aðgerð til að tryggja jafnfræði barna.
Þá lögðu barnaþingmenn jafnframt áherslu á að starfsemi skóla taki mið af fjölbreytileika barna og að börnum verði tryggður trúnaður ef þau leita t.d. til námsráðgjafa. Þá telja barnaþingmenn einnig brýnt að aðalnámsskrá grunnskóla verði breytt, sérstaklega hvað varðar skyldunám í sundi og dönsku. Barnaþingmenn áréttuðu einnig mikilvægi þess að virðing sé borin fyrir kynhneigð, kyntjáningu og vali barna á persónufornöfnum í skólastarfi, að öll kyn fái sambærileg laun fyrir sambærilega vinnu og að lægstu laun verði hækkuð.
Umboðsmaður barna vinnur úr öllum tillögum
Umboðsmaður barna mun nú í kjölfar barnaþingsins vinna úr öllum þeim hugmyndum sem þar komu fram og birta niðurstöður þess í skýrslu og í kjölfarið leita allra leiða til að koma þeim á framfæri og í framkvæmd í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Barnasáttmálinn gerir kröfu um að allar ákvarðanir sem varða börn séu teknar út frá því sem þeim er fyrir bestu, að börn fái að taka þátt í ákvarðanatöku sem varðar þau, og að mat sé lagt á allar tillögur og breytingar sem geta haft áhrif á börn, út frá hagsmunum þeirra, réttindum og þörfum.
Barnaþingið sóttu um 120 börn á aldrinum 12-16 ára af öllu landinu. Barnaþingi er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau og veita sjónarmiðum þeirra farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Barnaþing er vettvangur þar sem börn geta örugg og frjáls látið skoðanir sínar í ljós og áhersla er lögð á að þau fái tækifæri til að ræða skoðanir sínar við fullorðna sem munu hlusta og taka tillit til þeirra.
Fjölbreyttur hópur barna
Til að endurspegla fjölbreytileika barna í íslensku samfélagi voru börnin valin á þingið með slembivali úr Þjóðskrá Íslands, en auk þess var börnum sem tilheyra minnihlutahópum á Íslandi sérstaklega boðin þátttaka. Gætt var að kynja- og aldurshlutfalli og búsetu þátttakenda og börnum sem á þurftu að halda var veittur stuðningur til þátttöku. Ásamt barnaþingmönnum tóku ráðherrar, alþingismenn, fulltrúar stofnana ríkis og sveitarfélaga, aðilar vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka þátt í barnaþingi. Verndari barnaþings er Vigdís Finnbogadóttir.
Barnaþing var sett við hátíðlega dagskrá, þar sem gestir nutu fjölbreyttra skemmtiatriða með loftfimleikum, söng- og dansatriðum. Þeir Sveppi og Villi sungu og skemmtu gestum en þeir unnu kosningu meðal barnaþingmanna um skemmtiatriði hátíðardagskrár. Til hátíðardagskrár mættu jafnframt ráðherrar ríkisstjórnarinnar og ræddu við fundarstjóra úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna um eigin æsku og mikilvægi þess að réttur barna til þátttöku og áhrifa sé virtur. Bogi Ágústsson fréttamaður fjallaði um mikilvægi lýðræðisins og jákvæðar fyrirmyndir ræddu um leiðir til að hafa áhrif á samfélagið.
Forseti setti þingið og ráðherrar sátu fyrir svörum
Þann 4. mars fóru svo fram umræður með þjóðfundarfyrirkomulagi í Hörpu en fundinn setti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Í ávarpi sínu brýndi forsetinn fyrir fundargestum mikilvægi samkenndar og samhugar auk þess að setja sér markmið í lífinu. Barnaþingmenn hófu síðan umræður á vinnuborðun en eftir hádegi mætti fullorðnir boðsgestir til að taka þátt í áframhaldandi umræðu um þau umfjöllunarefni sem börnin völdu. Í lok umræðunnar sátu fulltrúar ríkisstjórnarinnar fyrir svörum, þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra.
Nú þegar barnaþing hefur verið haldið öðru sinni hefur það þegar verið fest í sessi sem einstakur vettvangur fyrir sjónarmið barna í íslensku samfélagi. Umboðsmaður barna þakkar að þingi loknu öllum þeim sem höfðu tækifæri til að sækja þingið: forseta Íslands, ráðherrum, alþingismönnum, sveitarstjórnarfólki og öðrum þinggestum. Mestu skiptir þó að fjöldi barna þáði boðið og sýndi þannig í verki að þau láta sig varða samfélagsleg málefni og vilja vera afl til breytinga en sum þeirra komu um langan veg til að sækja þingið. Lykillinn að vel heppnuðu barnaþingi var að börnin fóru í einu og öllu eftir þeim gildum sem þau höfðu sjálf sett sér fyrir þingið, að vera jákvæð, að sýna hvert öðru virðingu, og að hafa gaman.
Barnaþingmönnum kann ég bestu þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag.
Segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna