Ert þú að fara að vinna í sumar?
Nú þegar sumarið er gengið í garð eru mörg börn og ungmenni að hefja störf á fjölbreyttum vinnustöðum. Umboðsmaður barna vill árétta að börn eiga sjálfstæð réttindi umfram hinu fullorðnu og eiga rétt á vernd og því sætir atvinnuþáttaka barna takmörkunum af ýmsu tagi.
Réttur barna til vinnuverndar er tryggður í 31. gr. Barnasáttmálans en þar kemur fram að barn eigi rétt á því að vinna þeirra komi ekki niður á námi þess eða skaði heilsu eða líkamlegan, sálrænan, andlegan, siðferðislegan eða félagslegan þroska. Ýmislegt er tengist vinnu barna og ungmenna fyrir vinnuveitendur, foreldra, börn og ungmenni er hægt að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins, hér.
Skilaboð til barna og ungmenna, yngri en 18 ára frá umboðsmanni barna
Þú átt rétt á því að ráða sjálf/ur yfir þeim peningum sem þú vinnur þér inn og pening sem þú færð að gjöf það stendur í lögræðislögum. Umboðsmaður barna mælir samt með því að þú talir við foreldra þína um hvernig er best að fara með peninga. Ef um er að ræða mikla fjármuni eða þú ferð mjög illa með peningana getur sýslumaður tekið eða leyft foreldri að taka peninginn af þér til að geyma hann. Foreldrar þurfa samt alltaf að halda fjármálum barna sinna aðskildum frá eigin fjármálum.
Umboðsmaður barna mælir með því að laun barna séu lögð inn á reikning sem barnið á.
Þú átt alltaf að fá launaseðil frá vinnuveitanda sem útskýrir hvernig launin þín eru reiknuð út. Það er alltaf góð regla að fara vel yfir launaseðla til að skoða hvort allt sé ekki örugglega rétt og foreldrar þínir geta hjálpað þér að fara yfir launaseðilinn. Þú getur einnig leitað til stéttarfélagsins ef þú átt erfitt með að skilja launaseðilinn þinn eða hefur ekki fengið launaseðil. Hér er hægt að sjá myndbönd sem ASÍ hefur gert sem útskýrir ýmsa hluti á vinnumarkaði, svo sem launaseðla, veikindi, orlof, ráðningar, vinnutíma og fleira.
Ráðningarsamningur getur verið munnlegur en umboðsmaður barna mælir með að hafa hann skriflegan þannig að ljóst sé hvað hefur verið samið um. Í skriflegum ráðningarsamningi á að koma fram hvaða starf um ræðir, hvenær þú átt að byrja að vinna, vinnutími, laun og annað sem skiptir máli. Foreldrar þurfa að samþykkja ráðningarsamning svo hann sé skuldbindandi fyrir þig. Ráðingarsamningar mega aldrei gefa þér minni réttindi en þú átt rétt á samkvæmt kjarasamningi. Ef samið hefur verið um minni réttindi en kjarasamningar gera ráð fyrir gildir ráðningarsamningur ekki um þau atriði. Hér má sjá dæmi um ráðningarsamning.
Þú átt rétt á því að segja þína skoðun og það á líka við um vinnu. Ef þú ert með hugmyndir um hvað sé hægt að gera betur í vinnunni skaltu vera óhrædd/ur við að segja þína skoðun. Það er líka mikilvægt að láta yfirmann strax vita ef þú upplifir að vinnuumhverfið sé hættulegt þér eða öðrum.
Ef þú hefur áhyggjur af því að það sé ekki verið að fara eftir reglum eða brjóta gegn rétti þínum á vinnumarkaði getur þú leitað til stéttarfélags, Vinnueftirlitsins og ríkisskattstjóra til að fá leiðbeiningar.
Ef þú ert 13 – 14 ára máttu ekki vinna eftir kl. 20 á kvöldin og ekki byrja að vinna fyrr en eftir kl. 6 á morgnanna. Þú átt líka rétt á 14 klukkustunda hvíld á sólarhring og tveimur frídögum á viku.
Ef þú ert 15 – 17 ára máttu ekki vinna eftir kl. 22 á kvöldin og ekki byrja að vinna fyrr en eftir kl. 6 á morgnanna. Þú átt líka rétt á 12 klukkustunda hvíld á sólarhring og tveimur frídögum á viku.
Skilaboð til foreldra frá umboðsmanni barna
Foreldrar og forsjáraðilar hafa ákveðnum skyldum að gegna þegar barnið eða ungmennið fer á vinnumarkaðinn. Hér er fyrst og fremst um eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk að ræða sem felst í forsjá barns. Foreldrar eiga að kynna börnum sínum réttindi á vinnumarkaði áður en sótt er um starf og aðstoða þau ef þau þarfnast leiðbeininga eða hjálpar varðandi hluti sem tengjast vinnunni eða vinnuumhverfinu.
Mikilvægt er að foreldrar eigi samtal við börnin sín um peninga sem þau vinna sér inn og ráðleggi þeim hvernig best sé að fara með þá.
Hér má finna ýmis hollráð til foreldra frá Vinnueftirlitinu um ungt fólk á vinnumarkaði og öryggismál.
Samþykki foreldra/forsjáraðila þarf til að ráðningarsamningur barns undir 18 ára aldri sé skuldbindandi fyrir barnið. Æskilegt er að foreldrar fari yfir launaseðla með barninu og kenni því að lesa úr þeim.
Skilaboð til vinnuveitenda frá umboðsmanni barna
Mikilvægt er að vinnuveitendur séu meðvitaðir um og kynni sér allar takmarkanir sem eru á vinnu barna og ungmenna samkvæmt lögum og reglugerðum. (Sjá lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglugerð um vinnu barna og unglinga nr. 426/1999.) Þar eru lagðar ýmsar skyldur á vinnuveitendur sem koma til viðbótar þeim almennu skyldum sem þeir bera gagnvart öllum launþegum.
Vinnuveitendum ber að tryggja viðunandi vinnumhverfi með ráðstöfunum sem tryggja börnum og ungmennum öryggi og heilbrigði á vinnustað. Einnig ber vinnuveitanda að veita ungmennum fullnægjandi kennslu og leiðbeiningar þannig að vinnan sé ekki hættuleg öryggi þeirra og heilsu.
Vinna barna og ungmenna á að fara fram undir viðeigandi eftirliti einstaklings sem orðinn er 18 ára og hefur nægilega innsýn í eðli starfsins.
Vinnuveitanda ber að kynna foreldrum eða forsjáraðilum barna hugsanlega áhættu í starfiog þær ráðstafanir sem gerðar eru til að tryggja öryggi þeirra.
Vinnuveitandi ber ábyrgð á því að meta áhættu sem starf getur skapað ungmennum, svokallað áhættumat, sjá nánar 5. gr. rgl. um vinnu barna og unglinga.
Þá er mikilvægt að vinnuveitandi bregðist við ábendingum frá starfsmönnum og öðrum um það sem betur mætti fara til að skapa gott og öruggt vinnuumhverfi.
Umboðsmaður barna óskar öllum gleðilegs sumars!