28. maí 2014

Ekkert hatur

Ungmennaráð SAFT og SAMFÉS skora á fjölmiðla sem hafa athugasemdakerfi á síðum sínum að hvetja notendur til ábyrgrar notkunar þeirra.

Umboðsmaður barna vill vekja athygli á fréttatilkynningu frá SAFT og SAMFÉS:

Ungmennaráð SAFT og SAMFÉS skora á fjölmiðla sem hafa athugasemdakerfi á síðum sínum að hvetja notendur til ábyrgrar notkunar þeirra. Það má m.a. gera með því að hafa eftirfarandi setningar áberandi í athugasemdakerfinu.

1. „Það sem þú gerir á netinu endurspeglar hver þú ert. Hugsaðu áður en þú setur á netið. Orðum fylgir ábyrgð!“ #Ekkerthatur

2. „Hugsaðu áður en þú deilir. Gjörðir á netinu hafa afleiðingar á raunverulegt fólk. Orðum fylgir ábyrgð!“ #Ekkerthatur

3. „Enginn má birta meiðandi myndir eða ummæli um aðra. Það sem birt er á netinu verður ekki tekið til baka. Orðum fylgir ábyrgð!“ #Ekkerthatur

4. „Hugsaðu áður þú birtir. Orðum fylgir ábyrgð!“ #Ekkerthatur

5. „Það sem þú gerir á netinu getur komið í bakið á þér síðar. Orðum fylgir ábyrgð!“ #Ekkerthatur

Setningarnar eru samdar í tengslum við verkefnið Ekkert hatur –orðum fylgir ábyrgð, átaksverkefni gegn hatursorðræðu á netinu sem ungmennin hafa tekið virkan þátt í. Hópur stofnana og samtaka á Íslandi stendur á bak við átakið og er það hluti af verkefni Evrópuráðsins sem ber heitið No Hate Speech Movement (www.nohatespeechmovement.org). Fyrir hönd Menntamálaráðuneytisins annast eftirtaldiraðilar útfærslu verkefnisins á Íslandi: SAFT, Heimili og skóli – Landssamtök foreldra, SAMFÉS, Landssamband æskulýðsfélaga, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Æskulýðsvettvangurinn.

Hópurinn fundaði þann 27. maí sl. ásamt fulltrúum ungmennaráðanna og formönnum æskulýðssamtaka og samtökum sem vinna með börnum og ungmennum. Á fundinum var verkefnið kynnt og ungmennin sögðu frá vinnu sinni í tengslum við verkefnið. Aðstandendur verkefnisins hvetja alla til þess að kynna sér setningarnar og nota þær þegar þeir verða varir við ljótt orðbragð, einelti eða hatursáróður á netinu. Almenningur getur lagt verkefninu lið með því að taka þátt í samfélagsmiðlaherferðinni Ekkert hatur – orðum fylgir ábyrgð!

Nánari upplýsingar um störf SAFT er að finna á www.saft.is. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica