Ein heima
Reglulega berast umboðsmanni barna spurningar um það við hvaða aldur börn megi vera ein heima. Svo virðist sem foreldrar og fagfólk kalli eftir almennum reglum eða viðmiðum um það hvenær sé óhætt að skilja börn eftir heima án eftirlits foreldra eða annarra ábyrgra aðila og hversu lengi.
Hvaða lög eða reglur gilda?
Það eru engin lög eða reglur sem segja til um það frá hvaða aldri börn mega vera ein heima og hversu lengi.
Ábyrgð foreldra
Það er hlutverk foreldra að vernda börn sín og gæta að velferð þeirra eins og frekast er kostur. Foreldrum ber að haga öllum ákvörðunum sem varða börn sín á þann veg sem er börnunum fyrir bestu. Ákvæði laga um skyldur foreldra við börn sín eru fyrst og fremst í 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Foreldrum er treyst til að bera ábyrgð á öllum meiriháttar ákvörðunum fyrir börn sín og vernda þau á sama tíma sem foreldrar eiga að hlusta á vilja og skoðanir barna sinna og taka réttmætt tillit til þeirra. Ákvörðun um það hvenær börnum er treyst til að vera ein heima er eitt af því sem foreldrar verða að taka sjálfir.
Að hverju þarf að huga?
Börn eru misjöfn og aðstæður þeirra líka. Það sem hentar einu barni þarf ekki endilega að henta öðru barni. Margir þættir spila saman þegar metið er hvenær óhætt er að skilja börn eftir ein heima. Við matið ber að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Þegar hagsmunir barna og fullorðinna vegast á eiga hagsmuni barna að vega þyngra. Fyrst og fremst ber að taka mið af aldri og þroska barns en hér eru nokkrir aðrir þættir sem hægt er að hafa til hliðsjónar:
- Hvað vill barnið sjálft?
- Hversu lengi á að skilja það eftir eitt?
- Á hvaða tíma sólarhringsins á að skilja það eftir eitt?
- Hefur barnið sýnt ábyrga hegðun hingað til?
- Er einhver fullorðinn nálægt, t.d. nágranni, sem auðvelt er að leita til ef eitthvað kemur upp á?
- Er heimilið öruggt m.t.t. slysahættu?
- Er barnið líklegt til að bregðast rétt við ef eitthvað kemur upp á?
- Geta foreldrar komið heim með stuttum fyrirvara?
Vissulega þarf að taka mið af öðrum þáttum eftir aðstæðum og eru þessi atriði aðeins sett fram hér til að gefa einhver dæmi.
Þegar foreldrar ákveða að barnið sé tilbúið að vera skilið eftir eitt heima mælir umboðsmaður samt með því að til að byrja með verði það gert í frekar stuttan tíma sem síðan er hægt að lengja smám saman ef vel gengur. Börn þurfa að finna fyrir meiri ábyrgð með hækkandi aldri til að efla sjálfstæði þeirra og öryggi. Séu börn hins vegar sett í aðstæður sem þau ráða ekki við of snemma getur það stefnt öryggi þeirra í hættu og haft slæm áhrif á líðan þeirra og sjálfsmynd. Umboðsmaður hvetur foreldra til að ræða málin við börnin sjálf og kenna þeim að umgangast heimilið af ábyrgð og byggja þannig upp færni til framtíðar.
Barnavernd
Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna og eiga að taka ákvarðanir í samræmi við hagsmuni barna. Séu mjög ung börn skilin eftir ein heima getur verið ástæða til að tilkynna barnavernd um málið. Þeir sem eru ekki vissir hvort tilkynna beri um aðstæður barns ættu samt að hafa samband við barnaverndina og ráðfæra sig við starfsfólk hennar.