10. október 2014

Drög að reglugerð um afplánun ungra fanga á aldrinum 15-18 ára

Innanríkisráðuneytið óskaði eftir umsögnum um drög að reglugerð um afplánun ungra fanga á aldrinum 15-18 ára í frétt á vef ráðuneytisins dags. 29. september 2014. Umboðsmaður barna sendi ráðuneytinu umsögn með tölvupósti dags. 10 október 2014.

 Innanríkisráðuneytið óskaði eftir umsögnum um drög að reglugerð um afplánun ungra fanga á aldrinum 15-18 ára í frétt á vef ráðuneytisins dags. 29. september 2014. Umboðsmaður barna sendi ráðuneytinu umsögn með tölvupósti dags. 10 október 2014.

UB:1410/4.1.1

 

Efni: Drög að reglugerð um afplánun ungra fanga á aldrinum 15-18 ára

Vísað er í frétt á heimasíðu ráðuneytisins, dags. 29. september sl., þar sem óskað er eftir umsögnum um ofangreind drög. Umboðsmaður barna fagnar því að verið sé að vinna að reglugerð um afplánun ungra fanga og telur hann efni hennar að mörgu leyti gott. Hann vill þó koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Umboðsmaður barna saknar þess að hugtakið börn sé ekki notað í reglugerðinni í stað hugtaksins fangar. Mikilvægt er að hafa í huga að einstaklingar á aldrinum 15 til 18 ára sem eru úrskurðaðir í gæsluvarðhald eða fá óskilorðsbundna fangelsisdóma eru börn. Þessi börn eru auk þess í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Er því brýnt að tryggja að réttindi þeirra séu virt. Telur umboðsmaður barna því ástæðu til þess að hafa almennt ákvæði í reglugerðinni þar sem sérstaklega er tekið fram að við alla ákvarðanatöku sem varða þessi börn skuli taka mið að réttindum þeirra samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá er ástæða til að árétta sérstaklega að þessi börn eigi rétt á því að tjá sig um öll mál sem þau varða og að tekið skuli réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans.

Umboðsmaður barna telur jákvætt að í 3. gr. reglugerðarinnar sé tekið fram að Barnaverndarstofu sé skylt að hafa tiltækt sérhæft meðferðarúrræði sem getur veitt þeim börnum sem hlotið hafa óskilorðsbundna refsidóma fullnægjandi meðferð og tryggt öryggi þeirra. Í þessu sambandi myndi umboðsmaður telja ástæðu til þess að taka fram að meðferðin skuli vera til þess fallin að hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif og miða að því að koma í veg fyrir áframhaldandi brotahegðun, sbr. meðal annars 40. gr. Barnasáttmálans. Ennfremur má benda á að nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefur túlkað c-lið 37. gr. Barnasáttmálans með þeim hætti að skylt sé að koma á fót sérstökum úrræðum fyrir börn sem hafa verið svipt frelsi sínu, þar sem aðstæður og verklag taka mið af þörfum barna og til staðar er fagfólk með sérþekkingu á málefnum þeirra. Í samræmi við þetta telur umboðsmaður mikilvægt að taka sérstaklega fram í 3. gr. reglugerðarinnar að húsnæði, aðbúnaður og vinnureglur á umræddu meðferðarheimili skuli taka mið af þörfum og hagsmunum barna.

Í 4. gr. reglugerðarinnar er fjallað um vistun barna í fangelsi. Umboðsmaður barna telur jákvætt að það sé tekið mið af orðalagi Barnasáttmálans í ákvæðinu og tekið sé fram að einungis skuli vista barn í fangelsi ef það er talið því fyrir bestu, vegna aðstæðna sem varða barnið sjálft. Umboðsmaður myndi þó vilja að sérstaklega væri tekið fram að barn eigi ávallt rétt á að tjá sig um vistunarstað sinn og að taka skuli réttmætt tillit til vilja þess í samræmi við aldur og þroska.

Umboðsmaður barna telur ekki rétt að taka fram í 4. gr. að almennar reglur eigi að gilda um vistun barns í fangelsi, enda ber að taka tillit til sérstöðu barna við slíkar aðstæður. Þannig ætti að mati umboðsmanns barna að gera sérstaka áætlun um vistun barns í fangelsi, eins og gert er ráð fyrir þegar börn eru vistuð á meðferðarheimilum samkvæmt. 5. gr. reglugerðarinnar. Þá er mikilvægt að taka fram í reglugerðinni að samvinna skuli vera milli fangelsismálayfirvalda og barnaverndaryfirvalda í þeim tilvikum sem barn er vistað í fangelsi. Má í því sambandi benda á að umboðsmaður barna gagnrýndi það sérstaklega í skýrslu sinni til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2010 að barnaverndaryfirvöld hafi lítil sem engin afskipti af börnum sem afplána refsingu sína í fangelsum.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að ákveða skuli meðferðarstað barns á grundvelli sérstaks mats, þar sem meðal annars skuli litið til meðferðarþarfar, öryggissjónarmiða og refsingarinnar. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að bæta við þessa upptalningu að taka skuli mið af hagsmunum og þörfum barns, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans. Þá telur hann óljóst hvað sé átt við með því að líta skuli til „refsingarinnar“. Ef átt er við lengd refsingar væri e.t.v. réttara að taka það fram.

Í 11. gr. reglugerðarinnar er fjallað um lok vistunar á vegum barnaverndaryfirvalda. Umboðsmaður barna telur ástæðu til þess að taka fram í umræddu ákvæði að barnaverndaryfirvöldum beri að veita börnum sem hafa afplánað í fangelsi sérstakan stuðning og aðstoð, hvort sem þau eru vistuð á meðferðarheimilum eða í fangelsum. Brýnt er að þessi börn og ungmenni fái viðeigandi aðstoð og endurhæfingu, sem er til þess fallin að efla sjálfsmynd þeirra og gerir þeim kleift að aðlagast samfélaginu á ný.

Í 13. gr. reglugerðarinnar er fjallað um þjálfun starfsmanna. Sem fyrr segir hefur Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna bent á mikilvægi þess að börn afpláni refsingar sínar í sérstökum úrræðum, þar sem til staðar er fagfólk með sérþekkingu á málefnum þeirra. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að taka fram í umræddu ákvæði að á þeim meðferðarheimilum sem börn afplána refsingar sínar skuli vera til staðar fagfólk með menntun við hæfi.  Þá þarf að tryggja að börn hafi aðgang að sérfræðiþjónustu, þar á meðal sálfræði- og heilbrigðisþjónustu við hæfi. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að sakhæf börn eru sum enn í skyldunámi. Þar að auki eiga öll börn rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs, sbr. 32. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008. Telur umboðsmaður barna því mikilvægt að ítreka rétt ofangreindra barna til menntunar í umræddri reglugerð.

Að lokum telur umboðsmaður barna mikilvægt að huga að samskiptum barna í fangelsum eða meðferðarheimilum við foreldra og aðra nákomna. Samkvæmt Barnasáttmálanum sem og barnalögum nr. 76/2003 eiga öll börn rétt á að umgangast foreldra sína með reglubundnum hætti. Telur umboðsmaður því ástæðu til þess að fjalla sérstaklega um heimsóknir foreldra og annarra nákominna í umræddri reglugerð. Þar sem foreldrar eða eftir atvikum aðrir forsjáraðilar bera ábyrgð á börnum sínum til 18 ára aldurs er einnig spurning hvort ekki sé ástæða til þess að fjalla um samvinnu og samráð starfsmanna meðferðarheimila eða fangelsa við forsjáraðila, bæði á meðan á afplánun stendur og eftir að henni lýkur

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica