29. október 2018

Drög að frumvarpi til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála

Eftirfarandi umsögn sendi umboðsmaður barna á samráðsgátt stjórnvalda þann 29. október 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Reykjavík, 29. október 2018

 

Efni: Umsögn um drög að frumvarpi til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála

Í Barnasáttmálanum, sbr. lög nr. 19/2013 er að finna sérstaka áherslu á vernd barna gegn ofbeldi í 19. gr. sáttmálans. Þá er í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrá nr. 33/1944 áréttað að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í því felst m.a. að nauðsynlegt er að tryggja börnum fullnægjandi vernd gegn hvers kyns ofbeldi með lögum. Er því ánægjulegt að drög að frumvarpi til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála hafa verið mótuð og höfð til samráðs á samráðsgáttinni til umsagnar þar sem markmið laganna er að m.a. börn og unglingar geti lagt stund á íþrótta- og æskulýðsstarf í öruggu umhverfi.

Umboðsmaður barna vill þó koma á framfæri athugasemd er varðar 7. gr. frumvarpsdraga og snýr að undanþágu þagnarskyldu samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þar kemur fram í 1. mgr. að samskiptaráðgjafanum sé óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem hann verður áskynja í starfi sínu og leynt eiga að fara. Í 2. mgr. 7. gr. segir; „Samþykki  þess sem til hans leitar eða forráðamanns, ef við á, leysir samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs undan þagnarskyldu.“ Greinina má skilja sem svo að einungis samþykki foreldris eða forsjáraðila er nóg til að leysa samskiptaráðgjafann frá þagnarskyldu ef barnið sem um ræðir er ekki orðið lögráða. Umboðsmaður barna telur það ekki samræmast bestu hagsmunum barnsins sem um ræðir að forsjáraðili eða foreldri þess hafi heimild til að veita undanþágu frá þagnarskyldu samskiptaráðgjafa án nokkurs samráðs eða samþykkis barnsins. Börn eiga sjálfstæðan rétt á friðhelgi einkalífs, líkt og fullorðnir, og er afar mikilvægt að virða friðhelgi einkalífs barna. Mikilvægur þáttur í friðhelgi einkalífs felst m.a. í að einstaklingur taki sjálfur ákvarðanir í persónulegum málefnum. Auk þess er börnum tryggður sérstakur réttur til friðhelgi einkalífs í 16. gr. Barnasáttmálans. Börn geta myndað sér skoðanir á eigin málefnum frá unga aldri. Um leið og þau hafa getu til að tjá skoðanir sínar ber foreldrum og öðrum að hlusta á þær og taka réttmætt tillit til þeirra. Eftir þvi sem börn eldast og þroskast eiga þau að öðlast stigvaxandi rétt til þess að ráða persónulegum málum sínum sjálf. Þegar um stálpuð börn og unglinga er að ræða eiga þau sjálf ríkan rétt til friðhelgi einkalífs og að ráða persónulegum málum sínum. Hlutverk foreldra eða forsjáraðila er þá fremur nokkurs konar leiðbeiningar- og verndarhlutverk. Hér verður að hafa í huga að um afar viðkvæm og persónuleg málefni getur verið að ræða og telur umboðsmaður ekki réttlætanlegt að foreldri eða forsjáraðili geti ákveðið að mál barsins verði gert opinbert eða sagt frá því á einhvern hátt án samþykkis barnsins. Slíkt stríðir beinlínis gegn friðhelgi einkalífs barna og rétti þeirra til að hafa áhrif á eigið líf.

Nauðsynlegt er því að orða greinina með skýrari hætti þannig að samþykkis barnsins sé krafist til að veita undanþágu frá þagnarskyldu. Auk þess telur umboðsmaður að aldrei ætti að veita undanþágu frá þagnarskyldu samskiptaráðgjafa ef barn er ekki samþykkt því, sama á hvaða aldri barnið er, enda taki tilkynningarskylda til barnaverndar á málum þar sem nauðsynlegt er að grípa inn í og veita barninu viðeigandi aðstoð með einhverjum hætti. 

 Að lokum vill umboðsmaður taka fram að ef staða samskiptaráðgjafa er einungis tímabundin gæti verið hætta á að það góða starf sem samskiptaráðgjafi vinnur að ásamt þeirri mikilvægu sérþekkingu sem hann fær glatist ef henni er ekki við haldið. Umboðsmaður hvetur því til að árangur samskiptaráðgjafa verði metinn og kannað hvort tilefni sé til að festa starf hans í sessi ótímabundið. Í 2. gr. frumvarpsdraga kemur fram að börn, unglingar og fullorðnir eiga að geta leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna atvika sem koma upp án ótta við afleiðingarnar. Einnig segir í greinargerð að „afar brýnt sé að úrræði verði sett á fót en fyrir liggur að innan íþrótta koma reglulega upp aðstæður þar sem óeðlilegir og jafnvel ofbeldisfullir atburðir eru sagðir eðlilegur hluti af íþróttum.“ Í þessu ljósi undirstrikar umboðsmaður barna mikilvægi þess að skýrt sé hvert börn eiga að leita ef ekki er brugðist við með réttum hætti við slíkum atburðum, þá sérstaklega ef samskiptaráðgjafinn verður ekki lengur til staðar ef staðan verður einungis tímabundin.

 

  

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica