18. febrúar 2019

Drög að frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði

Umboðsmaður barna sendi inn umsögn að drögum að frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði, mál nr. 42/2019. Umsögnina sendi umboðsmaður þann 18. febrúar 2019 í samráðsgáttina.

Umboðsmaður barna sendi inn umsögn að drögum að frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði, mál nr. 42/2019. Umsögnina sendi umboðsmaður þann 18. febrúar 2019 í samráðsgáttina.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 18. febrúar 2019

 

Efni: Drög að frumvarpi til laga um Kynrænt sjálfræði

 

Umboðsmaður barna fagnar drögum að  frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði. Ljóst er að löggjöf um hinsegin fólk er ábótavant og ánægjulegt að til standi að bæta úr því. Að mati umboðsmanns eru jákvæðar tillögur í frumvarpinu sem eru til þess fallnar að  stuðla að  rétti einstaklinga til að skilgreina sjálfir kyn sitt, njóta líkamlegrar friðhelgi og tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Frumvarpsdrögin fela því í sér réttarbót í málefnum hinseginfólks á Íslandi. Að mati umboðsmanns tryggja frumvarpsdrögin þó ekki nauðsynlega vernd barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni gegn óafturkræfum og ónauðsynlegum inngripum í líkama þeirra án samþykkis þeirra.

Líkamleg friðhelgi og breytingar á kyneinkennum barna

Mikilvægt er að tryggja réttindi barna til líkamlegrar friðhelgi en með bráðabirgðaákvæði leggur frumvarpið til starfshóp sem fjalla á um málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og gera tillögur að  úrbótum. Skal hópurinn skila niðurstöðum sínum eins fljótt og unnt er. Á meðan starfshópurinn er að störfum er hins vegar ekkert sem kemur í veg fyrir að ónauðsynlegar aðgerðir séu framkvæmdar á börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.

Samkvæmt 11. gr. frumvarpsdraganna verður óheimilt að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings 16 ára eða eldri án skriflegs samþykkis hans. Þannig er líkamleg friðhelgi einstaklinga sem eru 16 ára eða eldri tryggð sem er jákvætt en nær þó ekki til þess hóps sem er mest berskjaldaður þar sem oft er um ung börn að ræða sem ekki geta veitt samþykki sitt. Umboðsmaður telur því ákveðið ósamræmi felast í því að markmið frumvarpsins sé m.a. að tryggja rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi ásamt því að vísað er til réttar sérhvers einstaklings til að njóta óskorðars réttar til líkamlegrar friðhelgi og sjálfstæðis varðandi breytingar á kyneinkennum, sbr. d- liður 3.gr. frumvarpsdraganna, en að sá réttur taki ekki til barna yngri en 16 ára.

Árið 2015 gaf umboðsmaður barna út álit um stöðu barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni þar sem umboðsmaður hvatti til málefnalegrar umræðu um málefni intersex barna þar sem litið verði til  sjónarmiða og reynslu intersex einstaklinga og sérstakt tillit tekið til mannréttinda barna. Þar kemur fram að ónauðsynleg og óafturkræf inngrip í líkama ungbarna samræmist ekki réttindum þeirra og að börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni eiga að fá að taka eigin ákvörðun um að gangast undir um skurðaðgerð og/eða hormónameðferð þegar þau hafa mótað eigin kynvitund og náð þeim aldri og þroska sem þarf til að taka upplýsta ákvörðun.

Með aukinni vitundarvakningu um réttindi intersex einstaklinga er vaxandi ákall um setningu reglna sem tryggja vernd þeirra sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.  Þá hafa ýmsar alþjóðlegar stofnanir fordæmt ónauðsynlegar aðgerðir á börnum með ódæmigerð kyneinkenni, þar á meðal Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Evrópuráðið, Evrópuþingið, Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna og sérstakur eftirlitsmaður Sameinuðu þjóðanna um pyndingar og aðra grimmilega, ómannlega og vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Í 18. gr. Jogjakarta-meginreglnanna eru tilmæli til allra ríkja um að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að líkömum barna verði ekki breytt varanlega með læknisaðgerðum í þeirri viðleitni að þvinga upp á þau ákveðinni kynvitund án fulls, frjáls og upplýsts samþykkis barnsins sem í hlut á í samræmi við aldur þess og þroska. Hafa skal í huga þá meginreglu að við allar ráðstafanir sem varða barn skuli það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang. Þá er réttur allra til líkamlegra og andlegra heillinda einnig nánar útfærður í 32. gr. Jogjakarta meginreglanna plús 10. Þar er tekið fram að ekki skal gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum án frjáls, upplýsts fyrirfram gefins samþykkis einstaklingsins, nema slíkt sé nauðsynlegt í þeim tilgangi að forða einstaklingnum frá alvarlegum, brýnum og óafturkræfum skaða.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna sem fer með eftirlit með Barnasáttmálanum, sbr. lög nr. 19/2013 hefur einnig beint þeim tilmælum til aðildarríkja að virða líkamlega friðhelgi intersex-barna og hverfa frá því að framkvæma læknisfræðilega óþörf inngrip í líkama barna ásamt því að virða sjálfáskvörðunarrétt þeirra. Einnig hefur nefndin bent á mikilvægi þess að foreldrum intersex-barna sé veitt viðeigandi ráðgjöf og stuðningur. Nýleg dæmi um þetta eru athugasemdir til Danmerkur frá 26. október 2017 og Spánar frá 5. mars 2018.

Þá hefur Evrópuráðið gefið út tilmæli vegna mannréttinda intersex-fólks þar sem m.a. er vísað í rétt barna til líkamlegrar friðhelgi og að hvatt til banns við framkvæmd ónauðsynlegra aðgerða á börnum með ódæmigerð kyneinkennni án upplýsts samþykkis þeirra nema í þeim tilvikum þar sem lífi barns er ógnað. Einnig gaf Evrópuþingið út ályktun þann 14. febrúar sl. um réttindi intersex fólks þar sem þingið hvetur aðildarríki til að setja löggjöf til að vernda líkamlega friðhelgi intersex fólks og sérstaklega barna.

Samkvæmt framansögðu telur umboðsmaður barna að til þess að tryggja börnum yngri en 16 ára með ódæmigerð kyneinkenni þá vernd sem velferð þeirra krefst og rétt til líkamlegrar friðhelgi færi betur á því að hafa ákvæði þess efnis í frumvarpinu sjálfu í stað þess að stofna starfshóp til að fjalla nánar um málefnið. Eins og að framan er rakið er ekkert sem tryggir að  ónauðsynlegar og óafturkræfar aðgerðir verði ekki framkvæmdar á börnum  á meðan starfshópurinn er að störfum.  

Réttur til að breyta nafni og opinberri skráningu kyns hjá yngri en 15 ára

Þá er ljóst að ákveðins ósamræmis gætir á eigin- og millinafnabreytingu barna sem eru yngri en 15 ára og hafa samþykki forsjáraðila sinna eftir því hvort um er að ræða breytingu á kynskráningu barns og samhliða því fái barn að breyta eigin- eða millinafni sínu, (sbr. 2. mgr. 5. gr. frumvarpsdraganna og b- lið,d- liðar 1. mgr. 18. gr. frumvarpsdraganna) eða hvort um er að ræða barn sem einungis vill breyta eigin- eða millinafni sínu (sbr. a- liður, d- liðar 1. mgr. 18. gr. frumvarpsdraganna og 2. mgr. 13. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996.)

Í þeim tilvikum þar sem barn sem er yngra en 15 ára og hefur heimild til að breyta kynskráningu sinni og samhliða því breytingu á eigin- eða millinafni er eina skilyrðið fyrir breytingu á nafninu samþykki forsjáraðila eða samþykki sérfræðinefndar skv. 9. gr. laga um kynrænt sjálfræði. (sbr. b- lið,d- liðar 1. mgr. 18. gr frumvarpsdraganna). Ef hins vegar er um að ræða barn sem er yngra en 15 ára og hefur samþykki forsjáraðila sinna til að breyta eigin- eða millinafni sínu þá er að finna viðbótarskilyrði í 2. mgr. 13. gr. laga um mannanöfn. Þar segir „Beri forsjármaður barns fram ósk um breytingu á nafni þess og hafi orðið breyting á forsjánni frá því barninu var gefið nafn skal, ef unnt er, leita samþykkis þess foreldris sem með forsjána fór við fyrri nafngjöf. Þótt samþykki þess foreldris liggi ekki fyrir getur Þjóðskrá Íslands engu að síður heimilað nafnbreytingu ef ótvíræðir hagsmunir barns mæla með því.“ Í framkvæmd virðist þetta ákvæði vera túlkað afar þröngt, þannig að ef sá aðili sem fór með fórsjána við fyrri nafngjöf veitir ekki samþykki sitt, þá virðist framkvæmdin vera sú að nafnbreytingin er almennt ekki samþykkt. Þarf viðkomandi þá að bíða til 18 ára aldurs til að breyta nafni sínu.

Umboðsmaður barna leggur því til að umrædd viðbót sem er vísað er til í hér að framan í 2. mgr. 13.gr. laga um mannanöfn verði einnig felld úr gildi fyrir þau börn sem eru 15 ára og yngri og óska eftir eigin- eða millinafnabreytingu með samþykki forsjáraðila sinna svo samræmis sé gætt og sjálfsákvörðunarréttur barna í þessum efnum virtur.

Þá fagnar umboðsmaður kynhlutlausri skráningu, sbr. 6. gr. frumvarpsdraganna ásamt 15 ára aldursviðmiði til að taka ákvörðun um kynskráningu þar sem mörg ungmenni sjá framhaldsskólagöngu sem ákveðinn vendipunkt í lífi sínu. Að mati umboðsmanns samræmist það vel stigvaxandi rétti barna til að hafa áhrif á eigið líf. Einnig telur umboðsmaður barna það afar jákvætt að skipuð verði sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna sem tekur til meðferðar mál þar sem börn yngri en 15 ára og foreldrar eða forsjáraðilar eru ósammála um skráningu kyns.

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica