Dagur mannréttinda barna
Í dag er dagur mannréttinda barna en á þessum degi fyrir 35 árum var Barnasáttmálinn samþykktur.
Barnasáttmálinn felur í sér viðurkenningu á því að börn séu fullgildir einstaklingar og sjálfstæðir rétthafar. Sáttmálinn kveður á um vernd grundvallarmannréttinda barna, eins og bann við mismunun, réttinn til lífs og þroska, friðhelgi fjölskyldu og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis. Þá leggur hann þær skyldur á aðildarríki að grípa til virkra og raunverulegra aðgerða til að vernda, virða og tryggja þau réttindi. Þá er Barnasáttmálinn sá mannréttindasamningur sem hefur verið staðfestur af flestum þjóðum.
Kosningafundur barna
Í dag stendur ráðgjafarhópur umboðsmanns barna fyrir kosningafundi barna og er markmið kosningafundarins að vekja athygli á málefnum barna og veita þeim tækifæri til þess að beina spurningum til frambjóðenda um helstu áherslur flokkanna í málefnum barna og um þau málefni sem helst brenna á börnum.
Krakkakosningar
Í samvinnu við KrakkaRÚV, stendur embættið fyrir krakkakosningum í grunnskólum en þetta er í sjöunda sinn sem krakkakosningar fara fram. Markmið þeirra er að auka þekkingu barna á lýðræðislegum kosningum til Alþingis og efla þátttöku þeirra. Kosningarnar veita börnum jafnframt tækifæri til þess að koma sínum skoðunum á framfæri í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Gert er ráð fyrir að kosningarnar fari fram dagana 25.-27. nóvember og verða niðurstöður þeirra kynntar í upphafi kosningasjónvarps RÚV þann 30. nóvember nk.
Umboðsmaður barna óskar öllum börnum til hamingju daginn!