Dagur mannréttinda barna
Dagur mannréttinda barna var laugardaginn 20. nóvember sl. en þá voru 32 ár síðan Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Eftirfarandi grein eftir Salvöru Nordal, birtist í Morgunblaðinu 20. nóvember 2021 á degi mannréttinda barna.
Í dag fögnum við því að 32 ár eru síðan Barnasáttmálinn, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Barnasáttmálinn hefur leitt til víðtækra breytinga á viðhorfum til barna, en hann gerir kröfu um að litið sé á börn sem fullgilda einstaklinga og sjálfstæða handhafa réttinda, sem aðildarríkjum sáttmálans ber að virða og vernda með öllum tiltækum leiðum. Áhrifa Barnasáttmálans gætir víða í löggjöf en þar ber helst að nefna meginreglu sáttmálans um rétt barna til þátttöku og áhrifa og þá kröfu sáttmálans að grundvalla eigi allar ákvarðanir og ráðstafanir sem varða börn á því sem þeim er fyrir bestu.
Margt hefur áunnist
Þegar litið er yfir farinn veg er ljóst að margt hefur áunnist í málefnum barna frá því að Barnasáttmálinn var samþykktur. Með aðild að Barnasáttmálanum skuldbinda ríki sig til að grípa til allra nauðsynlegra og viðeigandi ráðstafana til að innleiða hann að fullu á öllum sviðum samfélagsins. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sérstaklega áréttað mikilvægi þess að ávallt sé lagt mat á áhrif tillagna og ráðstafana á börn, á fyrstu stigum ákvarðanatöku. Víða í Evrópu og ekki síst í hinum ríkjum Norðurlandanna hafa stjórnvöld innleitt formlega mat á áhrifum á börn, til að tryggja að ávallt liggi fyrir upplýsingar um áhrif ýmissa tillagna á börn, áður en þeim er hrint í framkvæmd. Slíkt mat hefur ekki verið formfest í íslenskri stjórnsýslu, en Alþingi samþykkti síðasta vor að slíkt mat ætti að innleiða hér á landi og tillögur um framkvæmd þess ættu að liggja fyrir í lok þessa árs. Til eru innlendar fyrirmyndir að slíku verklagi sem líta má til, sem dæmi má nefna eru gerðar ríkar kröfur til framkvæmdavaldsins um að tryggja að fram fari mat á jafnréttisáhrifum frumvarpa þegar á áformastigi. Með sama hætti mætti formfesta mat á áhrifum á börn við gerð frumvarpa og við mótun stefnu. Framkvæmd mats á áhrifum á börn þjónar þeim tilgangi að tryggja að það sem börnum er fyrir bestu sé ávallt í fyrirrúmi þegar ákvarðanir eru teknar, en tilgangurinn er einnig sá að gera stjórnvöldum kleift að grípa til nauðsynlegra mótvægisaðgerða, í þeim tilvikum þar sem ekki er unnt að komast hjá neikvæðum afleiðingum á börn, stöðu þeirra og réttindi.
Það er mikilvægt að líta til reynslu og skoðana barna þegar lærdómar eru dregnir af viðbrögðum við við faraldrinum og mat lagt á það hvaða aðgerða er þörf til að bæta hag og líðan þeirra.
Á tímum heimsfaraldurs þarf iðulega að taka ákvarðanir með skömmum fyrirvara og þá er ekki alltaf hægt að fara að ýtrustu kröfum um vandaðan undirbúning. Hins vegar hafa ákvarðanir margoft verið teknar á síðustu misserum, um afar íþyngjandi ráðstafanir sem varða börn með beinum hætti, án aðkomu barna og án þess að mat hafi verið lagt á möguleg áhrif á þau. Þá hefur einnig orðið misbrestur á því að börn hafi fengið nauðsynlegar upplýsingar um fyrirhugaðar aðgerðir eða hvernig þau geti látið mál til sín taka ef þau kjósa það. Það sýnir fram á nauðsyn þess að íslensk stjórnvöld stígi næstu skref í innleiðingu Barnasáttmálans, enda er það ekki síst þegar vá steðjar að sem hvað mikilvægast er að virða, vernda og tryggja réttindi barna, enda þekkt að í slíkum aðstæðum er heilsu og velferð barna hætta búin. Því verða viðbragðsáætlanir á sviði almannavarna og öryggismála að fjalla um og taka sérstakt mið af hagsmunum, réttindum og þörfum barna.
Ávallt leitað eftir sjónarmiði barna
Í starfi umboðsmanns barna er skýr áhersla lögð á 12. gr. Barnasáttmálans, og unnið að því markmiði að við mótun stefnu og töku ákvarðana sem varða börn verði ávallt leitað eftir og tekið tillit til sjónarmiða þeirra. Á síðustu misserum hefur embættið safnað frásögnum barna af daglegu lífi á tímum heimsfaraldurs, en tilgangurinn var annars vegar að safna mikilvægum samtímaheimildum um líðan barna í áður óþekktum aðstæðum, og hins vegar að koma sjónarmiðum barna á framfæri og í opinbera umræðu. Af frásögnum barnanna að dæma hefur heimsfaraldurinn reynst mörgum þeirra krefjandi tímabil, en mörg barnanna komu einnig auga á það sem var jákvætt við þessa reynslu, eins og fjölgun samverustunda með fjölskyldunni og að fá meiri tíma og svigrúm til að sinna eigin hugðarefnum. Það er því mikilvægt að líta til reynslu og skoðana barna þegar lærdómar eru dregnir af viðbrögðum við faraldrinum og mat lagt á það hvaða aðgerða er þörf til að bæta hag og líðan barna í íslensku samfélagi.
Innleiðing Barnasáttmálans er viðvarandi verkefni og fjölmargar áskoranir eru fram undan. Á þessum degi er hins vegar full ástæða til að líta yfir farinn veg og þær fjölmörgu vörður sem mörkuðu leiðina að samfélagi þar sem réttindi barna eru í hávegum höfð. Börnum hefur til að mynda verið tryggð vernd gegn öllum tegundum ofbeldis og réttur þeirra til þátttöku í öllum málum sem þau varðar hefur verið staðfestur. Þá hefur hlutdeild og vægi barna í opinberri þjóðfélagsumræðu aukist, sem er sérstakt ánægjuefni.
Ég vil óska öllum börnum til hamingju með daginn, og það er von mín að það gefist tækifæri til þess að fagna því um land allt að í dag eru 32 ár síðan börn fengu alþjóðlega viðurkenningu á stöðu sinni sem fullgildir þjóðfélagsþegnar og rétthafar.