22. nóvember 2021

Dagur mannréttinda barna

Dagur mannréttinda barna var laugardaginn 20. nóvember sl. en þá voru 32 ár síðan Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. 

Eftirfarandi grein eftir Salvöru Nordal, birtist í Morgunblaðinu 20. nóvember 2021 á degi mannréttinda barna. 


Í dag fögn­um við því að 32 ár eru síðan Barna­sátt­mál­inn, samn­ing­ur Sam­einuðu þjóðanna um rétt­indi barns­ins, var samþykkt­ur á alls­herj­arþingi Sam­einuðu þjóðanna. Barna­sátt­mál­inn hef­ur leitt til víðtækra breyt­inga á viðhorf­um til barna, en hann ger­ir kröfu um að litið sé á börn sem full­gilda ein­stak­linga og sjálf­stæða hand­hafa rétt­inda, sem aðild­ar­ríkj­um sátt­mál­ans ber að virða og vernda með öll­um til­tæk­um leiðum. Áhrifa Barna­sátt­mál­ans gæt­ir víða í lög­gjöf en þar ber helst að nefna meg­in­reglu sátt­mál­ans um rétt barna til þátt­töku og áhrifa og þá kröfu sátt­mál­ans að grund­valla eigi all­ar ákv­arðanir og ráðstaf­an­ir sem varða börn á því sem þeim er fyr­ir bestu.

Margt hef­ur áunn­ist

Þegar litið er yfir far­inn veg er ljóst að margt hef­ur áunn­ist í mál­efn­um barna frá því að Barna­sátt­mál­inn var samþykkt­ur. Með aðild að Barna­sátt­mál­an­um skuld­binda ríki sig til að grípa til allra nauðsyn­legra og viðeig­andi ráðstaf­ana til að inn­leiða hann að fullu á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins. Barna­rétt­ar­nefnd Sam­einuðu þjóðanna hef­ur sér­stak­lega áréttað mik­il­vægi þess að ávallt sé lagt mat á áhrif til­lagna og ráðstaf­ana á börn, á fyrstu stig­um ákv­arðana­töku. Víða í Evr­ópu og ekki síst í hinum ríkj­um Norður­land­anna hafa stjórn­völd inn­leitt form­lega mat á áhrif­um á börn, til að tryggja að ávallt liggi fyr­ir upp­lýs­ing­ar um áhrif ým­issa til­lagna á börn, áður en þeim er hrint í fram­kvæmd. Slíkt mat hef­ur ekki verið form­fest í ís­lenskri stjórn­sýslu, en Alþingi samþykkti síðasta vor að slíkt mat ætti að inn­leiða hér á landi og til­lög­ur um fram­kvæmd þess ættu að liggja fyr­ir í lok þessa árs. Til eru inn­lend­ar fyr­ir­mynd­ir að slíku verklagi sem líta má til, sem dæmi má nefna eru gerðar rík­ar kröf­ur til fram­kvæmda­valds­ins um að tryggja að fram fari mat á jafn­rétt­isáhrif­um frum­varpa þegar á áforma­stigi. Með sama hætti mætti form­festa mat á áhrif­um á börn við gerð frum­varpa og við mót­un stefnu. Fram­kvæmd mats á áhrif­um á börn þjón­ar þeim til­gangi að tryggja að það sem börn­um er fyr­ir bestu sé ávallt í fyr­ir­rúmi þegar ákv­arðanir eru tekn­ar, en til­gang­ur­inn er einnig sá að gera stjórn­völd­um kleift að grípa til nauðsyn­legra mót­vægisaðgerða, í þeim til­vik­um þar sem ekki er unnt að kom­ast hjá nei­kvæðum af­leiðing­um á börn, stöðu þeirra og rétt­indi.

Það er mikilvægt að líta til reynslu og skoðana barna þegar lærdómar eru dregnir af viðbrögðum við við faraldrinum og mat lagt á það hvaða aðgerða er þörf til að bæta hag og líðan þeirra.

Á tím­um heims­far­ald­urs þarf iðulega að taka ákv­arðanir með skömm­um fyr­ir­vara og þá er ekki alltaf hægt að fara að ýtr­ustu kröf­um um vandaðan und­ir­bún­ing. Hins veg­ar hafa ákv­arðanir margoft verið tekn­ar á síðustu miss­er­um, um afar íþyngj­andi ráðstaf­an­ir sem varða börn með bein­um hætti, án aðkomu barna og án þess að mat hafi verið lagt á mögu­leg áhrif á þau. Þá hef­ur einnig orðið mis­brest­ur á því að börn hafi fengið nauðsyn­leg­ar upp­lýs­ing­ar um fyr­ir­hugaðar aðgerðir eða hvernig þau geti látið mál til sín taka ef þau kjósa það. Það sýn­ir fram á nauðsyn þess að ís­lensk stjórn­völd stígi næstu skref í inn­leiðingu Barna­sátt­mál­ans, enda er það ekki síst þegar vá steðjar að sem hvað mik­il­væg­ast er að virða, vernda og tryggja rétt­indi barna, enda þekkt að í slík­um aðstæðum er heilsu og vel­ferð barna hætta búin. Því verða viðbragðsáætlan­ir á sviði al­manna­varna og ör­ygg­is­mála að fjalla um og taka sér­stakt mið af hags­mun­um, rétt­ind­um og þörf­um barna.

Ávallt leitað eft­ir sjón­ar­miði barna

Í starfi umboðsmanns barna er skýr áhersla lögð á 12. gr. Barna­sátt­mál­ans, og unnið að því mark­miði að við mót­un stefnu og töku ákv­arðana sem varða börn verði ávallt leitað eft­ir og tekið til­lit til sjón­ar­miða þeirra. Á síðustu miss­er­um hef­ur embættið safnað frá­sögn­um barna af dag­legu lífi á tím­um heims­far­ald­urs, en til­gang­ur­inn var ann­ars veg­ar að safna mik­il­væg­um sam­tíma­heim­ild­um um líðan barna í áður óþekkt­um aðstæðum, og hins veg­ar að koma sjón­ar­miðum barna á fram­færi og í op­in­bera umræðu. Af frá­sögn­um barn­anna að dæma hef­ur heims­far­ald­ur­inn reynst mörg­um þeirra krefj­andi tíma­bil, en mörg barn­anna komu einnig auga á það sem var já­kvætt við þessa reynslu, eins og fjölg­un sam­veru­stunda með fjöl­skyld­unni og að fá meiri tíma og svig­rúm til að sinna eig­in hugðarefn­um. Það er því mik­il­vægt að líta til reynslu og skoðana barna þegar lær­dóm­ar eru dregn­ir af viðbrögðum við far­aldr­in­um og mat lagt á það hvaða aðgerða er þörf til að bæta hag og líðan barna í ís­lensku sam­fé­lagi.

Réttindi barna

Inn­leiðing Barna­sátt­mál­ans er viðvar­andi verk­efni og fjöl­marg­ar áskor­an­ir eru fram und­an. Á þess­um degi er hins veg­ar full ástæða til að líta yfir far­inn veg og þær fjöl­mörgu vörður sem mörkuðu leiðina að sam­fé­lagi þar sem rétt­indi barna eru í há­veg­um höfð. Börn­um hef­ur til að mynda verið tryggð vernd gegn öll­um teg­und­um of­beld­is og rétt­ur þeirra til þátt­töku í öll­um mál­um sem þau varðar hef­ur verið staðfest­ur. Þá hef­ur hlut­deild og vægi barna í op­in­berri þjóðfé­lagsum­ræðu auk­ist, sem er sér­stakt ánægju­efni.

Ég vil óska öll­um börn­um til ham­ingju með dag­inn, og það er von mín að það gef­ist tæki­færi til þess að fagna því um land allt að í dag eru 32 ár síðan börn fengu alþjóðlega viður­kenn­ingu á stöðu sinni sem full­gild­ir þjóðfé­lagsþegn­ar og rétt­haf­ar.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica