Breytingar á viðmiðunarstundarskrá
Embættið sendi inn umsögn sína um tillögur mennta- og menningarmálaráðuneytis um breytingar á gildandi viðmiðunarstundaskrá grunnskóla.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um tillögu að breytingu á gildandi viðmiðunarstundaskrá frá 2011 en þar kemur meðal annars fram að viðmiðunarstundaskrá grunnskóla hefur verið óbreytt allt frá gildistöku aðalnámskrár grunnskóla 2011.
Umboðsmaður barna sendi inn eftirfarandi umsögn inn á samráðsgátt stjórnvalda:
Efni: Umsögn umboðsmanns barna um drög að breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011
Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú til umsagnar tillögur mennta- og menningarmálaráðuneytis um breytingar á gildandi viðmiðunarstundaskrá grunnskóla. Þar kemur fram að tilefnið sé viðvarandi slakur árangur nemenda í íslensku og náttúrufræði í PISA könnunum OECD.
Gera tillögurnar ráð fyrir því að á yngsta stigi grunnskóla sem og á miðstigi verði meiri tíma varið til íslensku með því að fella niður svigrúm grunnskóla til ráðstöfunar tíma sem ráðuneytið telur að algengt sé að skólar nýti til lestrar- og íslenskukennslu. Ber til þess að líta að umrætt svigrúm hefur einnig verið nýtt til kennslu í lífsleikni sem og list- og verkgreinum og er miður að til standi að takmarka svigrúm skóla með þessum hætti.
Í tillögunum kemur einnig fram að á unglingastigi grunnskóla eigi að auka verulega áherslu á náttúrugreinar og í stað þess draga úr vali nemenda sem því nemur. Umboðsmaður barna vill hér sérstaklega árétta kafla aðalnámsskrár um valgreinar, nánar tiltekið kafla 8.3. Þar kemur fram að tilgangurinn með valfrelsi nemenda á unglingastigi sé að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjöf.
Tillögur ráðuneytisins ganga þvert á umrædd markmið og takmarka valfrelsi nemenda. Þá skal á það bent að rannsóknir hafa á síðustu árum sýnt fram á vaxandi kvíða og andlega vanlíðan íslenskra ungmenna en um er að ræða brýnt og ærið viðfangsefni sem allar stofnanir samfélagsins þurfa að koma að, þar á meðal skólar. Með hliðsjón af þeirri stöðu gerir umboðsmaður barna athugasemdir við að lagðar séu til breytingar sem séu til þess fallnar að auka frekar á vanlíðan enda ljóst að valgreinar skipta ungmenni oft miklu máli og eru mikilvæg tækifæri fyrir þau til þess að sinna eigin hugðarefnum innan skólans sem hluta af eigin námi. Það er mikilvægur hluti af þroskaferli sérhvers ungmennis að fá að rækta eigin hæfileika og taka ákvarðanir um eigið líf og aðstæður.
Í þessu sambandi vill umboðsmaður barna benda á skýrslu embættisins með niðurstöðum barnaþings 2019 sem afhent var ráðherrum ríkisstjórnar s.l. vor. Í kafla um skóla og menntun kemur fram að barnaþingmenn lögðu áherslu á aukið val í grunnskólum en þar má einnig finna eftirfarandi tilvísun í hugmyndir barnaþingsmanna:
Nafnháttur lýsingarorða þátíðar gagnast ekki. Kenna frumkvöðlahugsun, kenna börnum að koma skoðunum sínum á framfæri. Kenna börnum að bjarga fólki. Lífsleikni gerð markvissari, ekki bara tjill tími. Löggjafinn þarf að vera virkari, ekki eftirá. Kenna börnum að læra. Læra að læra - læra að bjarga sér í upplýsingaheiminum.
Umboðsmaður barna gerir athugasemdir við orðalagið „viðvarandi slakur árangur nemenda“ og áréttar að um viðvarandi slakan árangur menntakerfisins er að ræða, ekki nemenda. Ekki eru í tillögunum færð rök fyrir því að fjölgun kennslustunda ein og sér komi til með að bæta árangur nemenda á kostnað valfrelsis og fjölbreytni. Þá kemur ekki fram að til standi að taka upp nýstárlegri eða fjölbreyttari kennsluaðferðir, heldur á eingöngu að fjölga kennslustundum í umræddum námsgreinum. Ekki eru færð fram nein rök fyrir því að betri árangur náist með þessu móti. Brýnt er að hafa samráð við börn í grunnskólum um leiðir til þess að gera námið aðgengilegra, fjölbreyttara og áhugaverðara. Það væri í samræmi við markmið aðalnámsskrár grunnskóla þar sem segir að skólar eigi að styðja við námshvöt nemenda, rækta námsgleði og vinnuanda og stuðla þannig að menntun þeirra. Þeim markmiðum verður augljóslega ekki náð með því einu að fjölga kennslustundum í tilteknum greinum. Þá eru ónefndar þær efasemdir sem settar hafa verið fram um PISA prófin og hvort þau séu raunverulega til þess fallin að veita heppilegan samanburð á stöðu nemenda í ólíkum löndum og skólakerfum.
Samkvæmt Barnasáttmálanum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skulu allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn byggðar á því sem þeim er fyrir bestu. Þá kveður 12. grein Barnasáttmálans á um rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska.
Á undanförnum árum hafa verið gerðar viðamiklar breytingar í skólakerfinu án þess að leitað hafi verið eftir skoðunum barnanna sjálfra. Má þar nefna styttingu framhaldsskólans, breytt einkunnakerfi í grunnskólum og mótun stefnu í menntamálum þar sem nánast ekkert samráð var haft við börn fyrr en hún var komin á lokastig. Umboðsmaður barna leggur áherslu á að í samráðsferli því sem nú er hafið um umræddar tillögur leiti menntamálaráðuneytið sérstaklega eftir sjónarmiðum grunnskólanemenda á ofangreindum breytingum. Til að tryggja að grunnskólanemar séu upplýstir um fyrirhugaðar breytingar mun umboðsmaður barna senda bréf til nemendafélaga og samtaka ungmenna til að vekja athygli þeirra á fyrirhuguðum breytingum enda er samráðsgátt stjórnvalda ekki sérstaklega ætluð til samráðs við börn.
Umsögn umboðsmanns barna um breytingu á viðmiðunarstundarskrá.