Breytingar á lögum um umboðsmann barna samþykktar á Alþingi
Breytingar á lögum um umboðsmann barna voru samþykktar á Alþingi í gær 13. desember.
Helstu nýmæli eru þau að umboðsmanni barna er falið að afla og miðla gagna og upplýsingum um aðstæður og stöðu tiltekinna hópa barna á Íslandi en í vor undirrituðu embættið og Hagstofan viljayfirlýsingu þess efnis að hefja undirbúning þeirra vinnslu. Umboðsmaður barna hefur alltaf lagt sig fram við að hafa virkt samráð við börn en með breytingunum nú var lögfest sú skylda umboðsmanns að hafa virkt samráð við börn ásamt því að hafa hóp barna sér til ráðgjafar en slíkur hópur hefur starfað við embættið um árabil (sjá nánar hér; ráðgjafarhópur umboðsmanns barna) Með breytingarlögunum var mikil áhersla lögð á réttindi barna, m.a. með tilliti til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er snúa að réttindum barna.
Þá verður umboðsmanni barna falið að halda annað hvert ár sérstakt barnaþing þar sem farið verður yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins. Þar er gert ráð fyrir virkri þátttöku barna í skipulagningu þingsins og framkvæmd þess. Fyrsta barnaþingið verður haldið í nóvember 2019 en umboðsmaður barna hefur nú þegar hafið vinnu við skipulagningu þingsins.
Í greinargerðinni með frumvarpinu kemur fram:
Með frumvarpinu er lagt til að skýrar verði kveðið á um hlutverk umboðsmanns barna og áhersla lögð á réttindi barna, m.a. samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og fleiri alþjóðasamningum, svo sem samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem lúta að réttindum barna. Sett verði nýtt ákvæði í lög um umboðsmann barna þar sem umboðsmanni verði falið að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni, í samvinnu við ýmsa aðila. Eiga þau gögn að liggja til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar eins og gert er ráð fyrir í ákvæðum barnasáttmálans.
Þá er lagt til að lögfest verði að umboðsmaður skuli hafa virkt samráð við börn og hafa hóp barna sér til ráðgjafar en slíkur hópur hefur starfað við embættið um árabil.
Loks er í barnasáttmálanum gerð krafa um þátttöku barna í ákvarðanatöku um öll mál sem þau varða og ber að taka tillit til skoðana þeirra. Því er lagt til að lögfest verði ákvæði um að reglulega skuli haldið barnaþing þar sem farið verði yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins og að niðurstöður þingsins verði kynntar ríkisstjórn og hlutaðeigandi ráðherrum.
Í máli Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra við þetta tækifæri kom fram að þessar breytingar séu framfaramál sem sé ætlað að styrkja embætti umboðsmanns barna.