Bréf til landlæknis - óskað eftir upplýsingum úr lyfjagrunni
Umboðsmaður barna sendi bréf til Embætti landlæknis þar sem óskað var eftir upplýsingum úr lyfjagagnagrunni er varða lyfjanotkun barna og ungmenna.
Bréfið má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.
Embætti landlæknis,
b.t. Sigríðar Haraldsdóttur
Reykjavík, 14. september 2018
Efni: Ósk um upplýsingar úr lyfjagagnagrunni
Meginhlutverk umboðsmanns barna er að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Þá er umboðsmanni ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum barna almennt ásamt því að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu um málefni barna og koma með tillögur til úrbóta á ýmsum sviðum samfélagsins.
Nokkur umræða hefur verið um lyfjanotkun barna. Í norrænum samanburði er til að mynda algengara að íslensk börn á leik- og grunnskólaaldri fái ávísað tauga- og geðlyf en jafnaldrar þeirra í Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Full ástæða er til að fylgjast vel með þróun lyfjanotkunar barna og því óskar umboðsmaður barna eftir upplýsingum úr lyfjagagnagrunni er varða lyfjanotkun barna og ungmenna. Óskað er eftir upplýsingum um ávísuð lyf í flokki svefnlyfja, þunglyndislyfja, sterkra verkjalyfja, róandi lyfja og örvandi lyfja til barna flokkað eftir árgöngum. Ef slíkt er ekki unnt óskar hann eftir að upplýsingunum verði skipt upp eftir aldurshópum á bilinu 0- 2 ára, 3 – 5 ára, 6 – 10 ára, 11 – 15 ára og 16 – 18 ára.
Jafnframt vill umboðsmaður benda á að stjórnvöldum er skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu, sbr. 5. gr. laga um umboðsmann barna nr. 83/1994.
Virðingarfyllst,
Salvör Nordal,
umboðsmaður barna