25. október 2010

Bréf til fjárlaganefndar vegna niðurskurðar

Umboðsmaður barna hefur sent nefndarmönnum í fjárlaganefnd Alþingis bréf þar sem vakin er athygli á þeim sjónarmiðum sem þarf að hafa í huga þegar þjónusta er skorin niður. Í bréfinu er fjallað um rétt barna til menntunar, umönnunar, heilbrigðis og framfærslu.

Umboðsmaður barna hefur sent nefndarmönnum í fjárlaganefnd Alþingis bréf þar sem vakin er athygli á þeim sjónarmiðum sem þarf að hafa í huga þegar þjónusta er skorin niður. Í bréfinu er fjallað um rétt barna til menntunar, umönnunar, heilbrigðis og framfærslu. Umboðsmaður bendir á ákvæði Barnasáttmálans sem skuldbinda ríkið til að veita börnum nauðsynlega þjónustu og gagnrýnir allan niðurskurð sem bitnar á börnum harðlega.

Bréfið er svohljóðandi: 

Reykjavík, 21. október 2010
UB:1010/4.1.1

Til nefndarmanna í fjárlaganefnd
 
Eins og fram kemur í bréfi umboðsmanns barna sem sent var öllum þingmönnum hinn 4. október sl. er mikilvægt að halda sérstaklega vel utan um börn á þessum erfiðu tímum og sjá til þess að þau njóti þeirrar verndar og umönnunar sem velferð þeirra krefst, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.
 
Í fyrirliggjandi fjárlögum er gert ráð fyrir ýmsum niðurskurði sem bitnar á börnum og fjölskyldum þeirra. Þar getur verið um að ræða skerðingu á fjárveitingum til stofnana ríkisins sem eiga að tryggja einstaklingum ákveðin grunnmannréttindi svo sem rétt til heilbrigðisþjónustu, framfærslu og menntunar.
 
Ljóst er að gæta þarf sérstakrar varkárni þegar tekin er ákvörðun um að skerða réttindi sem þegar er búið að veita. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi hefur bent á að efnahagsstaða ríkis ein og sér dugi ekki til að réttlæta skerðingu á slíkum réttindum. Þannig þarf að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þessi réttindi eru skert. Þar að auki er nauðsynlegt að þeir sem ákvörðun bitnar á séu hafðir með í undirbúningi ákvörðunar. Þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að jafnræðis sé gætt í hvívetna. Gera verður sérstaklega ríkar kröfur þegar um börn er að ræða, enda eiga hagsmunir barna ávallt að hafa forgang þegar verið er að taka ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti, sbr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
 
Réttur til menntunar
Réttur til menntunar er mikilvægur grundvallarréttur barna, sbr. 28. gr. Barnasáttmálans. Í fjárlögum er gert ráð fyrir 6% niðurskurði í fjárveitingu til framhaldsskóla. Ljóst er að slíkur niðurskurður mun bitna á þeirri þjónustu sem framhaldsskólar veita nemendum, ekki síst þeim sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda. Má því gera ráð fyrir því að það leiði til aukins brottfalls nemenda úr framhaldsskólum. Þetta er ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda að sporna við brottfalli úr framhaldsskólum hér á landi sem nú þegar er með því mesta sem gerist í Evrópu. Mikilvægt er að huga að því hvaða afleiðingar slíkur niðurskurður muni hafa fyrir þennan hóp sem og komandi kynslóðir. Í því sambandi má benda á rannsóknina Ungt fólk utan skóla 2009 en þar kemur fram að ungmennum sem eru ekki í skóla líður mun verr en þeim sem eru í námi auk þess sem reynsla annarra þjóða bendir til þess að þetta er sá hópur sem mun eiga erfitt uppdráttar þegar til framtíðar er litið. Umboðsmaður barna gagnrýnir því þennan niðurskurð harðlega og dregur í efa að hann verði til hagræðis fyrir ríkissjóð til lengri tíma litið.
 
Réttur til umönnunar
Börn eiga rétt á að njóta umönnunar beggja foreldra sinna. Foreldrar skipta mestu máli í lífi barna og umönnun og atlæti fyrstu mánuðina í lífi ungbarna hefur varanleg áhrif á allt líf þeirra. Þess vegna þarf að tryggja að ungbörn geti verið heima og notið umönnunar foreldra sinna sem lengst. Umboðsmaður barna gagnrýnir því fyrirhugaða skerðingu á framlögum til fæðingarorlofssjóðs og telur hana óviðunandi afturför sem ekki er í samræmi við hagsmuni barna.
 
Réttur til heilbrigðis
Börn eiga rétt á því að njóta besta mögulegs heilsufars sem hægt er að tryggja, sbr. 24. gr. Barnasáttmálans. Ríkinu ber því að tryggja að öll börn njóti þeirrar heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa á að halda án mismununar af nokkru tagi. Nú þegar er staða mála ekki ásættanleg á ýmsum sviðum. Má þar nefna tannheilbrigðisþjónustu, þjónustu sálfræðinga og fagfólks á geðheilbrigðissviði og þjónustu talmeinafræðinga. Umboðsmaður barna telur ljóst að fyrirhugaður niðurskurður í heilbrigðiskerfinu muni bitna á börnum, ekki síst þeim sem búa á landsbyggðinni, eru fötluð eða standa að einhverju leyti höllum fæti. Ef börn fá ekki þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa núna eru líkur á því að það hafi alvarlegri vandamál í för með sér í framtíðinni með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið. Umboðsmaður barna vill því árétta þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi áður en efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi eru skert. Að mati umboðsmanns barna er allur niðurskurður á heilbrigðisþjónustu við börn óásættanlegur.
 
Réttur til framfærslu
Ljóst er að margar barnafjölskyldur eiga í fjárhagsvanda og eiga erfitt með að tryggja börnum sínum þá umönnun sem velferð þeirra krefst. Umboðsmaður barna vill í þessu sambandi minna á þá skuldbindingu ríkisins sem felst í 27. gr. Barnasáttmálans en samkvæmt því ákvæði ber ríkinu að sjá foreldrum fyrir þeim stuðningi sem er nauðsynlegur til að geta tryggt börnum sínum lífsafkomu sem nægir þeim til að ná líkamlegum, sálrænum, andlegum, siðferðislegum og félagslegum þroska. Því telur umboðsmaður mikilvægt að styrkja fjölskyldur í landinu á þessum erfiðu tímum og varast að skerða greiðslur til þeirra, svo sem barnabætur.
 
Umboðsmaður barna biður nefndarmenn að huga sérstaklega að ofangreindum ábendingum og hafa hagsmuni æskunnar að leiðarljósi í öllum ákvörðunum. Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu embættisins ef óskað er frekari upplýsinga. Einnig er undirrituð reiðubúin að eiga fund með fjárlaganefnd til þess að ræða þessi mál nánar ef þess er óskað.
 
Vinsamlegast staðfestið móttöku þessa bréfs.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

Afrit sent forsætisráðherra og fjármálaráðherra.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica