Börn sem eiga foreldra í fangelsum
Tveir háskólanemar vinna nú verkefni tengt börnum sem eiga foreldra í fangelsum en bæði verkefnin eru styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Umboðsmaður barna hefur fengið tvo styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna sem er í umsjón Rannís, Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Annars vegar er um að ræða verkefni sem felst í lagalegri greiningu á stöðu barna sem eiga foreldra í fangelsum, en verkefnið er í höndum Lilju Katrínar Ólafsdóttur, lögfræðings. Einnig fékk embættið styrk fyrir verkefni sem felst í könnun á tengslum fanga við börn sín á meðan á fangelsisdvöl stendur, en verkefnið er í höndum Daníels Kára Guðjónssonar, meistaranema í menningartengdri afbrotafræði við Háskólann í Lundi. Háskóli Íslands er samstarfsaðili embættis umboðsmanns barna og nýtur verkefnið liðsinnis prófessoranna Ragnheiðar Bragadóttur og Helga Gunnlaugssonar. Í dag funduðu þau Daníel Kári og Lilja Katrín með Hafdísi Guðmundsdóttur, skrifstofustjóra Fangelsismálastofnunar og Önnu Kristínu Newton, sviðsstjóra meðferðarsviðs Fangelsismálastofnunar, en þar ræddu þau fyrirhugað samstarf Fangelsismálstofnunar og umboðsmanns barna um framkvæmd verkefnisins.