6. apríl 2016

Börn og mótmæli

Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Aldrei ber að nota börn til þess að koma skoðunum annarra á framfæri. Þau eiga rétt á sínum eigin skoðunum og að tjá þær.

Mynd Boern Eiga Rett SkiltiÍ ljósi þeirra mótmæla sem nú eiga sér stað í samfélaginu og reynslunnar frá Búsáhaldabyltingunni vill umboðsmaður barna minna á að börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á sérstakri vernd að halda.

Þegar metið er hvort rétt sé að börn séu höfð með í mótmælum þarf að huga að aðstæðum hverju sinni sem og aldri, þroska og vilja barnsins. Ávallt þarf að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi og gæta þess að velferð þeirra sé tryggð.

Sú staða getur að sjálfsögðu komið upp að eldri börn vilji sjálf mótmæla. Í því sambandi vill umboðsmaður barna minna á mikilvægi þess að veita börnum tækifæri til að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska sbr. 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Auk þess njóta börn sama tjáningarfrelsis og fullorðnir. 

Fyrir foreldra og aðra sem hyggjast taka börn með til að mótmæla vill umboðsmaður koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

  • Aldrei ber að nota börn til þess að koma skoðunum annarra á framfæri. Þau eiga rétt á sínum eigin skoðunum og að tjá þær.
  • Réttur barna til verndar á að ganga framar rétti foreldra þeirra til að taka þátt í mótmælum. Erfitt er að meta hvenær friðsamleg mótmæli geta breyst í hættulegar aðstæður.
  • Eyru barna eru viðkvæmari fyrir heyrnarskemmdum af völdum hávaða en hinna fullorðnu.
  • Mikilvægt er að valda börnum ekki óþarfa áhyggjum og streitu. Reynum að hlífa börnum fyrir ringulreið og reiði. Æskilegt er að foreldrar ræði við börn um það sem er að gerast á yfirvegaðan hátt. Börn læra það sem fyrir þeim er haft.
  • Börn eiga rétt á upplýsingum um ástand mála, t.d. frá fjölmiðlum ef það hentar aldri þeirra og þroska. Það er á ábyrgð hinna fullorðnu að skapa börnum öryggi og trú á framtíðina.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica