28. maí 2019

Börn á þing í Hörpu

Eftirfarandi viðtal við Salvöru Nordal, umboðsmann barna, birtist í Morgunblaðinu í dag 28. maí 2019.

Eftirfarandi viðtal við Salvöru Nordal, umboðsmann barna, birtist í Morgunblaðinu í dag 28. maí 2019.

250 börn á þing í Hörpu

 

"Það er mikil áskorun að efla þátttöku barna svo hún sé raunveruleg og ekki einhver sýndarmennska. Við viljum heyra það sem börnum finnst og setja málefni þeirra á dagskrá," segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, um Barnaþing sem 250 börn eiga von á að fá boðskort á.

Þingið er nú haldið í fyrsta skipti en verður haldið á tveggja ára fresti framvegis. Gert er ráð fyrir 500 gestum og verða því einstaklingar á barnsaldri helmingur gesta. Alþingismönnum og fulltrúum stofnana ríkis og sveitarfélaga verður boðið á þingið ásamt aðilum vinnumarkaðarins og frjálsum félagasamtökum.

"Það verður setið við borð í þjóðfundarstíl, börn og fullorðnir sitja saman og ræða málin sem koma frá börnum og markmiðið er að stjórnvöld nýti niðurstöður af þinginu í stefnumótun í málefnum barna," segir Salvör.

Börnin sem fá boð á þingið eru valin af handahófi en þau koma frá flestum landshlutum. »Með því að vera með slembival vonumst við til að fá breiðan hóp sem endurspeglar börn í íslensku samfélagi,« segir Salvör en börnin eru á aldrinum ellefu til fimmtán ára.

Fullorðnir þurfi að læra

Salvör bendir á að það séu ekki síður þau fullorðnu sem muni læra af þinginu. "Þetta verður auðvitað líka mikill lærdómur fyrir fullorðna vegna þess að allir þurfa að læra að tala við börn, hlusta á börn og gefa þeim raunveruleg tækifæri til þess að tjá sig."

Salvör segir vandasamt verkefni að koma sjónarmiðum barna á framfæri en þing sem þetta sé nýtt af nálinni. "Ég hef ekki fundið neitt sambærilegt erlendis. Þetta er lærdómsferli; við erum að læra á meðan við erum að gera þetta og munum auðvitað læra með því að halda svona þing reglulega."

Harpa undirstrikar mikilvægi

Spurð hvernig séð verði til þess að niðurstöður þingsins muni hafa áhrif segir Salvör: "Það er okkar að fylgja niðurstöðunum eftir, að þær verði ekki bara kynntar og settar í skúffu. Við fylgjumst með því að þær verði að veruleika."

Þingið verður haldið í Hörpu en Salvör segir að staðsetningin skipti máli til þess að gefa þinginu aukið vægi. "Það gefur þessu svo glæsilega umgjörð og segir að barnamál séu alvörumál, ekki einhver annars flokks málaflokkur."

Aðspurð segir Salvör að börn séu farin að láta í sér heyra í auknum mæli hérlendis og á heimsvísu, til dæmis í tengslum við loftslagsverkfallið en þar kemur fólk saman, að stórum hluta börn, á Austurvelli og annars staðar í heiminum til þess að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Upphafskona mótmælanna er hin 16 ára sænska stúlka Greta Thunberg.

"Það er að verða mikil breyting. Þá er þýðingarmikið að það sé til formlegur vettvangur fyrir börn til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Það er mjög mikilvægt að þessar sjálfsprottnu aðgerðir sem börn eru núna í um allan heim í kjölfar aðgerða Gretu Thunberg verði áfram undir stjórn barnanna."

 

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica