Börn á skólaskyldualdri sem eru utan skóla
Umboðsmaður barna sendir bréf vegna barna utan skóla
Málefni barna á skólaskyldualdri sem eru utan skóla af ólíkum ástæðum er mikið áhyggjuefni. Embættinu hafa borist nokkur erindi þess efnis að börn mæti ekki í skóla og fá jafnvel ekki skólavist við hæfi.
Því hefur umboðsmaður barna sent bréf til menntamálaráðherra, Menntamálastofnunar og Sambands Íslenskra Sveitarfélaga og óskað eftir fundi við þá aðila til að ræða þetta mikilvæga málefni.
Mynd: Yadid Levy / Norden.org
Hér fyrir neðan er bréfið í heild sinni:
Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir,
Formaður Sambands ísl. Sveitarfélaga, Halldór Halldórsson,
Forstjóri Menntamálastofnunar, Arnór Guðmundsson
Reykjavík, 19. mars 2018
Efni: Börn á skólaskyldualdri sem eru utan skóla
Embætti umboðsmanns barna hefur borist nokkur erindi á undanförnum árum sem varða börn á skólaskyldualdri sem af ólíkum ástæðum mæta ekki í skóla nema mjög stopult, fá ekki skólavist við hæfi eða eru jafnvel hætt í skóla. Af þessum erindum að dæma má gera ráð fyrir að nokkuð brottfall sé úr grunnskóla þó svo að skýrt sé kveðið á um það í 3. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, að öllum börnum á aldrinum 6-16 ára sé skylt að sækja grunnskóla. Þá kveður Barnasáttmálinn, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, á um skyldu aðildarríkjanna til að viðurkenna rétt barns til menntunar og ber aðildarríkjunum að sjá til þess að þessi réttur nái fram að ganga þannig að allir njóti sömu tækifæra og án mismununar af nokkru tagi, sbr. 2. og 28. gr. sáttmálans. Þá leggur Barnasáttmálinn jafnframt þær skyldur á aðildarríkin að gera ráðstafanir til að stuðla að reglulegri skólasókn og draga úr því að nemendur hverfi frá námi.
Embættið hefur á síðustu mánuðum leitað óformlega eftir upplýsingum um hversu mörg börn kunni að vera í þessum aðstæðum en svo virðist sem ekki sé haldið skipulega utan um þær upplýsingar. Samkvæmt upplýsingum umboðsmanns barna eru þau börn sem um ræðir að kljást við vanda af ýmsum toga og má leiða að því líkur að fjarvera þeirra og brotthvarf úr grunnskólum megi rekja til þess að þau séu ekki að fá stuðning við hæfi. Samkvæmt 2. gr. grunnskólalaga ber grunnskóla að haga störfum sínum í samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
Í aðalnámsskrá grunnskóla er einnig fjallað um jöfn tækifæri barna til náms. Í kafla 7.2 kemur fram að allir nemendur í grunnskóla eigi rétt á að stunda nám við sitt hæfi og eiga tækifærin að vera jöfn óháð atgervi og aðstæðum hvers og eins. Er sérstaklega áréttað að tækifærin séu sambærileg og óháð því hvernig heilsufari viðkomandi nemanda er háttað eða hvort hann býr við fötlun eða hverjar aðstæður hans eru að öðru leyti. Í kafla 7.3. er fjallað um þá skyldu sveitarfélaga að sjá til þess að skólaskyld börn fái sérstakan stuðning í skólastarfi í samræmi við sérþarfir þeirra. Kemur þar fram að nemendur með sérþarfir teljast þeir sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun, geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir.
Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, nr. 585/2010 kemur fram í 4. gr. að nemendur eigi rétt á að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra í skóla án aðgreiningar og án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Þá eiga nemendur í grunnskóla rétt á að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur miðað við aldur þeirra og þroska og þeim veitt aðstoð, þar sem tekið er tillit til sérþarfa þeirra og aldurs.
Í fréttum ríkisútvarpsins 16. mars var umfjöllun um hin svokölluðu „utangarðsbörn“ með viðtölum við framkvæmdastjóra Einhverfusamtakanna og framkvæmdastjóra Sjónarhóls, samtaka sem þjónusta foreldra barna með sérþarfir. Kom þar fram að dæmi væru um að börn með einhverfu, geðrænan vanda eða aðrar raskanir mæti ekki í skólann svo mánuðum skipti, án þess að skólayfirvöld tilkynni barnayfirvöldum um það eða bregðist við með öðrum hætti. Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða umboðsmanns barna að um skýlaus brot á grunnskólalögum og ákvæðum Barnasáttmálans sé að ræða þegar börn á skólaskyldualdri eru utangarðs í skólakerfinu og fá þar að leiðandi ekki notið réttar síns til menntunar og jafnra tækifæra.
Í ljósi ofangreinds óskar umboðsmaður barna eftir því að þar til bær stjórnvöld og sveitarfélög bregðist við þessum brýna vanda og sjái til þess að staða barna sem eru utan skólakerfisins sé greind sérstaklega. Í því skyni verði kortlagt hversu mörg börn um ræðir og hverjar eru helstu ástæður þess að börnin sækja ekki skóla. Í kjölfarið verði fundnar leiðir til að bregðast við með viðunandi hætti þannig að mannréttindi barna séu virt.
Umboðsmaður barna óskar eftir fundi með menntamálaráðherra, formanni sambands íslenskra sveitarfélaga og forstjóra Menntamálastofnunar við fyrsta tækifæri til að ræða stöðu þessara barna og leita svara við því hvernig hægt sé að bregðast við til að tryggja réttindi þeirra til jafnra tækifæra og menntunar.
Virðingarfyllst,
Salvör Nordal
umboðsmaður barna