Barnaþing í nóvember
Barnaþing verður haldið í þriðja sinn dagana 16. og 17. nóvember 2023 í Silfurbergi í Hörpu.
Barnaþing skapar reglubundinn vettvang fyrir börn til þess að láta skoðanir sínar í ljós og gefur stjórnvöldum tækifæri á að fylgja hugmyndum þeirra eftir og koma tillögum þeirra í framkvæmd. Embættinu ber að boða fjölbreyttan hóp barna til þingsins, alþingismenn, fulltrúa stofnana ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna. Við upphaf þingsins leggur umboðsmaður barna fram skýrslu um stöðu barna á Íslandi, þar sem m.a. er farið yfir þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins. Umboðsmaður barna ákveður önnur verkefni þingsins.
Barnaþingi er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau og veita sjónarmiðum þeirra farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu í samræmi við 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Á vefsíðu barnaþings er hægt að finna nánari upplýsingar um viðburðinn.
Í lögum um umboðsmann barna er kveðið á um að haldið verði annað hvert ár þing um málefni barna. Umboðsmaður barna boðar til þingsins og kynnir niðurstöður og ályktanir þess fyrir ríkisstjórn.