17. maí 2019

Barnaþing haldið 21. - 22. nóvember 2019

Barnaþing verður haldið 21.- 22. nóvember n.k. í Hörpu. Skipulag þingsins er vel á veg komið en gera má ráð fyrir um 400-500 þátttakendum á þinginu.

Í ár eru 30 ár frá því að Barnasáttmálinn – samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var samþykktur og er þeim merka áfanga fagnað með ýmsu móti. Hápunkturinn verður án efa þing um málefni barna, barnaþing, sem umboðsmaður barna heldur í fyrsta skiptið  á þessu ári en samkvæmt breytingu á lögum um umboðsmann barna ber honum að halda slíkt þing á tveggja ára fresti. Barnaþingið verður haldið 21.- 22. nóvember n.k. í Hörpu og skipulag þingsins er vel á veg komið. Gera má ráð fyrir um 400-500 þátttakendum á þinginu, þar af stórum hópi barna sem einnig kemur að skipulagningu þingsins.

Dagskrá barnaþingsins verður auglýst síðar en umboðsmaður barna leggur áherslu á samstarf við alla þá sem vinna að málefnum barna um land allt. Það er von umboðsmanns að barnaþingið muni efla tengsl allra sem vinna að málefnum barna og auka meðvitund um lýðræðisþátttöku barna í samfélaginu.

Um áramótin tóku lög um umboðsmann barna breytingum þar sem m.a. var lögfest skylda umboðsmanns að halda barnaþing á tveggja ára fresti, sbr. 6. gr. a., en þar segir:

Umboðsmaður barna boðar til þings um málefni barna annað hvert ár og skulu niðurstöður og ályktanir þingsins kynntar ríkisstjórn. 

Á þinginu skal fjalla um málefni barna og við upphaf þess leggur umboðsmaður fram skýrslu um stöðu þeirra. Í skýrslunni skal m.a. fjallað um stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins, þar á meðal um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Önnur verkefni þingsins ákveður umboðsmaður barna.  

Þingið er öllum opið en umboðsmaður barna skal bjóða fjölbreyttum hópi barna til þingsins, alþingismönnum, fulltrúum stofnana ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna.  

Seta á þinginu er ólaunuð. 



Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica