23. apríl 2021

Barnasáttmálinn og sóttvarnaraðgerðir

Umboðsmaður barna hefur sent erindi til forsætisráðherra vegna mats á þeim áhrifum sem sóttvarnaraðgerðir hafa á börn. 

Umboðsmaður barna hefur sent erindi til forsætisráðherra þar sem fram kemur að Covid-19 faraldurinn hafi leitt í ljós kerfisbundna veikleika í íslenskri stjórnsýslu sem koma í veg fyrir að ákvæði Barnasáttmálans og réttindi barna séu virt í framkvæmd. 

Ítrekað hafa ákvarðanir sem varða börn verið teknar án nokkurs samráðs við þau eða þá aðila sem eiga að gæta hagsmuna þeirra. 

Þá hafa verulega íþyngjandi ákvarðanir verið teknar án þess að lagt hafi verið mat á áhrif þeirra á börn og má þar nefna nýsamþykkt lög sem heimila þvingaða vistun barna í sóttvarnahúsi. 

Að mati umboðsmanns barna sýnir þetta fram á nauðsyn þess að íslensk stjórnvöld stígi næstu skref í innleiðingu Barnasáttmálans með því að innleiða ferla sem tryggja að sjónarmið barna rati inn í alla ákvarðanatöku sem varðar þau og að áhrif ákvarðana á börn liggi fyrir áður en þær koma til framkvæmda.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica