Athugasemd barnaréttarnefndar um loftlagsbreytingar
Mánudaginn 18. september sl. kynnti barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna almenna athugasemd nr. 26 sem fjallar um réttindi barna og umhverfið, með sérstakri áherslu á loftslagsbreytingar.
Í athugasemdinni ávarpar barnaréttarnefndin í fyrsta skipti opinberlega sjálfstæðan rétt barna til þess að lifa í hreinu, heilnæmu og sjálfbæru umhverfi. Almenn athugasemd nr. 26 varpar ljósi á hvernig umhverfisáskoranir hafa bein áhrif á réttindi barna og útlistar þau mikilvægu skref sem ríki verða að taka til að tryggja að börn geti alist upp í heimi sem er ekki aðeins hreinn, grænn og heilnæmur heldur einnig sjálfbær. Í almennri athugasemd nr. 26 er einnig lögð áhersla á að stjórnvöld framkvæmi mat á áhrifum á börn þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa bein eða óbein áhrif á umhverfið.
Af þessu tilefni vill umboðsmaður barna árétta að stjórnvöldum ber samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/2013, að leggja sérstakt mat á áhrif ákvarðana á börn. Mat á áhrifum á börn er liður í því að kanna hvort ákvörðun samræmist 3. gr. Barnasáttmálans, sem kveður á um að það sem börnum er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang, þegar gerðar eru ráðstafanir sem varða þau.
Hluti af slíku mati er að veita börnum tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að réttmætt tillit sé tekið til skoðana þeirra. Leiði mat á áhrifum í ljós að um neikvæð áhrif á börn er að ræða, ber stjórnvöldum skylda til þess að leita allra leiða til þess að fyrirbyggja slík áhrif, og grípa til mótvægisaðgerða í þeim tilvikum þar sem það er ekki unnt. Þannig er tryggt að ákvörðun hverju sinni samræmist 3. gr. Barnasáttmálans.
Þá ber sérstaklega að árétta að sú skylda á ekki eingöngu við um ákvarðanir sem snúa beint að börnum eins t.d. og um fyrirkomulag skóla- eða tómstundastarfs, heldur þarf einnig að leggja mat á áhrif annarra ákvarðana sem snerta börn með óbeinni hætti, eins og t.d. hvað varðar ákvarðanir sem hafa bein eða óbein áhrif á vistkerfi jarðar.
Barnvæn útgáfa af athugasemd barnaréttarnefndarinnar (á ensku)