28. október 2009

Átak gegn einelti

Umboðsmaður barna vill vekja athygli á góðu framtaki Heimilis og skóla en samtökin ætla að standa fyrir átaki gegn einelti skólaárið 2009 til 2010.

Umboðsmaður barna vill vekja athygli á góðu framtaki Heimilis og skóla en samtökin ætla að standa fyrir átaki gegn einelti skólaárið 2009 til 2010. Átakinu var formelga ýtt úr vör í gær, þriðjudaginn 27. október, með kynningu nýs fræðsluheftis fyrir foreldra um einelti. Á vef Heimilis og skóla segir:

Heftinu er ætlað að auka þekkingu á einelti og hjálpa foreldrum að öðlast betri skilningi á líðan barna sinna. Þá er verið að hanna ný veggspjöld sem send verða í alla grunnskóla landsins. Á þeim birtast þjóðþekktir Íslendingar sem allir vilja leggja sitt af mörkum svo að draga megi úr einelti og vekja athygli á þeim skelfilegu afleiðingum sem langvarandi einelti getur haft. Einnig er unnið að því að fá fyrirtæki til að styrkja átakið þannig að það verði sem öflugast.

Fjölmiðlar hafa sýnt framtaki Heimilis og skóla mikinn áhuga og því má ætla að umræða um einelti verði áberandi í þjóðfélaginu næstu daga, enda ekki vanþörf á þar sem um fimm þúsund grunnskólabörn eru lögð í einelti á hverju ári hér á landi. Rannsóknir sýna að líkur eru á að einelti aukist í kjölfar kreppu og bágs efnahagsástands.

Einelti er ofbeldi sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þeir sem verða fyrir einelti í barnæsku bera þess merki sumir hverjir alla ævi. Nauðsynlegt er, sér í lagi á tímum sem þessum, að skerpa á umræðu um einelti í þjóðfélaginu og brýna fyrir foreldrum og öðrum sem koma að uppeldi barna að vera vel á verði.

Hér er hægt að skoða nýja fræðsluheftið nánar. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica