Ársskýrsla 2019 komin út á rafrænu formi
Umboðsmaður barna átti fund með forsætisráðherra og kynnti fyrir henni skýrslu embættisins fyrir árið 2019.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna átti fund með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra í dag þar sem umboðsmaður kynnti fyrir ráðherra skýrslu embættisins fyrir árið 2019 en samkvæmt lögum nr. 83/1994, ber umboðsmanni að veita forsætisráðherra árlega skýrslu um starfsemi embættisins. Skýrslan var birt á vef embættisins í lok ágúst s.l. Hingað til hefur ársskýrslan verið gefin út á prenti í samræmi við lög um embættið en með breytingu á þeim sem samþykktar voru í lok árs 2018 er skýrslan nú eingöngu birt rafrænt. Vonast er til að með því verði skýrslan aðgengilegri og ekki síst börnum.
Á síðasta ári fór embættið í viðamikla stefnumótunarvinnu með það fyrir augum að styrkja sýn embættisins og frumkvæði þess á öllum sviðum. Jafnframt fékk embættið auknar fjárveitingar sem hefur gefið því aukinn slagkraft. Ársskýrslan skiptist í sex kafla sem endurspegla áherslur umboðsmanns barna til næstu ára en þær eru innleiðing og fræðsla um Barnasáttmálann; þátttaka barna og fjölbreytt samráð við börn; framsækni þar sem leitað er eftir markvissu samstarfi við innlenda og erlenda aðila. Sérstakur kafli er um fyrsta barnaþingið sem haldið var í Hörpu í nóvember sem var án efa hápunktur ársins 2019.
Það er ánægjulegt að kynna fyrir forsætisráðherra hvernig breytingar á lögum embættisins og auknar fjárveitingar hafa gefið okkur sem þar starfa aukinn slagkraft sem ég er sannfærð um að muni skipta miklu máli fyrir börn í landinu.
Ársskýrsla umboðsmanns barna 2019