20. nóvember 2018

Alþjóðadagur barna

Í dag, 20. nóvember er alþjóðadagur barna sem var fagnað með ýmsum hætti.

Alþjóðadagur barna er 20. nóvember ár en þann dag árið 1989 var Barnasáttmálinn samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Sáttmálinn var fullgiltur á Íslandi árið 1993 og að lokum lögfestur á þann 20. febrúar 2013 með lögum nr. 19/2013. 

Deginum var fagnað með margvíslegum hætti. Í Laugarnesskóla og Landakotsskóla fór fram barnaþing þar sem börn ræddu margvísleg málefni sem varða þau beint. Starfsfólk umboðsmanns barna fylgdist með umræðum í Laugarnesskóla og þar voru umhverfismál nokkuð áberandi sem og réttindi barna almennt. 

Í Þróttaraheimilinu og Framheimilinu fór einnig fram barnaþing fyrir nemendur í 6. bekk. Yfirskrift þess þings var "Hvaða áhrif hefur tæknin á líf mitt" og er liður í forvörnum og heilsueflingu nemenda í 6. bekk.

Þessum viðburðaríka degi lauk með viðurkenningu Barnaheilla þar sem samtökunum '78 var veitt viðurkenning að þessu sinni. Samkvæmt frétt á vefsíðu Barnaheilla - save the children á Íslandi hlutu Samtökin '78  viðurkenningu fyrir fræðslu, félagsstarf og ráðgjöf um hinsegin málefni sem er sérstaklega sniðin að börnum og ungu fólki og fjölskyldum þeirra. 

Í tilefni dagsins ritaði Salvör Nordal, umboðsmaður barna tvær greinar sem birtar voru í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Hér er hægt að lesa grein Salvarar "Staða barna í íslensku samfélagi" sem birtist í Fréttablaðinu.  Greinin sem birtist í Morgunblaðinu er hægt að lesa í heild sinni hér fyrir neðan. 

Lýðræðisleg þátttaka og barnaþing

Grein eftir Salvöru Nordal

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um umboðsmann barna. Þar er gert ráð fyrir að lögfesta það sem kallað er þing um málefni barna – barnaþing – sem halda skal annað hvert ár. Umboðsmanni barna er ætlað skipuleggja þingið og leggja í upphafi þess fram skýrslu um stöðu barna í íslensku samfélagi. Á þinginu verður jafnframt farið yfir stöðu innleiðingar Barnasáttmálans hér á landi. Til þingsins skal bjóða fjölbreyttum hópi barna, alþingismönnum, fulltrúum stofnana ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna.

Ráðgert er að fyrsta barnaþingið af þessu tagi verði haldið í kringum alþjóðadag barna að ári sem er vel við hæfi enda verða þá liðin 30 ár frá því að Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Barnasáttmálinn var síðan fullgiltur hér á landi nokkrum árum síðar og loks lögfestur árið 2013.

Barnaþing sækir fyrirmynd sína að nokkru til jafnréttisþings og er gert ráð fyrir að á þinginu verði börn í lykilhlutverki en í greinargerð frumvarpsins kemur fram að gert sé ráð fyrir virkri þátttöku barna í skipulagningu þingsins og framkvæmd þess og að börn verði jafnframt meðal gesta og mælenda þingsins. Í 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er lögð áhersla á virka þátttöku barna í ákvarðanatöku um öll mál sem þau varðar og að tillit sé tekið til skoðana þeirra. Barnaþingið er nýstárlegur vettvangur fyrir þátttöku barna þar sem farið verður yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins og þar mun eiga sér stað samræða við börn um málefni sem snerta þau. Niðurstöður þingsins og tillögur til úrbóta verða síðan kynntar ríkisstjórn, hlutaðeigandi ráðherrum og öðrum sem vinna með börnum og að málefnum þeirra.

Embætti umboðsmanns barna hefur þegar hafið undirbúning að barnaþinginu og vonast til að eiga víðtækt samstarf um skipulagningu og framkvæmd þess. Ráðgert er að barnaþingið að ári verði haldið í Reykjavík en jafnframt verði allir sem vinna með börnum hvattir til að huga að málefnum þeirra og leiðum til að virkja þau til þátttöku. Þannig má hugsa sér að skólar landsins, frístundaheimili, leikskólar og sveitarfélög haldi samskonar þing á sama tíma. Með þeim hætti væru börn virkjuð til lýðræðislegrar þátttöku í samfélaginu í anda Barnasáttmálans og aðalnámskrár grunnskóla.

Fjölmargir skólar um land allt hafa á síðustu árum unnið með margvíslegum hætti að því að auka þátttöku barna í skólastarfinu. Umboðsmaður barna hefur á þessu ári verið í samstarfi við tvo skóla í Reykjavík þar sem tilraunir hafa verið gerðar með barnaþing, í samvinnu við UNICEF á Íslandi. Síðastliðið vor hélt Landakotsskóli þing meðal nemenda 5. og 7. bekkjar þar sem rædd voru málefni sem tengjast námsaðferðum og viðhorfum barna til skólans. Áður en þingið var haldið fengu nemendur fræðslu um hlutverk umboðsmanns barna, réttindi barna og Barnasáttmálann. Síðan sáu ungmenni úr ráðgjafarhópi umboðmanns barna um að þjálfa elstu nemendur í fundarstjórn en eldri nemendur höfðu það hlutverk að stýra umræðum í anda þjóðfundar hjá yngri nemendum. Landakotsskóli ætlar að endurtaka leikinn í dag á alþjóðadegi barna, 20. nóvember. Sams konar fyrirkomulag hefur verið viðhaft í Laugarnesskóla þar sem 6. bekkur hefur fengið þjálfun í að stýra umræðum yngri nemenda á barnaþingi sem haldið er í dag. Þá er umboðsmanni kunnugt um að í dag verði einnig haldið þing með nemendum í 6. bekk í Þróttar- og Framheimilunum sem er samstarfsverkefni fjölmargra í Laugardals-, Háaleitis- og Bústaðahverfi. Hér er um mikilvægar tilraunir að ræða til að virkja börn til þátttöku og skipulags, auka vitund þeirra um réttindi sín, þjálfa þau í að taka þátt í lýðræðislegri umræðu og rökræða mál sem á þeim brenna í anda Barnasáttmálans.

Það er von umboðsmanns barna að samstarf skapist um barnaþing að ári meðal allra þeirra sem vinna með börnum eða að hagsmunum þeirra alls staðar á landinu. Mikilvægt er að skólar landsins og sveitarfélög taki höndum saman um að halda lýðræðisþing í tilefni af þrjátíu ára afmæli Barnasáttmálans og geri það að reglubundnum viðburði í kringum alþjóðadag barna í framtíðinni. Þær tilraunir sem þegar hafa verið nefndar benda ótvírætt til að árangursríkt sé að skipuleggja slík þing í náinni samvinnu við börnin sjálf, bæði hvað varðar fundarefni og framkvæmd. Með því að vinna saman að þessum markmiðum getur barnaþingið orðið raunveruleg hvatning og vettvangur fyrir málefni barna. Með því móti fáum við ómetanlegt tækifæri til að hlusta á skoðanir barna, gefum þeim tækifæri til að hafa áhrif á umhverfi sitt og stuðlum að því að upp vaxi kynslóð sem hefur fengið mikilvægan undirbúning fyrir frekari þátttöku í lýðræðissamfélagi.


 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica