24. apríl 2020

Áhrif kórónuveirunnar á líf barna

Óskað er eftir frásögnum barna um líðan þeirra, sýn og reynslu af því að vera barn á þessum tímum en kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á daglegt líf barna, svo sem skólagöngu, tómstundir og aðstæður þeirra heima fyrir.

Í starfi umboðsmanns barna er skýr áhersla lögð á 12. gr. Barnasáttmálans, og unnið að því markmiði að við mótun stefnu og töku ákvarðana sem varða börn verði ávallt leitað eftir og tekið tillit til sjónarmiða þeirra, enda búa börn yfir einstakri reynslu og þekkingu sem og innsýn í málefni og reynsluheim barna.

Við lifum á sögulegum tímum þar sem ýmsar samfélagslegar breytingar hafa orðið í kjölfar þess faraldurs sem nú stendur yfir. Umboðsmaður barna vill gjarnan heyra frá börnum og fá þeirra sýn og reynslu af því að vera barn á þessum tímum.

Í samstarfi við KrakkaRÚV vinnur umboðsmaður barna að nýju verkefni undir heitinu „Áhrif kórónuveirunnar á líf barna“. Tilgangur þess er að safna saman frásögnum barna um líðan þeirra og reynslu af þeim breytingum sem kórónufaraldurinn hefur haft á daglegt líf svo sem skólagöngu barna, þátttöku í tómstundum og aðstæður þeirra heima fyrir. Þannig sköpum við mikilvæga samtímaheimild um leiðir barna til að takast á við samfélags áhrif heimsfaraldurs og áður óþekktar aðstæður.

Frásagnirnar geta verið af ýmsum toga og á þann máta sem hentar hverjum og einum. Senda má inn myndbönd, ljóð, ritaðar hugleiðingar, hljóðbrot, hlaðvörp, teikningar, viðtöl o.s.frv. Tekið er við efni á netfanginu barn@barn.is. Við birtingu frásagnanna verður hugað að persónuvernd og engar persónugreinanlegar upplýsingar verða birtar né upplýsingar sem hægt er að rekja til einstakra barna.

Veturinn 2009 – 2010 stóð umboðsmaður barna fyrir sambærilegu verkefni sem bar heitið „Hvernig er að vera barn á Íslandi?“. Þá bárust umboðsmanni barna rúmlega þúsund teikningar og frásagnir barna sem voru að alast upp á tímum efnahagsþrenginga og kom hluti þeirra út í bók í tilefni 20 ára afmælis Barnasáttmálans. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica