Áfengisauglýsingar á golfmótum þar sem ungmennum er leyfð þátttaka
Embættið fékk ábendingu um auglýsingar á móti sem haldið var á vegum Golfsambands Íslands í lok maí, en ungmenni geta unnið sér inn þátttökurétt í því móti. Í kjölfarið sendi umboðsmaður barna bréf til sambandsins þar sem skorað var á þau að hafa hagsmuni barna ávallt í fyrirrúmi og virða réttindi þeirra með því að koma í veg fyrir að samskonar auglýsingar séu á mótum þar sem börnum eða ungmennum er heimili þátttaka.
Afrit af bréfinu var að auki sent á ÍSÍ - Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ölgerðina.
Reykjavík 1. júlí 2019
Efni: Áfengisauglýsingar á golfmótum þar sem ungmennum er leyfð þátttaka
Umboðsmanni barna hefur borist ábending er varðar umgjörð Egils Gull – mótsins sem haldið var á vegum Golfsambands Íslands í lok maí sl. Mótið er fyrir fullorðna og styrkt af Ölgerðinni, sem framleiðir m.a. Egils Gull, bjór og léttbjór, en börn og ungmenni gátu unnið sér inn þátttökurétt.
Í auglýsingum á mótinu mátti víða sjá Egils Gull fána á lofti en forseti Golfsambands Íslands, Haukur Örn Birgisson, tók fram í viðtali við Fréttablaðið þann 1. júní sl. að Golfsambandið og Ölgerðin hefði fylgt öllum þeim lögum og reglum sem gilda um áfengisauglýsingar á Íslandi.
Í áfengislögum nr. 75/1998 er að finna bann við áfengisauglýsingum. Slíkt bann hefur forvarnagildi og er ætlað að draga úr áfengisneyslu þar sem auglýsingar almennt hafa þann tilgang að hvetja til neyslu á vöru og stuðla að jákvæðu viðhorfi til hennar. Þá er mikilvægt að hafa í huga að börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þau en aðra. Þá benda rannsóknir til þess að áfengisauglýsingar geti haft áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðlað að aukinni neyslu unglinga á áfengi. Af þessum ástæðum er börnum fyrir bestu að slíkar auglýsingar séu ekki í umhverfi þeirra.
Að mati umboðsmanns barna er ekki viðeigandi að auglýsingar eða heiti á móti þar sem börnum er leyfð þátttaka vísi með einhverjum hætti til áfengis. Þegar kemur að málefnum barna og ungmenna verður að vanda vel til verka og hafa í huga sérstaka stöðu þeirra í samfélaginu.
Umboðsmaður barna skorar á Golfsamband Íslands að hafa hagsmuni barna ávallt í fyrirrúmi og virða réttindi þeirra með því að koma í veg fyrir að samskonar auglýsingar séu á mótum þar sem börnum eða ungmennum er heimili þátttaka.
Virðingarfyllst,
Salvör Nordal,
umboðsmaður barna
Afrit sent:
ÍSÍ - Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland
Ölgerðin Egill Skallagrímsson