21. júní 2007

Aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna

Umboðsmaður barna, Ingibjörg Rafnar, fór í dag á fund félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, til að ræða ýmis málefni barna og barnafjölskyldna.

Umboðsmaður barna, Ingibjörg Rafnar, fór í dag á fund félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, til að ræða ýmis málefni er varða börn og barnafjölskyldur.

Meðal umræðuefna var tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna sem ráðherra lagði fram á Alþingi á nýafstöðnu sumarþingi. Aðgerðaráætlunin var samþykkt óbreytt á Alþingi hinn 13. júní sl. með 47 samhljóða atkvæðum.

Meginatriði aðgerðaráætlunarinnar eru eftirfarandi:

  • Á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga skulu mótaðar tillögur til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Gert er ráð fyrir að tillögurnar varði meðal annars styttri og sveigjanlegri vinnutíma og hvernig tryggja megi að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum vegna veikinda eða fötlunar.
  • Fæðingarorlof verði lengt í áföngum á kjörtímabilinu.
  • Afkoma barnafjölskyldna verður bætt, meðal annars með því að barnabætur til tekjulágra fjölskyldna verði hækkaðar; tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna; nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum; stefnt verði að því, í samvinnu við frjáls félagasamtök og sveitarfélög, að bæta aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra er búa við veikar fjárhagslegar aðstæður.
  • Sérstaklega verður hugað að stuðningi við börn innflytjenda í skólakerfinu. 
  • Aukinn verði stuðningur við langveik börn, börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik. 
  • Það verður forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar samkvæmt aðgerðaáætluninni að vinna á biðlistum barna og ungmenna sem bíða eftir greiningu hjá barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þegar í stað verður gripið til aðgerða til að vinna á biðlistum á því sviði. 
  • Fjölbreytni í meðferðarúrræðum fyrir börn með hegðunar- og vímuefnavanda verða aukin með því að koma á fót meðferð utan stofnana, á vettvangi fjölskyldunnar og nánasta umhverfi barnsins.
  • Unnið skal að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni óháð búsetu.
  • Áhersla verður lögð á víðtækar forvarnir, svo sem heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu, meðal annars með því að auka hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna.
  • Forvarnastarf gegn kynferðislegu ofbeldi verði eflt og veittur verði stuðningur við fjölskyldur ungmenna sem eiga í vanda vegna vímuefnaneyslu.
  • Skipuð verður nefnd er fjalli um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra.
Í nefndaráliti félagsmálanefndar er hvatt til þess að húsnæðisvandi fátækra barnafjölskyldna verið skoðaður sérstaklega.
 
Skipaður verður samráðshópur fulltrúa ráðherra félagsmála, heilbrigðis- og tryggingamála, dóms- og kirkjumála, fjármála og menntamála til að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerðaáætlunarinnar undir forystu félagsmálaráðuneytisins.
 
Umboðsmaður fagnar samþykkt aðgerðaáætlunarinnar og bindur miklar vonir við að hún  nái fram að ganga á næstu fjórum árum. Einkar ánægjulegt er hversu breið samstaða náðist um þingsályktunartillögu félagsmálaráðherra á Alþingi.
 
 
 
 
 
 

Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica