Aðgangur að upplýsingum og rafræn skilríki
Umboðsmaður barna hefur fengið fjölda erinda vegna aðgangs að upplýsingum um börn sem ekki eru með skráða forsjá í Þjóðskrá Íslands.
Þetta hefur m.a. haft þær afleiðingar að fósturforeldrar geta ekki nálgast gögn hjá opinberum stofnunum um fósturbörn sín og ákveðinn hópur barna getur ekki fengið rafræn skilríki. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá er þessi staða tilkomin vegna reglugerðar um skráningu einstaklinga nr. 565/2021 sem var birt í maí 2021. Með reglugerðinni fékk Þjóðskrá heimild til að miðla upplýsingum um forsjá sbr. 18. gr. með því að tengja börn við forsjáraðila en áður var notast við lögheimilistengsl eða fjölskyldunúmar. Miðlun Þjóðskrár á forsjárupplýsingum til stofnanna og annarra ytri aðila hófst þann 8. apríl 2022 og hefur sú staða sem hér er lýst því varað í meira en tvö ár.
Þau tilvik sem hér um ræðir geta varðað börn flóttafólks, börn sem barnaverndarþjónustur fara með umsjá eða hafa forsjá með og börn sem fædd eru erlendis og/eða hafa verið skráð með lögheimili erlendis og hafa ekki skilað inn forsjárgögnum frá fyrra búsetulandi.
Það að hafa ekki aðgang að upplýsingum í rafrænum kerfum hefur víðtæk áhrif á réttindi þeirra barna sem hér eiga í hlut og getur komið í veg fyrir að þau njóti sömu réttinda og önnur börn m.a. hvað varðar heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Þá getur þetta komið í veg fyrir að fósturforeldrar geti sinnt umönnunarskyldum sínum gagnvart fósturbörnum þar sem þeir hafa ekki lengur aðgang að nauðsynlegum kerfum hvað varðar fósturbörn, t.a.m. Heilsuveru, Sjúkratryggingum og upplýsingum frá skólum. Það hefur einnig mikil áhrif að geta ekki fengið rafræn skilríki en krafa er gerð um þau m.a. í mörgum menntaskólum og ökuskólum. Þá getur barn sem er í fóstri og hefur náð 16 ára aldri og er þess vegna sjálfstæður þjónustuþegi heilbrigðiskerfisins ekki fengið aðgang að heilsuveru. Hér þarf að hafa í huga að um er að ræða sérstaklega viðkvæman hóp barna.
Tímabundinni lausn hefur verið komið á sem nær til barna á aldrinum 13-18 ára sem eru í fóstri hjá fósturforeldrum. Það eru þá börnin sjálf sem hafa aðgang að kerfum með rafrænum skilríkjum en fósturforeldrar þessara barna fá ekki slíkan aðgang líkt og forsjárforeldrar almennt hafa. Mál barna sem eru ekki á þessum aldri eða eru vistuð annars staðar en hjá fósturforeldrum eru með öllu óleyst.
Umboðsmaður barna hefur allt frá árinu 2023 haft áhyggjur af þeirri stöðu sem hér er lýst og ítrekað óskað eftir upplýsingum um framgang málsins hjá Barna- og fjölskyldustofu. Í þeim samskiptum var það skilningur embættisins að unnið væri hörðum höndum að lausn, sem væri í augsýn. Eftir fund með innviðaráðuneytinu 27. júní sl. þykir umboðsmanni barna nú ljóst að engin lausn sé í sjónmáli. Það er mat umboðsmanns að óboðlegar tafir hafi orðið á því að leysa þetta mál og að með þessu sé stjórnvöld að brjóta gegn réttindum barnanna samkvæmt 2. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að stjórnvöldum beri að virða og tryggja öllum börnum þau réttindi sem kveðið er á um í Barnasáttmálanum án mismununar af nokkru tagi og án tillits til nánar tilgreindra þátta, þ. á m. félagslegrar stöðu og annarra aðstæðna barns eða foreldris þess. Það er með öllu ótækt að þessi staða haldist óbreytt og beinir umboðsmaður barna því til stjórnvalda að grípa tafarlaust til aðgerða til þess að finna fullnægjandi lausn sem tryggir réttindi þessara barna.