3. júlí 2012

Aðfarargerðir á börnum

Umboðsmanni barna barst mikill fjöldi erinda síðastliðna helgi vegna aðfarargerðar á börnum sem var framkvæmd föstudaginn 29. júní sl. Að því tilefni vekur umboðsmaður barna athygli á tölvupósti sem hann sendi fyrir helgi til sýslumannsembættisins í Kópavogi þar sem aðfarargerðin fór fram.

Umboðsmanni barna barst mikill fjöldi erinda síðastliðna helgi vegna aðfarargerðar á börnum sem var framkvæmd föstudaginn 29. júní sl. Að því tilefni vekur umboðsmaður barna athygli á tölvupósti sem hann sendi fyrir helgi til sýslumannsembættisins í Kópavogi þar sem aðfarargerðin fór fram. Í bréfi umboðsmanns barna bendir hann á inntak Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem íslenska ríkið hefur fullgilt. Samkvæmt 3. gr. eiga allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn að vera byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Mikilvægt er að allur vafi sé metinn viðkomandi barni/börnum í hag. Samkvæmt 12. gr. eiga börn rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi. Auk þess benti umboðsmaður barna á að hann hefur haft verulegar áhyggjur af aðfarargerðum og áhrifum þeirra á börn. Fyrir rúmum tveimur árum sendi umboðsmaður þáverandi dómsmála- og mannréttindamálaráðherra bréf um verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerða á börnum, sjá hér

Eins og kom fram í bréfi umboðsmanns hefur hann haft áhyggjur af aðfarargerðum og áhrifum þeirra á börn. Umboðsmanni barna bárust athugasemdir um framkvæmd aðfarargerða á börnum í lok sumars 2009. Ábendingarnar lutu að því að ekki væri nægilega vel hugað að hagsmunum barna við slíkar gerðir. Í framhaldinu ákvað umboðsmaður barna að gera heildarúttekt á beitingu úrræðisins frá gildistöku barnalaga nr. 76/2003 og kanna hvernig framkvæmd slíkra gerða er háttað. Í september 2009 óskaði umboðsmaður barna eftir upplýsingum og gögnum um aðfarargerðir á börnum frá sýslumannsembættum landsins, barnaverndarnefndum sem og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Athugun umboðsmanns barna leiddi í ljós að aðfarargerðir á börnum eru afar fátíðar. Hins vegar fara þær fram og í þeim tilvikum er um að ræða umtalsvert inngrip í líf barna sem hefur mikil áhrif á þau. Verulega skortir á að slíkar gerðir hafi verið nægilega vandaðar og að þeir aðilar sem komu að framkvæmd þeirra væru meðvitaðir um hlutverk sitt. Eru jafnvel dæmi um að barn hafi þurft á aðstoð að halda vegna álags sem fylgir slíkri aðgerð.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um umboðsmann barna nr. 83/1994 tekur umboðsmaður barna ekki til meðferðar ágreining milli einstaklinga en ber að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál. Er umboðsmanni því ekki heimilt að aðhafast í því máli sem um ræðir. Hins vegar mun umboðsmaður barna skoða allar ábendingar sem honum bárust og kanna á hvern hátt hann getur brugðist við.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica