Að tala við foreldra eða aðra fullorðna um það sem skiptir máli
Að tala við foreldra eða aðra fullorðna um það sem skiptir máli
Umboðsmaður barna fær mörg skilaboð frá börnum og unglingum sem vilja vita hvernig á að tala við foreldra, kennara eða aðra fullorðna um hluti sem skipta börn og unglinga máli. Hér fyrir neðan eru nokkur ráð til þín sem geta auðveldað þér að eiga slík samtöl.
Það er fullorðið fólk sem bjó til þessar leiðbeiningar og ef þú veist hvernig hægt er að bæta þær þá viljum við endilega fá að heyra frá þér. Þú getur sent okkur tölvupóst á ub@barn.is eða hringt í okkur í gjaldfrjálsa símanúmerið 800-5999.
Ráð 1: Undirbúðu þig vel
- Hugsaðu um það sem þú vilt segja og hvað þú vilt fá út úr samtalinu.
- Æfðu þig í að segja þær setningar sem þú vilt byrja samtalið á.
- Hugsaðu um það hvernig þú heldur að hinn fullorðni eigi eftir að bregðast við og hverju þú vilt síðan svara.
- Ef samtalið gengur ekki eins og þú varst að vona, eða hinn fullorðni bregst illa við, er ágætt að vera búin/n að hugsa um það hvernig þú ætlar að enda samtalið.
- Það er enginn tilgangur í að halda áfram samtali sem endar líklega með rifrildi eða því að hinn fullorðni fari í vörn.
Ráð 2: Taktu ákvörðun um hvar og hvenær þú vilt eiga samtalið
- Reyndu að velja góðan tíma, þegar andrúmsloftið er gott og allir í jafnvægi. Þá eru meiri líkur á því að hinn fullorðni sé jákvæður og tilbúinn að hlusta á þig.
- Sjáðu til þess að þú og hinn fullorðni hafið nægan tíma fyrir samtalið. Það getur verið erfitt að eiga samtal ef hinn fullorðni hefur lítinn tíma og er kannski á leiðinni út eða þarf að sinna einhverju öðru.
- Lengri bíltúr býður upp á möguleika á góðu spjalli. Þá er líka hægt að spjalla saman án þess að horfast í augu sem sumum finnst auðveldara. Það sama á við um göngutúra.
Ráð 3: Hafðu einhvern með þér sem getur stutt þig ef þér finnst þú þurfa á því að halda
- Ef þér finnst tilhugsunin um samtal við þann fullorðna erfið, biddu einhvern sem þú treystir, eins og t.d. vin, vinkonu eða ættingja um að vera með þér.
Ráð 4: Vertu búin að ákveða hvað þú ætlar að segja og hvernig
- Reyndu að segja hlutina á eins einfaldan og skýran hátt og hægt er. Það er góð leið að byrja á því að segja til dæmis „Ég vil“ eða „Mér finnst“ eða „Það væri best fyrir mig“ eða „Mér finnst erfitt þegar“.
- Setningar sem byrja á „Þú“ geta orðið til þess að hinn fullorðni fer í vörn og samtalið verður erfitt. Ekki byrja á því að segja til dæmis: „Þú ert alltaf að“ eða „Þú ert svo ströng/strangur“ eða „Þú skilur ekkert“.
- Stundum er gagnlegt að segja eitthvað í líkingu við þetta: „Ég veit að við misskiljum stundum hvora aðra/hvorn annan/hvort annað, og verðum pirruð út í hvora aðra/hvorn annan/hvort annað. En það er mikilvægt að þú hlustir/þið hlustið á það sem ég er að segja. Sýndu/sýnið mér að þú sért/þið séuð að hlusta á mig jafnvel þó svo að þú sért/þið séuð ekki sammála mér. Ég skal líka vanda mig við að hlusta á það sem þú segir/þið segið áður en ég svara þér/ykkur.
Ráð 5: Vertu búin/n að hugsa um það fyrirfram hvernig þú vilt enda samtalið
- Hugsaðu um það sem þú getur ætlar að gera eftir samtalið.
- Ef þér finnst samtalið ekki ganga vel getur verið gott að enda það áður en úr því verður rifrildi. Þú getur alltaf haldið samtalinu áfram seinna. Þú getur til dæmis sagt: „Ég ætla að fara að læra, við getum kannski talað betur um þetta seinna“.
Þessar leiðbeiningar eru samdar af starfsfólki umboðsmanns barna í Noregi og birtust fyrst hér -https://barneombudet.no/trenger-du-hjelp/den-vanskelige-samtalen-med-en-voksen/