5. september 2014

Ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks - Yfirlýsing umboðsmanna barna á Norðurlöndum

Börn sem búa við ofbeldi og vanrækslu verða að geta treyst því að skólahjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólks sem annast börn hafi getu til að sjá vandamálið og bregðast við því. Stjórnvöld eiga að sjá til þess að tilkynningarskylda til barnaverndar sé virt í framkvæmd.

LaeknirÁbyrgð heilbrigðisstarfsfólks á börnum sem eru beitt ofbeldi

Sameiginleg yfirlýsing frá umboðsmönnum barna á Norðurlöndum, gefin út í Stokkhólmi 5. september 2014

Á Norðurlöndunum deyr um tugur barna á hverju ári vegna heimilisofbeldis og fleiri börn hljóta langvarandi skaða. Þá eru þúsundir barna þolendur grófs og endurtekins ofbeldis. Rannsóknir hafa sýnt að eitt af hverjum sjö börnum hefur verið beitt líkamlegu ofbeldi af foreldrum eða einhverjum öðrum fullorðnum á heimilinu. Umboðsmenn barna á Norðurlöndum vilja vekja athygli heilbrigðisstarfsfólks á því að ofbeldi er eitt af alvarlegustu ógnum við líf, heilsu og þroska barna í löndum okkar.

Dagana 4. og 5. september hittust norrænir hjúkrunarfræðingar á ráðstefnu í Stokkhólmi til að fræðast og ræða um efnið  „hlustið á börnin.“ Ráðstefnan var skipulögð af NoSB –(norrænt samstarf hjúkrunarfræðinga sem vinna með börnum).

Hjúkrunarfræðingar sem vinna með börnum í skólaheilsugæslunni, á heilsugæslustöðvum eða öðrum heilbrigðisstofnunum hitta reglulega börn sem glíma við vandamál sem beint eða óbeint tengjast ofbeldi sem þau hafa orðið fyrir. Fagfólk þarf að hafa þekkingu á birtingarmyndum ofbeldis á börnum og afleiðingum þess til að skilja orsakir erfiðleika barnanna. Til að uppgötva ofbeldi eða vanrækslu gegn börnum þarf heilbrigðisstarfsfólk að geta komið til móts við börn og  hlustað á þau auk þess sem spurningar um ofbeldi og vanrækslu þurfa að vera hluti af verklagi. Ófullnægjandi þekking heilbrigðisstarfsfólks og óljóst verklag og málsmeðferð getur þýtt að það uppgötvist ekki að barn búi við heimilisofbeldi.

Norðurlöndin hafa skuldbundið sig til að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Samkvæmt 19. grein sáttmálans eru ríkin skyldug til að „gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun ...“

Barnasáttmálinn er skuldbindandi. Börn sem búa við ofbeldi og vanrækslu verða að geta treyst því að skólahjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólks sem annast börn hafi getu til að sjá vandamálið og bregðast við því.

Heilbrigðisstarfsfólki ber að tilkynna barnavernd ef uppi er grunur um að barn búi við ofbeldi eða vanrækslu. Reynsla Norðurlandaþjóða bendir þó til þess að allt of fáar tilkynningar berast frá þeim geira. Stjórnendur heilbrigðisstofnana verða að tryggja að starfsfólk þekki hvaða verklag gildir ef grunur leikur á að barni líði illa. Kennsla á þessu sviði þarf að vera skylda í námi og þjálfun hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks. Umboðsmenn barna á Norðurlöndum hvetja til þess að í Danmörku, Finnlandi, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð verði skerpt á tilkynningarskyldu heilbrigðisstarfsfólks í verklagsreglum um meðferð mála þar sem grunur er um ofbeldi gegn barni. Stjórnvöld eiga að sjá til þess að tilkynningarskylda til barnaverndar sé virt í framkvæmd.

Mikilvægt er að á landsvísu séu til upplýsingar um fjölda tilkynninga vegna ofbeldis gegn börnum og þær aðgerðir sem fylgja. Skólaheilsugæslan og aðrar stofnanir heilbrigðiskerfisins verða að halda utan um tölur um fjölda mála sem varða grun um ofbeldi gegn börnum.

Með þessari sameiginlegu yfirlýsingu vilja umboðsmenn barna á Norðurlöndum hvetja yfirvöld í löndum sínum til að tryggja og skerpa á mikilvægu hlutverki heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir börnum þegar kemur að forvörnum gegn ofbeldi og aðgerðum til að bregðast við því.

Aaja Chemnitz Larsen, Grænlandi, Tuomas Kurttila, Finnlandi, Per Larsen, Danmörku, Anne Lindboe, Noregi, Fredrik Malmberg, Svíþjóð og Margre?t Mari?a Sigurðardo?ttir, Íslandi

Hér er yfirlýsingin á sænsku.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica