16. mars 2020

Embættið á Fljótsdalshéraði

Embætti umboðsmanns barna flutti skrifstofu sína tímabundið til Egilsstaða vikuna 9. – 13 mars sl. Markmið þess var að hitta þá sem starfa að málefnum barna í Fljótsdalshéraði og heimsækja skóla á svæðinu. 

 

Dagskrá vikunnar var skipulögð af Helgu Guðmundsdóttur, fræðslustjóra Fljótsdalshéraðs sem sá einnig um samskipti við skólastjórnendur og aðra fulltrúa sveitarfélagsins. Einnig nutum við leiðsagnar Júlíu Sæmundsdóttur, félagsmálastjóra og kunnum við þeim báðum bestu þakkir fyrir. Skrifstofan var með aðsetur í Blómabæjarhúsinu (Samfélagssmiðjunni) þessa viku við góðar aðstæður.

Grunnskólar

Starfsfólk embættisins heimsótti fjóra grunnskóla meðan á dvöl þeirra stóð. Þessir skólar voru Egilsstaðaskóli, Fellaskóli í Fellabæ, Seyðisfjarðaskóli og Djúpavogskóli. Móttökur allra voru stórkostlegar og gaman að sjá það góða starf sem þar fer fram. Ekki var einungis rætt við skólastjórnendur því í öllum tilvikum áttum við gott spjall við nemendur um þeirra réttindi, embættið og málefni sem á þeim brenna. Tómstundir voru ofarlega á blaði í þeim samtölum og sérstaklega sá mikli kostnaður sem fjölskyldur þurfa oft að leggja í til dæmis varðandi ferðir á hvers konar íþróttamót sem oft eru haldin á sunnanverðu landinu.

Þar sem því var viðkomið ræddi umboðsmaður við nokkra bekki og þar á meðal alla nemendur í Djúpavogsskóla. Nemendum var bent á fjölmargar leiðir til að hafa samband við umboðsmann barna en börn njóta alltaf forgangs þegar þau senda inn erindi.

Til stóð að heimsækja alla grunnskóla á Fljótsdalshéraði en vegna færðar og veðurs urðu skólinn á Borgarfirði Eystra og Brúarárskóli að bíða betri tíma á þessu ári.

Þess má geta að fimm börn frá Fljótsdalshéraði voru þátttakendur á barnaþingi í nóvember 2019, þrjú frá Egilsstöðum, eitt frá Seyðisfirði og eitt frá Djúpavogi. Það var ánægjulegt að heyra að reynsla þeirra af barnaþingi var jákvæð og styrktu sveitarfélögin þau að einhverju leiti til þátttöku.

Leikskólar

Leiksólarnir Tjarnarskógur á Egilsstöðum, Hádegishöfði í Fellabæ, Sólvellir á Seyðisfirði og Bjarkatún á Djúpavogi voru heimsóttir í vikunni. Við kunnum öllum þeim leikskólastjórum, leikskólakennurum og öðru starfsfólki leikskólanna kærar þakkir fyrir góðar móttökur. Þrátt fyrir að húsnæði leikskólanna séu mismunandi að stærð og lögun fer þar fram gott starf sem gleðilegt var að sjá.

Tónlistaskólar

Það var afar ánægjulegt að sjá það blómlega starf í tónlistarskólum á Fjótsdalshéraði en þar stundar mikill fjöldi nemenda margvíslegt tónlistarnám að skóla loknum. Telja má að rúm 70% nemenda á Fljótsdalshéraði sé í tónlistarnámi af einhverjum toga. Tónlistaskólarnir sem heimsóttir voru eru allir með aðsetur í grunnskóla staðarins sem veitir góð tækifæri fyrir nemendur að taka þátt.

Sveitarstjórnir

Strax við komuna til Egilsstaða átti starfsfólk embættisins góðan fund með sveitarstjórninni á Fljótsdalshéraði. Á þeim fundi var farið yfir málefni barna hjá sveitarfélaginu og barst talið einnig að ungmennaráði Fljótsdalshéraðs sem hefur verið virkt í sínu starfi.

Nokkuð þungfært var á Austurlandi þá daga sem embættið var og því þurfti að haga seglum eftir vindi og meta aðstæður hverju sinni. Ákveðið var með stuttum fyrirvara að fara til Reyðarfjarðar og tókst að skipuleggja góðan fund með sveitarstjóra ásamt starfsfólki sem kemur að málefnum barna í sveitarfélaginu. Embættið átti einnig gott spjall við bæjarstjóra Seyðisfjarðakaupstaðar og hennar fólki á bæjarskrifstofunni og við sveitarstjóra Djúpavogshrepps.

Meðan á dvöl okkar stóð fræddi Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri, embættið um Austurlandslíkanið eða ALL sem er þverfaglegt samstarf félagsþjónustu, heilsugæslu og skóla á Austurlandi. ALL teymið mynda félagsráðgjafar, þroskaþjálfi, sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur en markmið teymisins er að einfalda og flýta fyrir aðstoð til nemenda og foreldra auk þess að vera stuðningur fyrir starfsfólk skóla. Teymið vinnur með börnum, foreldrum, kennurum og eftir atvikum öðrum utanaðkomandi sérfræðingum sem hafa komið að málefnum barnsins. Teymið vinnur innan skólanna og því þurfa foreldrar og börn ekki að leita á marga staði eftir aðstoð. Í þessari klippu útskýrir Júlía stuttlega hvað felst í Austurlandslíkaninu.

https://youtu.be/pgluEtznxd4

Félagsmiðstöðvar

Félagsmiðstöðin Nýung er starfandi á Egilsstöðum og fékk starfsfólkið góða kynningu frá forstöðumanni félagsmiðstöðvarinnar ásamt starfsmanni. Nýung er staðsett við hlið Egilsstaðaskóla en þegar starfsfólk embættisins bar að garði voru flestir á námskeiði í gerð hlaðvarpsþátta (podcast) sem var á vegum ungmennahússins Veghúss. Námskeiðið fór fram í Sláturhúsinu menningarsetur og var afar skemmtilegt að hitta þátttakendur og fræðast um hinar ýmsu hliðar hlaðvarpsins.

Þakkir

Við erum ákaflega þakklát fyrir það hve vel tókst til við þessa fyrstu heimsókn embættisins til Austurlands. Embættið fékk góða aðstoð frá starfsfólki Fljótsdalshéraðs og mjög kærleiksríkar móttökur. Við færum einnig sérstakar þakkir til Helgu Guðmundsdóttur, fræðslustjóra Fljótsdalshéraðs fyrir góðar móttökur og skipulagningu og Júlíu Sæmundsdóttur, félagsmálastjóra fyrir einstaklega gott utanumhald síðari hluta vikunnar og að vera okkur innanhandar við akstur og heimsóknir til Seyðisfjarðar og Djúpavogs.

Embættið vill vera í góðum tengslum við öll börn og alla þá sem starfa að málefnum barna um allt land. Í haust mun stefnan verða tekin á Ísafjörð í sömu erindagjörðum.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica