Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Raddir fatlaðra barna - félags- og barnamálaráðherra afhent skýrsla sérfræðihóps

Umboðsmaður barna hefur gefið út skýrslu með niðurstöðum sérfræðihóps fatlaðra barna og unglinga. Þar koma fram ábendingar hópsins um það sem betur má fara í málefnum fatlaðra barna og unglinga. Þær snúa meðal annars að aðgengi, ferðaþjónustu, upplýsingagjöf, tómstundastarfi, fordómum, virðingu í samskiptum, einelti og ofbeldi og er nánar lýst í skýrslunni. Tvö börn úr hópnum afhendu Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra skýrsluna í vikunni.

Síðastliðna áratugi hefur mikilvægi þess að leitað sé eftir sjónarmiðum og reynslu barna verið áréttað og bent á að börn og unglingar séu sérfræðingar í eigin lífi og hafi þekkingu og skoðanir sem brýnt er að fanga upplýsingar um. Í takt við áherslur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hefur einnig verið bent á að ekki nægi að hlusta á börn heldur þurfi að taka skoðanir þeirra og sjónarmið til greina þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Í 23. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og í 7. grein samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um rétt fatlaðra barna og mikilvægi þess að aðgengi þeirra að samfélagsþátttöku sé tryggt til jafns við ófatlaða jafnaldra þeirra. Engu að síður hafa rannsakendur innan fötlunarfræða bent á að hingað til hafi lítið verið leitað eftir sjónarmiðum og reynslu fatlaðra barna. Ástæðurnar megi meðal annars rekja til þess að rannsakendur ofmeti vinnu og tíma sem þarf til að tryggja aðgengi fatlaðra barna að þátttöku í rannsóknum og viðtekinna viðhorfa sem vanmeta gæði og réttmæti þess sem fötluð börn kunna að hafa fram að færa. Af þessum sökum hefur upplýsingum um fötluð börn, reynslu þeirra og sjónarmið gjarnan verið aflað frá foreldrum þeirra en ekki þeim sjálfum.

Árið 2018 veitti félagsmálaráðherra embætti umboðsmanns styrk á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks fyrir verkefni sem fékk heitið Raddir fatlaðra barna. Leitað var samstarfs við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um framkvæmd verkefnisins. Settur var á stofn sérfræðihópur fatlaðra barna og unglinga, að sænskri fyrirmynd, með það að markmiði að skapa rými og tækifæri fyrir fötluð börn og unglinga, til að ræða málefni að eigin vali, og koma með ábendingar byggðar á eigin reynslu og skoðunum. Niðurstöður hópsins og tillögur hans eru settar fram í þessari skýrslu. Þátttakendur voru fundnir með aðstoð félagasamtaka fatlaðs fólks og annarra sem starfa í málaflokknum. Þeir voru sex talsins á aldrinum 13-17 ára. Þrír þátttakenda voru með hreyfihömlun og þrír með þroskahömlun.

Umboðsmaður barna vill koma á framfæri þökkum fyrir samstarfið til félagsmálaráðuneytisins og Félagsvísindastofnunar. Einnig vill umboðsmaður koma á framfæri sérstökum þökkum til sérfræðihópsins fyrir ómetanlegt framlag til verkefnisins.

Skýrslan "Sérfræðihópur fatlaðra barna - samantekt frá umræðum"

 

Serfraedihopur Ub Og Radherra 01

 Þátttakendur í sérfræðihópnum ásamt félags- og barnamálaráðherra og umboðsmanni barna

 

 

Serfraedihopur Ub Og Radherra 02

Við afhendingu skýrslunnar