Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Réttur barna til hvíldar, tómstunda og menningar, 31. gr. Barnasáttmálans

Réttur barna til hvíldar, tómstunda og menningar, 31. gr. BarnasáttmálansGrein aprílmánaðar fjallar um 31. gr. Barnasáttmálans sem snýr að rétti barna til hvíldar, tómstunda og menningar.

Eins og alltaf þegar einstök ákvæði Barnasáttmálans eru túlkuð ber að hafa grunnreglur Barnasáttmálans í huga, en það eru 2, 3, 6, og 12. gr.

Í heild sinni er 31. gr. Barnasáttmálans svohljóðandi:

1) Aðildarríki viðurkenna rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum. 

2) Aðildarríki skulu virða og efla rétt barns til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi, og skulu stuðla að því að viðeigandi og jöfn tækifæri séu veitt til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju. 

 

 

Verður nú nánar vikið að efnislegu inntaki greinarinnar. 

Almenn athugasemd númer 17

Almennar athugasemdir barnaréttarnefndarinnar skipta miklu máli fyrir túlkun á Barnasáttmálanum og þróun hans. Þær geta snúið að ákveðinni grein Barnasáttmálans eða verið almennar hugleiðingar nefndarinnar um tiltekin réttindi barna.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu Þjóðanna hefur gefið út almenna athugasemd númer 17 sem útfærir nánar hvað felst í 31. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013.

Þar tekur barnaréttarnefdnin sérstaklega fram að leikur og afþreying eru mikilvæg fyrir heilsu og velferð barna ásamt því að ýta undir þroska á sköpun, ímyndunarafli, sjálfstæði, sterkri sjálfsmynd sem og andlegum, félagslegum, tilfinningalegum og hugrænum hæfileikum og styrk. Leikur og afþreying getur átt sér stað bæði þegar börn eru með jafnöldrum, eru ein eða með stuðningi fullorðins. Þegar fullorðnir og börn eru að leik þarf einnig að hafa í huga að sá fullorðni þarf að sýna aðgát þannig að hann yfirtaki ekki framlag barnsins til að skipuleggja og framkvæma sínar eigin athafnir. Þá er mikilvægt að fullorðnir taki líka þátt í leikjum en þátttakan veitir þeim fullorðna innsýn og frekari skilning á sjónarhorn barnsins ásamt því að byggja upp virðingu milli kynslóða.

Börn leika sér á ýmsan hátt, svo sem endurgera, breyta og skapa menningu í gegnum þeirr aeigin hugmyndaríka leik, til dæmis með söng, dansi, sögum, teikningum. leikriti o.s.frv. Þá áréttar barnaréttarnefdnin að hvíld og tómstundir eru jafn mikilvæg fyrir þroska barns sem og hinar hefðbundnu þarfir líkt og umönnun, húsaskjól, aðgangur að heilbrigðisþjónustu og menntun.

Nánari greining á  1. mgr. 31. gr.

Réttur barns til hvíldar felur í sér að börn fái næga pásu frá vinnu, menntun eða áreynslu af öðrum toga. Þá eiga þau líka að fá tækifæri til að fá fullnægjandi svefn.

Með tómstundum er átt við þann tíma sem leikur og afþreying getur átt sér stað. Það er skilgreint sem frjáls og óskyldtengdur tími sem inniheldur ekki menntun, vinnu, skyldur heimavið o.s.frv. nánar tiltekið langur valfrjáls tími sem barnið má nota eftir eigin hentisemi.

Réttur barna til að stunda leiki felur í sér þá hegðun, athöfn eða ferli sem er hafið, stjórnað og uppbyggt af barninu eða börnunum sjálfum. Hann á sér stað hvenær og hvar sem tækifæri gefst. Umönnunaraðilar geta lagt til sköpunar á umhverfinu sem leikurinn á sér stað í.

Þá er einnig komið inn á rétt barns til að stunda skemmtanir sem hæfa aldri þess en skemmtanir er regnhlífarhugtak til að lýsa mjög víðtæku sviði athafna, þar á meðal þátttöku í tónlist, listum, föndri, samfélagsþátttöku, klúbbum, íþróttum, leikjum, fjallgöngum og útilegum, þ.e. að stunda áhugamál. 31. gr. Barnasáttmálans leggur áherslu á að skemmtanirnar séu viðeigandi fyrir aldur barnsins. Aldur barnsins þarf að vera metinn í samræmi við tímalengd skemmtunar, umhverfið sem athöfnin fer fram í og hversu mikil yfirumsjón fullorðins með barninu þarf að vera á skemmtuninni.

Börn eiga rétt til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum en barnaréttarnefndin styður það viðhorf að börn og samfélag þeirra tjá einkenni sitt í gegnum menninarlíf og listir. Aðildarríki að Barnasáttmálanum skuldbinda sig til að virða og koma í veg fyrir hindranir á aðgengi barns, vali þess og nálgun á virkni og þátttöku í menningarlífi og listum. Aðildarríki verða líka að passa að aðrir takmarki ekki þennan rétt. Ákvörðun barns um að iðka eða iðka ekki þennan rétt sinn er val barnsins sem á að vera virt og verndað.

Nánari greining á 2. mgr. 31. gr.

Réttur barna til að taka fullan þátt í menningar og listalífi felur í sér þrjú atriði sem þarf að uppfylla. Í fyrsta lagi er um að ræða aðgang.  Það felur í sér að veita eigi barni tækifæri til að upplifa menningar- og listalíf og læra um víðfermt svið þess, mismunandi form og tjáningu. Í öðru lagi þátttöku. Í því felst krafa um að raunveruleg tækifæri sé tryggð fyrir börn, bæði sem einstaklinga og sem hóp, til að tjá sig,  eiga í samskiptum, framkvæma og taka þátt í skapandi athöfnum, með hliðsjón af fullum þroska þeirra. Í þriðja lagi er um að ræða framlag til menningarlífs. Börn eiga rétt á að leggja andlegt, efnislegt, vitsmunalegt og tilfinningarlegt framlag til menningar og lista, og þannig stuðla að framþróun og umbreytingu samfélagsins sem viðkomandi tilheyrir.

Tengsl 31. gr. við aðrar meginreglur Barnasáttmálans

2. gr.- Bann við mismunun

Börn eiga rétt á að njóta hvíldar, tómstundar og menningarlífs án nokkurar mismununar.

3. gr. – Það sem er barni fyrir bestu

Öll löggjöf, stefnumótun og fjárframlög sem framkvæmd eru í tengslum við þau réttindi sem tryggð eru í 31. gr. eiga að vera miðuð út frá því sem barninu er fyrir bestu. Sem dæmi má nefna löggjöf sem snýr að vinnu barna, skólatímum, skólalöggjöf, framboði á grænum svæðum og almenningsgörðum, aðgengi og hönnun á þéttbýlislandslagi  o.s.frv.

6. gr. – Réttur til lífs og þroska

Í samhengi við 6. gr. Barnasáttmálans hvetur barnaréttarnefndin til að kannað verði allar víddir 31. gr. sem stuðlar að þroska og getu barna.

12. gr. – Réttur barns til að láta í ljós skoðanir sínar

Barnaréttarnefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að veita börnum tækifæri til að leggja sitt að mörkum til þróunar á löggjöf, stefnumótun, aðferðum og hönnun á þjónustu sem á að tryggja framkvæmd á réttinum sem felst í 31. gr. Í því framlagi gæti m.a. falist þátttaka þeirra í stefnumótun sem varðar leiki og afþreyingu, í löggjöf sem hefur áhrif á réttinn til menntunar og skólaskipulagi námsskrá eða verndarlöggjöf sem varðar barnavinnu, löggjöf og reglur sem varða almenningsgarða og aðra aðstöðu í nærumhverfi barna, Þéttbýlisskipulag og skipulag og hönnun á barnvænum samfélögum og umhverfi.

Tengsl 31. gr. við aðrar viðeigandi greinar Barnasáttmálans

13. gr. Tjáningarfrelsi er meginundirstaða réttinum til frjálsrar þátttöku í menningu og listum. Börn eiga rétt á því að tjá sig á hvaða máta sem þau velja, en tjáningarfrelsi má setja skorður samkvæmt lögum og þegar slíkt telst nauðsynlegt í þeim tilgangi að virða rétindi annarra og mannorð sem og til að vernda þjóðaröryggi, almenning og almenningsheill.

14. gr. Börn eiga almennt rétt á að velja sér vini, sem og félagsaðild að samskiptalegum, menningarlegum, íþróttafélögum og öðrum samtökum. Félagafrelsi stendur fyrir ýmsar víddir sem fram koma í 31. gr., þ.e. að börn skapi saman form að ímyndunarleik sem er mjög sjaldan framkvæmdur í samskiptum barna og fullorðinna. Þá verða börn að eiga í samskiptum við jafnaldra af báðum kynjum sem og fólk með mismunandi hæfileika,  úr mismunandi stéttum, menningu og aldri, í þeim tilgangi til að læra samvinnu, umburðarlyndi, að deila með sér og að leita lausna. Leikir og tómstundir skapa tækifæri til að mynda vinskap og geta átt lykilþátt í að styrkja borgaralegt samfélag, leggja að mörkum til félagslegs, siðferðislegs og tilfinningalegs þroska barns, í að skapa menningu og að byggja samfélög. Aðildarríki að Barnasáttmálanum eiga að sjá til þess að til staðar séu tækifæri fyrir börn að vera frjáls og til að hitta jafninga sína í samfélaginu. Þá verður einnig að virða og styðja við rétt barna til að stofna, ganga í og yfirgefa félagasamtök, ásamt rétti þeirra til friðsamlegra samkoma. Þá eiga börn aldrei að vera þvinguð til að taka þátt eða ganga í samtök.

17. gr. Börn eiga rétt á upplýsingum og efni sem er félagslega og menningarlega gagnlegt og sem endurspeglar fjölbreytileika samfélagsins, þjóðarinnar o.fl. Efnið verður að vera á tungumáli sem börnin skilja auk þess sem það verður að sjá til þess að varðveita og vernda menningarlegan fjölbreytileika og koma í veg fyrir menningarlegar staðalímyndir.

22. gr. Börn á flótta og börn hælsileitenda lenda oft í vandræðum með að ná fram rétti sínum sem verndaður er í 31. gr. Þá sér í lagi þar sem tengsl þeirra við sínar eigin hefðir og menningu hafa rofnað ásamt því að þau virðast oft vera útilokuð af ríkinu sem þau eru stödd í. Þannig verður að tryggja að börn í þessari stöðu eigi jafnan aðgang að rétti sínum samkvæmt Barnasáttmálanum. Þá verður einnig að styðja við möguleika þeirra til að halda í sínar hefðir og menningu.

23. gr. Umhverfi þarf að vera þannig úr garði gert að aðstaða og aðgengi sé fyrir börn með fatlanir þannig að þau fái einnig notið réttar síns samkvæmt 31. gr. Aðildarríki verða að tryggja að börn með fatlanir séu jafnir og virkir þátttakendur í leik og tómsundastarfi sem og menningu og listum. Dæmi um slíkt er að auka vitund meðal jafningja og fullorðinna ásamt því að veita barninu stuðning og aðstoð sem hæfir aldri þess og þroska.

24. gr. Réttur samkvæmt 31. gr. nær einnig til barna sem eru veik og þurfa að leggjast inn á spítala. Þá er lögð áhersla á að slíkt getur verið  sérstaklega mikilvægur hluti af bataferli barnsins. 

28. og 29. gr. Menntun á að stýrast af þróun á persónuleika barns, hæfileikum og likamlegri og andlegri hæfni, þannig að hægt sé að ná sem mestum árangri. Til að börn nái að hámarka hæfni sína, er þess krafist að þau fái tækifæri til að taka út menningarlegan og listrænan þroska sem og taka þátt í íþróttum og leikjum. Barnaréttarnefndin bendir á að þau réttindi sem felast í  31. gr. hafi jákvæð og gagnleg áhrif á menntun barna, en menntun og leikur fela í sér gagnkvæma styrkingu og ættu að vera aðgenginlega daglega í skólum og leikskólum. 

30. gr.:  Börn sem tilheyra minnihlutahópum, til dæmis vegna þjóðerni, trúar eða tungumála ættu að vera sérstaklega hvött til að njóta og taka þátt í sinni eigin menningu. Aðildarríkjum ber að virða menningarleg einkenni barna sem tilheyra minnihlutahópum.

32. gr. Börn ættu ekki að vera skylduð til erfiðrar vinnu þar sem slíkt sviptir þau rétti sínum samkvæmt 31. gr.

19., 34., 37. og 38. gr. Ofbeldi, kynferðisleg misnotkun, ólögmæt og handahófskennd frelsissvipting og þvinguð þátttaka í vopnuðum áttökum eru allt aðstæður sem hafa áhrif og jafnvel hindra að börn fái notið þessa réttar samkvæmt 31. gr. Þá getur einelti af hálfu annarra barna einnig orðið til þess að börn njóti þess ekki að nýta sér rétt sinn samkvæmt 31. gr. Aðildarríki þurfa þannig að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir slíkt og vernda börn gegn ofbeldi, misnotkun, frelsissviptingu og einelti.

39. gr. Aðildarríkjum ber að tryggja að börn sem hafa upplifað vanrækslu, misnotkun eða annarskonar ofbeldi fái stuðning til að jafna sig og til endurhæfingar. Upplifanir barna m.a. þær slæmu geta komið fram í gegnum leik og listir auk þess sem það getur átt þátt í bata og endurhæfingu þeirra.

Hvernig er hægt að skapa umgjörð fyrir framkvæmd 31. gr. ?

Barnaréttarnefndin hefur listað upp ákveðna hluti sem stuðla að því að réttur barna til hvíldar, tómstunda og lista nái fram að ganga. Verður nú nánar vikið að því hvað aðildarríki geta gert til að skapa góða umgjörð fyrir framkvæmd 31. gr. Barnasáttmálans.

A)      Þættir sem stuðla að hagstæðu umhverfi

 • Börn hafa mjög hvatvísa þörf til að leika sér og taka þátt í tómstundum og munu leitast eftir tækifærum til að gera slíkt, jafnvel í hinum ólíklegustu kringumstæðum og umhverfi. Engu að síður eru ákveðin skilyrði sem þarf að tryggja svo að börn þroski með sér getu og fái notið réttar síns skv. 31. gr.
 • Samkvæmt framangreindu ættu börn að fá:
  • Frelsi frá öllu stressi.
  • Frelsi til að vera laus við félagslega einangrun, fordóma og mismunun.
  • Umhverfi sem tryggir öryggi frá félagslegum skaða og ofbeldi.
  • Umhverfi sem er laust við úrgang, mengun, mikla umferð og aðrar líkamlegar hættur sem leyfir börnum að athafna sig og vera örugg í eigin umhverfi eða nágrenni.
  • Möguleika og aðgengi að viðunandi hvíld miðað við aldur og þroska.
  • Aðgengi að tómstundatíma, óháð öðrum skyldum og kröfum.
  • Aðgengilegt rými og tími til að leika sér án stjórnunar eða afskipta frá fullorðnum.
  • Rými og tækifæri til að leika sér utandyra í fjölbreyttu og líkamlega krefjandi umhverfi, með auðveldu aðgengi að stuðningi fullorðinna þegar nauðsyn krefur.
  • Tækifæri til að upplifa og umgangast dýralíf og náttúru.
  • Tækifæri til að eyða tíma í sínu eigin rými ásamt tíma til að skapa og breyta sínum eigin heimi, með notkun ímyndunarafls og tungumáls.
  • Tækifæri til að kanna og skilja menningarlegan og listfræðilegan arf samfélagsins, taka þátt í því, skapa og móta.
  • Tækifæri til að taka þátt í barnaleikjum, íþróttum og tómstundaiðkun, með stuðningi þegar nauðsyn krefur frá þjálfurum eða leiðbeinendum.
  • Viðurkenningu af hálfu foreldra, kennara og samfélaginu í heild á mikilvægi og viðurkenningu á inntaki réttarins í 31. gr.

B)      Áskoranir sem hafa ber í huga við framkvæmd 31. gr.

 • Skortur á meðvitund um mikilvægi leiks og afþreyingar:
  • Í mörgum ríkjum er litið á leiktíma sem léttvægan og illa varinn tíma.  Forgangsröðun fullorðinna getur verið þannig að leiktími telst ekki mikilvægur auk þess sem foreldra, og aðra umönnunaraðila getur skort skilning til að styðja við leik barna.
 • Óöruggt og hættulegt umhverfi:

Gæta verður að umhverfi hafi ekki skaðleg áhrif á heilsu, þroska og öryggi barns. Hvað varðar yngri börn þarf að  huga að því að þau fái tækifæri til að nýta sköpunargáfuna og þurfa foreldrar eða aðrir umönnunaraðilar að hafa yfirsjón með barninu. Í því felst að þeir sjái barnið og að barnið heyri í þeim.

 • Hindrun á notkun barna á almenningsrýmum:
  • Í mörgum löndum virðist vera lítil þolinmæði gagnvart börnum á almenningsstöðum. Þá er oft litið á unglinga sem ógn sérstaklega af því að þeir birtast þannig í fjölmiðlaumfjöllun. Í því samhengi vill barnaréttarnefndin árétta að útiloka börn getur haft mjög slæm áhrif á samfélagið og á börn sem þáttttakendur í því. Ríki eru því hvött til að ýta undir samtal milli yngri og eldri kynslóða.
 • Finna jafnvæi milli áhættu og öryggis:

Þá þarf að hafa í huga að börn geta einnig verið ógn gagnvart öðrum börnum, til dæmis í formi eineltis, líkamlegs og andlegs ofbeldis en einnig getur myndast hópþrýstingur til áhættutöku af einhverju tagi. Börn eiga ekki að verða fyrir skaða þegar þau iðka rétt sinn skv. 31. gr. en ákveðin áhætta eða áskorun getur verið óaðskiljanlegur þáttur í ýmsum leik. Þá er mikilvægt að finna jafnvægi milli áhættuþátta og verndarþátta í leik. Dæmi um slíkt er að fjarlægja óviðunandi hættur í umhverfi barnanna. Þáttur í því gæti verið að loka ákveðnum götum fyrir umferð, bæta lýsingu í hverfi barnanna, skapa öruggt umhverfi á skólalóð og leikvöllum, valdefla og upplýsa börn um ýmsar hættur í þeirra nærumhverfi og gefa þeim ráð um hvernig þau geta verið örugg og hvert á að hafa samband ef eitthvað kemur upp á. Barnaréttarnefndin leggur einnig mikla áherslu að hlustað sé á börn og þeirra reynslu og skoðanir þegar metin er áhætta fyrir börn í leik í umhverfi þeirra.

 • Skortur á aðgengi að náttúru:
  • Börn læra að skilja, meta og bera virðingu fyrir náttúrunni í gegnum eigin reynslu og að komast í nálægð við náttúruna. Minningar úr barnæsku af leik og tómstundum úti í náttúru styrkir auðlindir barnanna til að takast á við stress, hvetja til andlegrar samvinnu og einbeitingu. Tengsl við náttúru í gegnum garðyrkju, uppskeru, athafnir og friðsamlegar íhuganir er mjög mikilvægur þáttur í listum og arfi margra menningategunda.

 

 • Þrýstingur á börn um að ná árangri á sviði menntunar:

Mörg börn i heiminum eru svipt rétti sínum sem heyrir undir 31. gr. vegna pressu til að ná árangri á akademísku sviði. Dæmi um slíkt er:

 • Kennsla fyrir yngri börn virðist einblína í auknum að akademískum markmiðum og formlegum lærdómi,  á kostnað þátttöku í leikjum og námi sem miðar að víðtækari og fjölbreyttari útkomu.
 • Kennsla utan námskrár og heimanám hafa áhrif á frjálsan tíma barna þar sem þau eiga val um að velja sér athafnir.
 • Námskrá og stundartöflur nemenda taka oft ekki mið af leik, sköpun og hvíld sem er nauðsynlegt fyrir börn og auka þarf meðvitund um mikilvægi þess.
 • Notkun á formlegum og kennslufræðilegum aðferðum í kennsustofum nýta ekki tækifæri um virka, fjöruga og fjölbreytta kennslu.
 • Snerting við náttúruna hefur minnkað í mörgum skólum þar sem börn þurfa að eyða meiri tíma innandyra.
 • Tækifæri til menningarlegra og listrænna athafna og að nýta sérkunnáttu listamanna til kennslu er í sumum ríkjum að hverfa vegna aukinna akademískra viðfangsefna.
 • Takmarkanir á þeim leikjum sem börn geta tekið þátt í í skólanum valda því að tækifærin til sköpunar, könnunar og félagslegs þroska eru ekki eins mörg.
 • Of formuð og skipulögð stundartafla:
  • Í mörgum tilvikum er möguleiki barna á að iðka réttindi sín skv. 31. gr. takmarkaður með tillögum frá fullorðnum að afþreyingu. Dæmi um slíkt eru skyldubundnar íþróttir, endurhæfingar eða uppbyggjandi starfsemi fyrir börn með fatlanir og húsverk sem veitir börnum lítinn eða engann tíma fyrir sjálfstýrða starfsemi. Þar sem fjármunir ríkis koma við sögu verður áhersla oft á skipulagða afþreyingu sem gengur út á samkeppni eða annað þar sem ætlast er til einhvers af börnum eða þau beitt þrýstingi til þátttöku í ungmennastarfi eða félögum. Þá er mikilvægt að hafa í huga að börn eiga rétt á tíma þar sem stjórn er í höndum fullorðinna en einnig tíma þar sem þau ráða sér sjálf.
 • Vanræksla á skyldum 31. gr. í þróunaráætlunum:
  • Í þróunaráætlunum er tilhneyging til að einblína á atriði sem stuðla að því að börn nái að lifa. Þá er aðallega horft til grunnþarfa eins og næringar, húsnæðis og menntun en mjög lítil áhersla, ef einhver, er á leik, menningu, listir og tómstundir sem er einnig afar mikilvægt fyrir þroska barna.
 • Skortur á fjáröflun í menningarlegum og listtengdum tækifærum fyrir börn:
  • Aðgengi barna að menningar- og listtengdri starfsemi er oft takmörkuð af mörgum ástæðum, m.a. vegna skorts á stuðningi foreldra, kostnaðarsömu aðgengi; skorti á samgöngum, áhersla á að ná til fullorðinna á ýmsum listviðburðum o.s.frv. Þá telur barnaréttarnefndin mikilvægt að þeir sem standa að listviðburðum og öðru því tengdu ættu að huga að atriðum sem gætu stuðlað að þátttöku og áhuga barna í listviðburðinum. Slíkt er til þess fallið að að örva áhuga barna á listum og menningu til framtíðar.
 • Aukið hlutverk rafrænna fjölmiðla:
  • Rafrænar upplýsingar og samskipti eru að verða daglegur hluti af lífi barns og mörg börn eyða sífellt meiri tíma við skjá.  
  • Barnaréttarnefndin hefur þó áhyggjur af þeim vísbendingum sem benda til skaðlegra áhrifa þess hversu miklum tíma börn verja í skjánotkun af ýmsu tagi.
  • Helstu áhyggjuefni sem barnaréttarnefndin hefur sett fram í þessu samhengi eru:
   • Netið og samfélagsmiðlar gera börn berskjölduð fyrir neteinelti, klámi og netkynnum.
   • Aukin þátttaka, sérstaklega meðal drengja, í ofbeldisleikjum virðist tengjast ofbeldisfullri hegðun þar sem leikirnir ýta undir og hvetja til ofbeldis. Slíkt getur dregið úr viðkvæmni fyrir ofbeldi, samúð og skilningi á þjáningum annarra.
   • Mikið af fjölmiðlum endurspegla ekki þjóðfélagslegan raunveruleika eins og tungumál, mismunandi menningu, og sköpunarlegan fjölbreytileika sem má finna í samfélaginu.
   • Aukin áherlsla á skjávirkni er talið tengjast minnkandi líkamlegri áreynslu meðal barna, slæmra svefnmynstra, aukningar á sykursýki og annarra tengdra sjúkdóma.
 • Markaðssetning á leik og leikföngum:
  • Barnaréttarnefndin hefur áhyggjur af því að mörg börn og fjölskydur þeirra séu berskjölduð fyrir auknu áreiti frá óreglusettri markaðsetningu leikfanga og leikjaframleiðenda.
  • Foreldrar eru þannig undir þrýstingi til að kaupa meira af vörum sem geta verið skaðlegar fyrir þroska barna.

Börn sem þurfa séstaka athygli til að fá notið réttinda sinna skv. 31. gr.

Ákveðnir hópar barna þurfa aukna athygli til að geta notið réttinda sinna sem felast í 31. gr. Barnasáttmálans. Verður nú farið yfir helstu hópa sem barnaréttarnefndin hefur lagt áherslu á að þurfi að sinna sérstaklega til að þau geti notið réttinda sinna samkvæmt 31. gr. Barnasáttmálans.

 

Stelpur:

Barnaréttarnefndin telur að blanda af ákveðinni byrði vegna heimilisskyldna, systkina og fjölskylduumönnun ásamt verndarsjónarmiðum af hálfu foreldra, skort á viðeigandi aðstöðu og menningarlegum foresendum sem valda takmörkunum á væntingum og hegðun stúlkna geti valdið því að tækifæri þeirra minnka til þess að njóta þeirra réttinda sem vernduð eru í 31. gr. Það á sérstaklega við um unglingsár stúlkna. Oft má finna ákveðinn kynjamun hvað varðar sérstaka hegðun drengja annars vegar og sérstaka hegðun stúlkna hins vegar. Slík viðhorf eiga það til að vera styrkt af foreldrum, umönnunaraðilum, af fjölmiðlum, framleiðendum leikfanga og leikja sem oft leitast við að halda í þessar gömlu staðalímyndir kynjanna. Barnaréttarnefndin hvetur aðildarríki til að grípa til aðgerða til að brjóta upp staðalímyndir kynjanna, sem ýta undir og styrkja hegðun sem veldur mismunun og ójafnrétti til tækifæra.

Börn sem búa við fátækt:

Börn sem búa við fátækt geta glímt við ýmsar hindranir sem gera það að verkum að þau fá ekki notið réttinda sinna skv. 31. gr. Dæmi um slíkt er skortur á fjármagni til þátttöku, nærumhverfi þeirra, t.d. hverfið sem þau búa í getur verið hættulegt og vanrækt og þau glíma oft við útilokun af einhverju tagi. Þá eru foreldralaus börn eru sérstaklega viðkvæmur hópur í þessum efnum. Mikilvægt er að sveitarfélög geri sér grein fyrir mikilvægi almenningsgarða og leikvalla fyrir þroska barna og þeirra réttinda sem heyra undir 31. gr., þá sérstaklega þann hóp barna sem býr við fátækt.

Börn með fatlanir:

Ýmis atriði hindra aðgang barna með fatlanir að réttinum sem er í 31. gr. Til dæmis útilokun frá ákveðnum þáttum í skólastarfi, einangrun heima fyrir, slæmt aðgengi að stöðum þar sem börn mynda almennt vináttutengsl eins og til dæmis leikvöllum, almenningsgörðum, kvikmyndahúsum, tónleikastöðum, íþróttahúsum ofl. Þá getur framkvæmd ferðaþjónustu fyrir börn með fatlanir haft áheirf á það hvort börn geti notið réttar síns samkvæmt 31. gr. Barnaréttarnefndin minnir einnig í þessu samhengi á 30. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem felur í sér viðurkenningu á rétti fatlaðs fólks til þess að taka þátt, til jafns við aðra í menningarlífi og gera viðeigandi ráðstafanir svo fatlað fólk hafi aðgang að menningarefni í aðgengilegri framsetningu, aðgang að sjónvarspdagskrám, kvikmyndum, leikhúsi og örðum athöfnum á sviði menninigar í aðgengilegri framsetningu ásamt því að hafa aðgang að a stöðum þar sem flutningur menningarefnis eða þjónusta á sviði menningar fer fram. Dæmi um slíkt eru leikhús, söfn. kvikmyndahús, bókasöfn, ferðamannastaðir og eftir atvikum aðgang að minnisvörðum og stöðum sem eru mikilvægir í þjóðmenningarlegu tilliti.

Börn á stofnunum:

Mörg börn eyða allri barnæsku sinni eða hluta hennar á stofnum., t.d. munaðarleysingjahælum, spítölum, skólum, flóttamannabúðum o.s.frv. en þar eru tækifæri til leiks, tómstunda og þátttöku í lista- og menningarlífi afar takmörkuð eða þeim rétti hreinlega hafnað. Barnaréttarnefndin bendir á að ríki verða að grípa til aðgerða til að vinna gegn stofnanavæðingu á börnum. Þar til að ríki nær slíku takmarki þurfa ríki að beita aðferðum sem tryggja að allar slíkar stofnanir tryggi bæði rými og tækifræi fyrir börn til að eiga í samskiptum við jafaldra sína í samfélaginu, leika og taka þátt í leikjum, líkamlegri æfingu, menningu og listalífi. Slíkar aðferðir ættu ekki að vera takmarkaðar við skyldubundna og skipulagða starfsemi. Þá þurfa aðildarríki að veita öruggt og örvandi umhverfi fyrir börn til að stunda frjálsan leik og tómstundir.

Börn af frumbyggja og minnihlutasamfélögum:

Þjóðernis-, trúar-, kynþáttar- og stéttarmismunun getur útilokað að börn fái og átti sig á réttinum sem heyrir undir 31. gr. Barnaréttarnefndin áréttar að börn í slíkri stöðu hafa rétt til að tjá og kanna menningu umfram fjölskylduhefðir.

Börn í aðstæðum stríðs, mannúðlegra- og nátúrulegra hamfara:

Ljóst er að réttur samkvæmt 31. gr. er oft settur neðar í forgangsröðunina í slíkum aðstæðum en t.d. aðgengi að fæði, skjóli og lyfjum. Engu að síður geta tækifæri til að leiks, tómstunda og afþreyingar haft ákveðinn lækningamátt og hjálpað börnum að ná tengslum við hversdagsleika og gleði eftir að hafa upplifað missi, flutninga og áföll. Þannig er mikilvægt að hafa það hugfast í slíkum aðstæðum að börn hafa þörf á leik og afþreyingu. 

Skyldur aðildaríkja

 1. gr. Barnasáttmálans setur m.a. þrennskonar skyldur á aðildarríkin til að börn fái notið réttinda sinna samkvæmt greininni:

1) Virðing aðildarríkja krefst þess af aðildarríkjum að forðast að skipta sér af, beint eða óbeint, þegar réttindanna er notið skv. 31. .gr.

 • Þessi skylda krefst líka ákveðinna aðferða sem miða að því að virða réttindi hvers barns, einstaklingslega eða í samhengi við aðra;
  • Stuðningur til umönnunaraðila: t.d. kenna þeim hvernig eigi að hlusta á börn meðan þau leika, skapa barnvænt umhverfi o.s.frv.
  • Vitundarvakning: ríki ættu að fjárfesta í aðferðum sem ögra menningarviðhorfum sem minnka líkur á að réttinum í 31. gr. sé framfylgt.

2) Vernd aðildarríkja krefst þess að aðildarríki komi í veg fyrir aðstæður skapist þar sem þriðji aðli trufli eða hindri með einhverjum hætti að börn fái notið réttinda skv. 31. gr.

3) Innleiðing aðildarríkja á réttindum skv. 31. gr. krefur ríkin til grípa til allra viðeigandi ráðstafanir svo réttindin nái fram að ganga, m.a. á sviði löggjafar og stjórnsýslu.

Hinn gleymdi réttur.

Sjálfsmynd fólks endurspeglar ekki aðeins einstaklinginn sjálfan heldur einnig þá heild sem hann tilheyrir. Menning, hefðir og listir hafa ekki aðeins áhrif á það hvernig fólk sér heiminn heldur líka hvernig menn sjá sig sjálfa. Börn eru engin undantekning þar á en þessir þættir eru ekki síður mikilvægir í lífi þeirra en fullorðinna. Að tilheyra ákveðnum hópi og ákveðinni heild hefur jákvæð áhrif á sjálfsmynd fólks og getur það skipt höfuðmáli að fólk fái tækifæri til þátttöku í þeirri heild sem það tilheyrir. Í veruleika barna eru tómstundir, afþreying og leikur stór þáttur í því að móta sjálfsmynd þeirra og gefur þeim tækifæri til samskipta og þátttöku í samfélaginu. Þess vegna er nauðsynlegt að þau fái slík tækifæri og að tómstundir, leikur og afþreying sé aðgengileg í daglegu lífi þeirra. Í því samhengi skiptir máli að þau fái nægan tíma til að stunda þá afþreyingu sem þau kjósa sem og að nauðsynleg kunnátta og vitund sé til staðar hjá þeim sem annast börn svo sem foreldrum, kennurum, þjálfurum og fleirum.

Þessi réttindi og mikilvægi þeirra gleymast þó oft og sérstaklega þegar kemur að því að forgangsraða þurfi þeim réttindum sem börn eiga að njóta. Þá sérstaklega þegar um er að ræða viðkvæma hópa eða minnihlutahópa barna. Þá virðist rétturinn til hvíldar, tómstunda, leikja og skemmtunar og frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum, vera aftarlega í forgangsröðuninni. Þetta getur valdið því að ekki öll börn fái notið þess réttar sem sérstaklega er verndaður í 31. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er einmitt í slíkum tilvikum sem þörfin er jafnvel hvað mest fyrir að börn fái að leika sér, njóta tómstunda, lista og menningar. Þess vegna er mikilvægt að börnum sé ekki mismunað og að öll börn hafi jafnan aðgang að þessum réttindum sínum.

 

Hlekkur á grein um rétt barna til menningar