Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frelsissvipting barna

Frelsissvipting barna

Fjallað hefur verið í fjölmiðlum um mál tveggja stúlkna sem voru vistaðar í fangaklefa lögreglu þar sem ekki reyndist unnt að vista þær í úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda, sjá nánar hér.   

Umboðsmaður barna hefur aflað upplýsinga um málið frá annars vegar Barnaverndarstofu og hins vegar lögreglunni í Reykjavík og samkvæmt þeim upplýsingum var um að ræða neyðarástand og afar sérstakar aðstæður sem urðu þess valdandi að tekin var ákvörðun um vistun stúlknanna í fangaklefa til þess að tryggja öryggi þeirra. Hefur umboðsmaður barna komið því á framfæri við viðkomandi aðila að vistun barna í fangaklefum sé algjörlega óásættanleg ráðstöfun og ekki í samræmi við meginreglur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna  og að leita þurfi allra leiða til að koma í veg fyrir að slíkar aðstæður skapist á ný.

 

Batabryggja

Mynd: Benjamin Suomela / Norden.org

 

Velferðarráðuneytið ber ábyrgð á að til staðar séu heimili og stofnanir til að veita börnum móttöku í bráðatilvikum eða veita börnum sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarefiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota, sbr. 79. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Barnaverndarstofa hefur yfirumsjón með sérhæfðum meðferðarheimilum og stofnunum fyrir börn og ungmenni á vegum ríkisins. Barnaverndarnefnd sendir beiðni um vistun barns á heimili eða stofnun til Barnaverndarstofu en í neyðar- og bráðatilvikum er barnaverndarnefnd og lögreglu heimilt að senda beiðni um skammtímavistun beint til meðferðarheimilisins Stuðla um skammtímavistun á lokaðri deild. Vistun af því tagi kemur til álita vegna ofbeldishegðunar barns, óupplýstra afbrota, stjórnleysis sökum ölvunar og vímuefnaneyslu og á meðan viðeigandi úrræði er undirbúið.

Samkvæmt framansögðu kveða barnaverndarlög, með skýrum hætti, á um að skyldu barnaverndaryfirvalda til að tryggja að viðeigandi úrræði séu tiltæk fyrir barn sem þarf á neyðarvistun að halda til að tryggja öryggi þess.

Í 37. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er fjallað um frelsissviptingu barna en greinin er svohljóðandi:

Aðildarríki skulu gæta þess að:


    a. Ekkert barn sé látið sæta pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ekki skal ákveða dauðarefsingu eða lífstíðarfangelsi án möguleika á lausn fyrir afbrot sem yngri menn en 18 ára hafa framið.


    b. Ekkert barn sé ólöglega eða gerræðislega svipt frjálsræði sínu. Handtaka, varðhald og fangelsun barns skal eiga sér stað samkvæmt lögum, og skal slíku aðeins beitt sem síðasta úrræði og í skemmsta tíma sem við getur átt.


    c. Farið sé mannúðlega með hvert það barn sem svipt er frjálsræði sínu og af virðingu fyrir meðfæddri göfgi manna og með þeim hætti að tekið sé tillit til þarfa einstaklings á þeim aldri sem um ræðir. Einkum skal halda hverju því barni sem svipt er frjálsræði sínu aðskildu frá fullorðnum, nema ef talið er að því sé fyrir bestu að gera það ekki, og á barn rétt á að halda tengslum við fjölskyldu sína með bréfaskriftum og heimsóknum, nema sérstaklega standi á.


    d. Hvert það barn sem svipt er frjálsræði eigi rétt á skjótri lögfræðilegri aðstoð og annarri viðeigandi aðstoð, svo og rétt til að vefengja lögmæti frjálsræðissviptingar sinnar fyrir dómstól eða öðru þar til bæru óháðu og óhlutdrægu stjórnvaldi, og til að fá skjótan úrskurð þar um.

 

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur veitt leiðbeiningar um túlkun 37. gr. í almennum athugasemdum nefndarinnar nr. 10., um réttindi barna í réttarvörslukerfinu. Þar áréttaði nefndin undanþáguákvæði 37. gr. um að frelsissviptu barni eigi að halda aðskildu frá fullorðnum nema ef talið er að það sé barni fyrir bestu. Benti nefndin á að þessa undanþáguheimild beri að túlka þröngt og hún eigi því eingöngu við ef slík ráðstöfun er barni fyrir bestu en ekki ef aðstæður eru með þeim hætti að það sé hentug lausn fyrir aðildarríki að vista barn með fullorðnum t.d. vegna skorts á öðrum úrræðum. Þá sé öryggi og velferð barna stefnt í hættu með vistun með fullorðnum einstaklingum sem hafi jafnframt neikvæð áhrif á möguleika barna til enduraðlögunar.

 

Helsinki Bar

Mynd: Benjamin Suomela / Norden.org

 

Þá ber aðildarríkjum að setja á laggirnar sérstakar einingar fyrir börn sem hafa verið svipt frelsi sínu sem byggi á barnvænni stefnu og framkvæmd. Barn sem svipt hefur verið frelsi sínu á jafnframt rétt á því að viðhalda sambandi við fjölskyldu sína með heimsóknum og öðrum samskiptum. Til þess að stuðla að því ber ávallt að ráðstafa barni í úrræði sem er í návígi við heimili þess. Allar undanþágur frá þessu skilyrði þarf að kveða skýrt á um í löggjöf.

Ber aðildarríkjum að sjá frelsissviptum börnum fyrir umhverfi sem er í samræmi við markmið vistunar hverju sinni og sem tekur tillit til réttar barna til einkalífs, samskipta við önnur börn og þáttöku í íþrótta-, menningar- og frístundastarfi. Þá á frelsissvipt barn á skólaskyldualdri rétt á menntun við hæfi sem undirbýr viðkomandi fyrir framtíðina. Þá eiga öll frelsissvipt börn rétt á því að fá læknisrannsókn í upphafi vistunar og viðeigandi heilbrigðisþjónustu á meðan á vistun eða afplánun stendur. Þvingunaraðgerðum skal eingöngu beita í þeim tilvikum er barn er hættulegt sjálfu sér eða öðrum og þegar öll önnur úrræði verið reynd.

 

Loegreglan I Reykjavik

Mynd: Ane Cecilie Blichfeldt / Norden.org

 

Börn sem hafa verið svipt frelsi sínu eru í afar viðkvæmri stöðu og brýnt er að hugað sé að réttindum þeirra og þeim sé tryggð nauðsynleg þjónusta eins og skoðun læknis í upphafi vistunar. Það sem er barni fyrir bestu skal ávallt hafa forgang við allar ráðstafanir og ákvarðanir er varða börn samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans. Það kallar á skýra stefnu og virka samvinnu allra þeirra stofnana sem að þessum málum koma þannig að frelsissvipting hafi ekki skaðleg áhrif á heilsu, þroska og velferð barna til framtíðar.