Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Samningar við nemendafélög í framhaldsskólum

Umboðsmaður barna hefur sent nokkrum fyrirtækum bréf vegna samninga við nemendafélög í framhaldsskólum. Í bréfinu er minnt á leiðbeinandi reglur um neytendavernd barna, en þar er m.a. fjallað um markaðssetningu í framhaldsskólum. Hér á vef umboðsmanns barna má nálgast reglurnar en fjallað er um framhaldsskóla í V. kafla.

Þá hefur umboðsmaður barna hvatt nemendafélög og skólameistara í framhaldsskólum til þess að kynna sér reglurnar og hafa þær í huga í störfum sínum. Æskilegt er að nemendafélög og skólameistari vinni saman að reglum um auglýsingar, kostun og aðra markaðssókn og að reglurnar séu skýrar og birtar opinberlega.

Bréfið má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

 

 

Reykjavík, 31. ágúst 2017

 

Efni: Samningar við nemendafélög í framhaldsskólum

 

Síðustu ár hefur tíðkast að fyrirtæki geri samning við nemendafélög í framhaldsskólum. Flestir nemendur í framhaldsskólum eru börn og ungmenni, sem eiga rétt á sérstakri vernd. Er því mikilvægt að fyrirtæki gæti varkárni við gerð slíkra samninga.

 

Nemendafélög starfa á ábyrgð hvers og eins skóla og er það því hlutverk skólans að setja reglur um auglýsingar og aðra markaðssetningu innan skólans. Þó að nemendafélög hafi ákveðið svigrúm til þess að skipuleggja starf sitt er eðlilegt að fyrirtæki kynni sér reglur skólans og afstöðu skólastjórnenda áður en gerðir eru skuldbindandi samningar við nemendafélög.

 

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda gáfu út leiðbeinandi reglur um neytendavernd barna árið 2009. Í V. kafla þeirra er m.a. fjallað um framhaldsskóla en þar segir:

 

Auglýsingar, kostun og önnur markaðssókn eða kynning skal aðeins heimil með skriflegu leyfi skólameistara eða fulltrúa hans. Skal leyfið gefið sérstaklega í hvert sinn eða fyrirfram fyrir tiltekinn tíma.

 

Samningar sem nemendafélag gerir til hagsbóta fyrir félagsmenn skulu vera 

 

  • gagnsæir og aðgengilegir nemendum og 
  • kynntir skólameistara fyrirfram.

 

Stjórnarmenn eða aðrir fulltrúar nemendafélaga mega ekki hagnast eða njóta nokkurra persónulegra hlunninda umfram aðra frá fyrirtæki vegna viðskipta eða markaðssetningar sem nemendafélagið hefur milligöngu um.

 

Nemendafélag gefur ekki fyrirtækjum upp persónulegar upplýsingar á borð við GSM-númer, heimilisfang eða netfang nemenda til notkunar í markaðssetningu. Óheimilt er fyrirtækjum að notast við nemendalista í markaðssetningu. Ef félagið kýs að hafa milligöngu við markaðssetningu með því að hringja í félagsmenn, senda þeim tölvupóst eða afhenda límmiðalista skal áður gefa öllum félagsmönnum kost á að andmæla því, hverjum fyrir sitt leyti, að vera á slíkum lista.

 

Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um samninga sem gerðir hafa verið við nemendafélög sem eru í andstöðu við framangreindar reglur. Umboðsmaður barna skorar á fyrirtæki að fara eftir reglunum og vanda vel til verka þegar gerðir eru samningar við nemendafélög í framhaldsskólum.

 

 

Kær kveðja,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna