Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Úrræði fyrir börn með alvarlegan vímuefna- og afbrotavanda - bréf til ráðherra

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til félags- og jafnréttismálaráðherra. Tilgangur bréfsins er að fá upplýsingar um meðferðarheimili vegna úrræða fyrir börn með alvarlegan vímuefna- og afbrotavanda sem áætlað hefur verið að setja á stofn og á hvaða stigi þær framkvæmdir eru.

 

Bréfið er svohljóðandi: 

 

Félags- og jafnréttismálaráðherra

b.t. Þorsteins Víglundssonar

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu

150 Reykjavík

 

Reykjavík, 20. febrúar 2017

 

 

Efni: Úrræði fyrir börn með alvarlegan vímuefna- og afbrotavanda.

Í  bréfi til umboðsmanns barna þann 17. desember 2015 frá Velferðarráðuneytinu, sbr. og í skýrslu Ríkisendurskoðunar 2015 kom fram að ráðuneytið hefði ákveðið að stofna nýtt meðferðarheimili fyrir börn staðsett á höfuðborgarsvæðinu og hefði falið Barnaverndarstofu að annast frumathugun framkvæmdarinnar. Á hinu nýja meðferðarheimili væri gert ráð fyrir að ungmenni gætu afplánað óskilorðsbundna fangelsisdóma og setið í gæsluvarðhaldi í lausagæslu. Heimilið myndi jafnframt nýtast eldri unglingum með alvarlegan hegðunar- og vímuefnavanda. Umboðsmaður barna fagnaði því framtaki að opnað yrði nýtt meðferðarheimili.

Velferðarráðuneytið ber ábyrgð á að tiltæk séu heimili og stofnanir til að veita börnum sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota, sbr. c. lið 1. mgr. 79. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.  Í reglugerð nr. 533/2015 um afplánun sakhæfra barna er jafnframt kveðið á um að Barnaverndarstofu sé skylt að hafa tiltækt sérhæft meðferðarúrræði sem veitt geti börnum sem hlotið hafa refsidóma, fullnægjandi meðferð á sama tíma og öryggi þeirra sé tryggt, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 83/1994 er stjórnvöldum skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. Með bréfi þessu er því hér með lögð fram sú beiðni að ráðherra vinsamlegast upplýsi sem allra fyrst á hvaða stigi framkvæmdir eru og hvenær standi til að nýtt meðferðarheimili taki til starfa.

 

Virðingarfyllst,

 

 

_____________________________________

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna