Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Táknmálstúlkuð fræðslumynd fyrir börn gegn kynferðislegu ofbeldi

Velferðarráðuneytið hefur birt á vefsvæði sínu táknmálstúlkaða teiknimynd fyrir börn gegn kynferðislegu ofbeldi. Myndbandið lét Evrópráðið gera á síðasta ári í þeim tilgangi að fræða börn og til að stuðla að aukinni samfélagsvitund um kynferðisofbeldi gegn börnum.

Teiknimyndin hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og var frumsýnd hér á landi í nóvember á síðasta ári með íslenskum texta. Þá var því beint til skólastjórnenda að sýna myndina þann 18. nóvember sem er árlegur Evrópudagur um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun. Markmiðið er að stuðla að aukinni umræðu og samfélagsvitund um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og að kynna samning Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðisofbeldi, svonefndan Lanzarote-samning. Samningurinn er heildstæðasta og víðtækasta alþjóðasamþykkt sem gerð hefur verið um vernd barna gegn kynferðisofbeldi. Ísland undirritaði Lanzarote-samninginn árið 2008 og fullgilti hann árið 2012.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra annaðist táknmálstúlkun myndarinnar og hyggst miðstöðin kynna myndina sérstaklega fyrir heyrnarlausum börnum og foreldrum þeirra.