Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Börn í leit að alþjóðlegri vernd

Fjöldi þeirra barna sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd hefur aukist verulega og er það sambærileg þróun og hefur átt sér stað víða í Evrópu. Mikilvægt er að tryggja þessum börnum þau réttindi sem þau eiga samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013.

Umboðsmaður barna hefur á undanförnum mánuðum sérstaklega kynnt sér málefni barna sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd. Hann hefur meðal annars fundað með Útlendingastofnun, Rauða Krossinum og starfsfólki félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ, Hafnarfjarðarbæ og Sandgerðisbæ auk Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða. Þá hefur umboðsmaður kynnt sér aðstöðu fyrir hælisleitendur í Bæjarhrauni. Markmiðið var að kanna hvort hugað sé nægilega vel að réttindum og hagsmunum þessara barna hér á landi og var hafður til hliðsjónar gátlisti um málefni barna í leit að alþjóðlegri vernd frá tengslaneti umboðsmanna barna í Evrópu (ENOC).

Ljóst er að það er mikill vilji hér á landi til þess að tryggja réttindi barna. Því miður virðist þó oft skorta upp á að réttindi barna sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd séu raunverulega virt í framkvæmd.

Sjálfstæður réttur barna

Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans eiga börn ávallt rétt á að tjá sig áður en teknar eru ákvarðanir sem varða þau og skal taka réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Enn fremur kemur fram í 3. gr. Barnasáttmálans að það sem er börnum fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Því miður virðist oft ekki nægilega vel hugað að þessum sjálfstæðu réttindum barna þegar þau koma til landsins með fjölskyldum sínum. Í fæstum málum fá börn tækifæri til þess að tjá sig áður en ákvörðunin er tekin og hefur verið sýnt fram á að þau upplifi sig oft „ósýnileg“ í ferlinu. Börn eru sérfræðingar í eigin lífi og getur þeirra upplifun og reynsla skipt miklu máli þegar metið er hvort ástæða sé til að veita fjölskyldu alþjóðlega vernd. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað bent á að ekki sé hægt að meta hvað sé barni raunverulega fyrir bestu nema barn hafi fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á eigin forsendum.

Til þess að börn hafi raunveruleg tækifæri til þess að tjá sig og hafa áhrif í þessum málum er nauðsynlegt að þau hafi aðgang að upplýsingum sem henta aldri þeirra og þroska. Úttekt umboðsmanns barna bendir til þess að börn fái oft ekki nauðsynlegar upplýsingar við komu til landsins heldur eru foreldrum veittar allar upplýsingar og gert ráð að þeir komi þeim áfram til barnanna.

Menntun

Öll börn eiga rétt á menntun við hæfi, sbr. m.a. 28. gr. Barnasáttmálans. Mikilvægt er að tryggja börnum sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd skólavist eða aðra sambærilega menntun án tafar. Í framkvæmd eru dæmi um að börn á grunnskólaaldri þurfi að bíða í margar vikur eða jafnvel mánuði eftir því að komast í skóla. Ein hesta ástæðan fyrir þessari töf virðist vera sú að börn geta ekki hafið skólagöngu fyrr en að lokinni ítarlegri læknisskoðun. Dæmi eru um að börn þurfi að bíða eftir slíkri skoðun í allt að þrjá mánuði. Er því brýn þörf að stytta þennan biðtíma, þannig að börn geti byrjað í skóla sem fyrst eftir komu sína til landsins.

Umboðsmaður barna hefur einnig haft áhyggjur af því hversu lengi börn á aldrinum 16 til 18 ára þurfa að bíða eftir viðeigandi menntun eða starfsþjálfun, en börn á þeim aldri eiga einnig rétt á menntun við hæfi, sbr. 32. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008.

Leikur og tómstundir

Í þeim úrræðum sem hafa verið nýtt fyrir fjölskyldur í leit að alþjóðlegri vernd er því miður ekki alltaf að finna aðstöðu sem hentar börnum. Sérstaklega vantar leikskvæði fyrir börn, en leikur er afar mikilvægur þáttur í lífi barna og gefur þeim rými til að þroskast á sínum forsendum og fá útrás fyrir ímyndunarafl sitt. Þá getur leikur hjálpað þeim börnum að takast á við erfiðar aðstæður, áföll og aðra erfiðleika og haft jákvæð áhrif á þroska þeirra. Það er því nauðsynlegt að huga betur að aðstöðu barna sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd og hafa þar 31. gr. Barnasáttmálans að leiðarljósi, en þar kemur fram að aðildarríki skulu viðurkenna rétt barna til hvíldar, tómstunda og leikja.

Heilbrigðis- og félagsþjónusta

Börn eiga rétt á að njóta besta mögulega heilsufars samkvæmt 24. gr. Barnasáttmálans. Hér á landi virðast börn sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd almennt fá góða heilbrigðisþjónustu. Þó er tannlæknaþjónusta almennt ekki nægilega vel tryggð. Þar að auki virðist sú læknisskoðun sem einstaklingum í leit að alþjóðlegri vernd er tryggð við komu þeirra til landsins einungis ná til líkamlegra þátta en ekki andlegrar heilsu. Mikilvægt er að breyta þessu og skima einnig fyrir andlegum vandamálum, svo að börn og fjölskyldur þeirra fái viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu og aðstoð við að takast á við þau áföll sem þau hafa í mörgum tilvikum orðið fyrir.

Fylgdarlaus börn

Brýnt er að huga sérstaklega vel að réttindum þeirra barn sem koma til landsins án fjölskyldu sinnar. Ávallt skal meta vafa um aldur einstaklings viðkomandi í hag, en umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um að það hafi ekki alltaf verið gert í framkvæmd.  

Niðurstaða án tafar

Komið hafa upp tilvik þar sem fjölskyldum er synjað um alþjóðlega vernd, en ljóst er að börnin hafa verið hér á landi í langan tíma og aðlagast aðstæðum. Umboðsmaður barna telur brýnt að stytta verulega málsmeðferðartíma í málum hælisleitenda, en markmiðið hefur verið að málsmeðferðartími sé ekki lengri en 90 dagar, en skort hefur upp á þá framkvæmd. Ef málsmeðferðartíminn er lengri telur umboðsmaður barna ríkar ástæður til þess að veita fjölskyldum dvalarleyfi af mannúðarástæðum, með hliðsjón af því sem er börnunum fyrir bestu, sbr. fyrrnefnd 3. gr. Barnasáttmálans.

 Ný lög um útlendinga

Umboðsmaður barna hefur komið ofangreindum áhyggjum sínum á framfæri, meðal annars í umsögn sinni um frumvarp til laga um útlendinga. Þá hafa umboðsmenn barna á Norðurlöndum gefið frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem skorað er á ríkisstjórnir Norðurlanda að tryggja réttindi barna sem koma til landsins í leit á alþjóðlegri vernd.

Ný lög um útlendinga hafa nú verið samþykkt á Alþingi en þau taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2017. Í lögunum er að finna ýmis jákvæð nýmæli og vonar umboðsmaður barna að þær breytingar sem þar er að finna verði til þess að réttindi og hagsmunir barna sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd verði betur tryggðir. Umboðsmaður mun þó halda áfram að fylgjast með málaflokknum og eru allar ábendingar vel þegnar.