Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Umboðsmaður barna fagnar lögfestingu Barnasáttmálans

4407305 Pilkington Blodrur

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins eða Barnasáttmálinn eins og hann er oftast kallaður var lögfestur á Alþingi í gær, 20. febrúar 2013.

Umboðsmaður barna fagnar þessum gleðitíðindum enda hefur lögfesting Barnasáttmálans verið mikið baráttumál embættisins á undanförnum árum. Umboðsmaður vonar að lögfesting Barnasáttmálans verði til þess að réttindi og hagsmunir barna á Íslandi verði betur tryggð.

Þó að Barnasáttmálinn hafi verið fullgiltur hér á landi árið 1992 og íslenska ríkið hafi verið skuldbundið að þjóðarétti til að uppfylla ákvæði sáttmálans hefur sjaldan verið vitnað í ákvæði hans við úrlausn mála hjá stjórnvöldum og dómstólum. Hingað til hefur Barnasáttmálinn því ekki haft bein réttaráhrif hér á landi og dæmi eru um að dómar hafi beinlínis verið í andstöðu við ákvæði hans. Er lögfesting Barnasáttmálans því mikilvæg til að tryggja að honum verði í auknum mæli beitt í framkvæmd og réttindum barna þannig gefið aukið vægi.

Umboðsmaður barna vonar ennfremur að lögfesting Barnasáttmálans muni fela í sér kynningu á sáttmálanum og verða til þess að börn og fullorðnir þekki betur þau réttindi sem hann hefur að geyma. Er þetta ekki síst mikilvægt í ljósi þess að nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefur gert athugasemdir við fræðslu og kynningu á sáttmálanum hér á landi. Góð þekking á Barnasáttmálanum eykur líkurnar á því að réttindi barna séu virt og að brugðist sé fyrr við þegar brotið er á þeim.

Hér má finna nánari upplýsingar um Barnasáttmálann og þýðingu hans fyrir réttindi barna.

Hérmá sjá feril málsins á Alþingi.