Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Þörf á löggjöf um frístundaheimili í skoðun

Umboðsmaður barna hefur lengi haft áhyggjur af gæðum starfs, öryggi og aðbúnaði barna í lengdri viðveru í grunnskólum. Í desember sl. sendi hann bréf til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem hann hvatti til þess að ráðneytið tæki málefni lengdrar viðveru í grunnskólum til skoðunar með það fyrir augum að gera frístundaheimili öruggari og þroskavænlegri í þágu þeirra barna sem þeirrar þjónustu njóta. Sjá bréf umboðsmanns hér.

Í byrjun árs 2013 barst umboðsmanni svar við erindi sínu þar sem upplýst er að tekin hafi verið ákvörðun um að stofna til starfshóps sem verður falið að skoða hvort þörf er á sérstakri löggjöf um frístundaheimili fyrir nemendur á grunnskólaaldri. Í bréfinu segir:

Þessa ákvörðun tekur ráðherra m.a. í kjölfar ábendinga og áskoranna undanfarin misseri um að ráðuneytið beiti sér fyrir lagasetningu um þá starfsemi sem heyrir undir 33. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. M.a. hefur verið bent á að nauðsynlegt er að hafa ákvæði í lögum um öflun upplýsinga um umfang og starfsemi frístundaheimila, setja viðmið um starfsaðstöðu og búnað frístundaheimila sem og um menntun starfsfólks frístundaheimila. Þá hefur einnig verið bent á að nauðsynlegt er að eftirliti og mati sé sinnt markvisst til að tryggja að þjónustan taki sem best mið af þörfum barna og vísað í þeim efnum til upplýsingaskyldu sveitarfélaga.

Í bréfinu segir ennfremur að umboðsmanni barna verði boðið á fund starfshópsins til að setja fram sjónarmið embættis umboðsmanns barna.

Umboðsmaður barna fagnar þessum góðu fréttum og vonar að innan skamms verði hafin vinna við lagasmíð um þessa mikilvægu starfsemi.